08.04.1932
Neðri deild: 46. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í B-deild Alþingistíðinda. (67)

1. mál, fjárlög 1933

Sveinbjörn Högnason:

Við þingmenn Rang. eigum hér brtt. saman, á þskj. 334, og er þar farið fram á, að Jóni Ág. Gissurarsyni verði veittur 1000 kr. styrkur til framhaldsnáms í Þýzkalandi. Af því að hv. fyrri flm. er hér ekki viðstaddur, mun ég víkja að henni nokkrum orðum. Þessi maður var í fyrra við nam á verzlunarháskóla í Þýzkalandi, og er þar nú. Hann er mjög efnilegur maður, og stundar nám sitt vel og samvizkusamlega, og liggja hér fyrir ágæt meðmæli frá kennurum hans þar ytra.

Þó að nú sé erfitt með allar styrkveitingar, lít ég svo á, að Alþ. verði að halda áfram að veita slíkan námsstyrk sem þennan. Þarna er efnalaus en efnilegur maður búinn að hefja ákveðið sérnám og fá uppörvun Alþ. til þess, og það er mjög tilfinnanlegt, ef Alþ. kippir að sér hendinni með styrk, meðan námið er ekki nema hálfnað. Hér er ekki um upphæð að ræða, sem nokkru getur á riðið fyrir ríkissjóðinn, en þetta er sérstaklega mikils virði fyrir þennan mann, þar sem hann hefir ekki getað komizt undir þann styrk, sem menntamálaráðið úthlutar. Sá styrkur helzt alveg óbreyttur, og æskilegt væri, að þessi maður fengi einnig að halda styrk sínum óskertum, svo að hann geti lokið námi.

Þá vildi ég minnast á ummæli hæstv. forsrh. út af sandgræðslunni. Ég er hv. fjvn. þakklátur fyrir það, að hún hefir séð sér fært að hækka þann styrk upp í 30 þús. kr. En þrátt fyrir það er þessi liður lækkaður frá því í fyrra. Í ræðu hæstv. forsrh. gætti þess misskilnings, að ef lækkaður væri styrkurinn til Búnaðarfélags Íslands, ætti líka að lækka fjárveitinguna til sandgræðslunnar. En sú lækkun, sem farið hefir fram á þessum liðum, er alls ekki sambærileg. Í fjárlögum í fyrra voru 40 þús. kr. veittar til sandgræðslu, en nú hafa aðeins 20 þús. verið teknar í fjárl. En Búnaðarfélagið fékk í fyrra 250 þús. kr., en nú er áætlað, að það fái 210 þús. kr. Af þessu er auðsætt, að sandgræðslan hefir sætt langtum meiri lækkun en Búnaðarfélagið. Ég er hæstv. forsrh. því ekki sammála um það, að sandgræðslan sæti samskonar kjörum og önnur búnaðar- og ræktunarmál. Þó að styrkurinn verði hækkaður upp í 30 þús. kr., eins og hv. fjvn. leggur til, yrði lækkunin samt 1/4 af styrknum frá því í fyrra, en þó að styrkur Búnaðarfélagsins yrði lækkaður niður í 200 þús., væri það ekki nema 1/5 hluta lækkun frá síðustu fjárlögum. Ég tel alveg rétt, að eitt sé látið ganga yfir þessa liði báða, og bendi hv. dm. á það, að þótt sandgræðslustyrkurinn verði hækkaður upp í 30 þús. kr., er það þó verr farið en Búnaðarfélagið. Ég vænti þeirrar sanngirni af hv. þdm., að þeir sjái, að hv. n. hefir ekki gengið of langt með þessari till., og leggi henni því lið sitt.