19.04.1932
Neðri deild: 55. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1066 í B-deild Alþingistíðinda. (662)

9. mál, brúargerðir

Jörundur Brynjólfsson:

Það er engin furða, þótt menn láti þetta mál til sín taka, svo mjög sem það snertir samgöngumál hinna einstöku héraða. Mér finnst því ekki undarlegt, þótt raddir komi fram um endurbætur á þessu frv., þótt ég geti í aðalatriðum fallizt á skoðun hv. frsm.

Þó hygg ég, að þörf sé á að gera frekari ráðstafanir á stöku stað. Þannig get ég tekið undir með hv. 2. þm. Rang. um nauðsyn brúar á afrétti Holtamanna á veginum, er liggur norður Sprengisand. Menn verða oft að eiga í miklum brösum við að koma fénaði sínum á afrétt og lenda oft í miklum hrakningum.

Ég hygg því, að mjög vel væri til fallið hvað þessa brú snertir, sem hann hefir ásamt samþm. sínum borið hér fram, að hún kæmist inn í þetta frv. Bæði er það, eins og hann réttilega gat um, að þetta er á alfaravegi, en myndi verða mun fjölfarnara, ef brú væri komin á þetta mikla vatnsfall, auk þess, að þetta er, eins og tekið hefir verið fram, á leið til afréttar og oft mjög torvelt að komast yfir um. Hinsvegar get ég tekið undir það með hv. frsm. n., að ekki er vert að vera að hrúga inn í þetta frv. brúm á smáar, sem ekki kosta mikla fjármuni og ætlazt er til, að héruðin standi að mestu leyti sjálf straum af. Þó tel ég ekki vert, að þannig sé farið að, að samgmn. geri nú till. um, að tvær brýr á smáár séu felldar niður í þessu frv. og auk þess brú á Hvítá hjá Kiðjabergi. Ég hygg, að það sé af því, að hv. samgmn. þekki ekki til staðhátta þarna eystra, er hún gerir slíka till., eða hafi ekki fengið upplýsingar um nauðsynina til brúargerðarinnar. Í þessu efni er það ekki nægilegt, hversu margar brýr eru á einu vatnsfalli, heldur verður að hafa í huga, hversu umferð yfir vatnið er háttað. Þannig er ástatt, að ein einasta brú er yfir Hvítá (á Brúarhlöðum); brúin hjá Tryggvaskála er yfir Ölfusá. Þótt ekki skipti að vísu miklu máli, hvort nafnið er, þá er þessi brú neðst í byggðinni, en hin eina brú, sem er á Hvítá, er mjög ofarlega, eða skammt frá Gullfossi. Umferðin er að vísu mest yfir Ölfusárbrúna, en þó er einnig mikil umferð milli Biskupstungna og Hrunamannahrepp. Einnig koma margir ferðamenn til að sjá Gullfoss, fara inn í Þjórsárdal og austur um Fljótshlíð. Nú er gert ráð fyrir í þessu frv., að brú verði byggð á Iðu, og er það sökum þess, að Hvítá skiptir Grímsneslæknishéraði í tvennt, og er hún oft erfið yfirferðar að vetrarlagi og oft ómögulegt að komast yfir hana. Hefir það þrásinnis komið fyrir, að sækja hefir orðið lækni til Eyrarbakka, og það jafnvel innst innan úr Þjórsárdal. Að vetrarlagi er þetta mjög erfitt, því að ekki er hægt að koma bifreiðum við nema nokkurn hluta leiðarinnar. Tekur því oft langan tíma að sækja lækni, og þess vegna er það einmitt lagt til, að byggð verði brú á Iðu. Þess má geta, að ferðamenn munu fara mjög mikið um brúna, þegar hún er komin, þótt það sé fyrst og fremst vegna læknishéraðsins, að gert er ráð fyrir, að á þessi verði brúuð. Aðstaðan til brúargerðar er þarna mjög góð, klappir beggja vegna og brúin verður ekki löng. En hún kostar samt það mikla fjármuni, að ekki er á héraðsins færi að byggja hana.

Þá er einnig gert ráð fyrir í þessu frv., að brú verði byggð fyrir innan Bláfell. Ég skal fullkomlega viðurkenna, að hún er að nokkru leyti í þágu Biskupstungamanna, sem eiga að sækja yfir Hvítá inn á afrétt sína, sem er mestmegnis innan við ána. En auk þess er brúin á Kjalvegi, sem er nú, hrátt fyrir hina miklu torfæru að komast yfir Hvíta, mjög fjölfarin. Get ég ekki betur séð en að það sé hin mesta nauðsyn að fá gerða brú á þessum stað. Þess má og geta, að mjög er fjölfarið inn á afrétt Biskupstungnamanna, sérstaklega að sumarlagi. Þangað er mikill ferðamannastraumur, en mikil hætta fyrir ókunnugt fólk að fara yfir Hvíta á þessum stað. Landslag er mjög fagurt fyrir innan Hvítá, og sækjast menn mjög eftir að koma þangað og eyða þar sumarleyfi sínu.

Um brú á Hvíta hjá Kiðjabergi, sem samgmn. leggur til að sé numin burt úr frv., er nokkuð öðru máli að gegna. Frá Kiðjabergi er ekki mjög langt niður að brúnni, sem nú er. Ef ætlazt er til, að sú umferð, sem myndi verða um hina fyrirhuguðu brú á Hvítá hjá Kiðjabergi, beinist yfir þá brú, sem ráðgerð er á Iðu, myndi það lengja veginn suður í Flóa um 40–50 km. Grímsnesbraut liggur hjá Seyðisholum í Grímsnesi, og kemur það oft fyrir, að á vetrum skeflir svo yfir veginn, að tekur fyrir alla bifreiðaumferð. Nú liggur vegurinn út Grímsnes eins og áður er sagt, og um brúna á Soginu, út með Ingólfsfjalli og niður um Ölfusarbrú að Tryggvaskála. Nú er í ráði, að Biskupstungnamenn, Grímsnesingar og jafnvel Rangæingar, sérstaklega hinir fyrrnefndu, gerist þátttakendur í þeirri starfsemi, sem nú fer fram við Mjólkurbúi Flóamanna. Er þetta ekki mjög tilfinnanleg vegalengd að sumarlagi, ef farið er út um Grímsnes og yfir Sogið, en að vetrarlagi er hún oft ófær. Frá Grímsnesbraut hjá Minniborg og niður að Kiðjabergi er sléttlendi og frá brúarstæðinu Flóamegin er að heita má bein lína í samband við þá vegi, sem verið er nú að leggja í Flóanum, og myndu geta orðið greiðfarar samgöngur að vetrarlagi um þann veg. Það er því þessum sveitum mjög brýn nauðsyn að fá brú hjá Kiðjabergi. En með því fyrirkomulagi, sem nú er, getur orðið algerlega ófært yfir ána, því að ferjustaður er þarna ekki góður. Auk þess sem vantar upphleyptan veg frá Hvítá og upp að Grímsnesbraut, er samgöngum þessum nauðsyn að fá brú u Hvítá hjá Kiðjabergi, eins og óskað hefir verið eftir. En til viðbótar því, sem ég hefi tekið fram, má benda á, að væri brú þarna, þá myndu Grímsnesingar, sem hafa lítil engjalönd, en sauðfjárlönd mikil og góð kúabússkilyrði, sækja heyskap suður í Flóa, en það má telja lítt mögulegt eins og ástátt er nú. Ég vænti, að þegar hv. d. hefir heyrt þær ástæður, sem eru þess valdandi, að þessari brú var bætt í frv. í Ed., þá leyfi hún nú hinni fyrirhuguðu brú á Hvítá að standa áfram í frv. Ed. setti þessa brú inn í sökum þeirrar nauðsynjar, sem héraðsbúum er á því að fá þarna góða brú.

Ég skal ekki fjölyrða um málið frekar. Ég vona, að hv. d. líti á nauðsyn þess og fallist ekki á till. samgmn. um að fella þessa brú úr frv.