08.04.1932
Neðri deild: 46. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í B-deild Alþingistíðinda. (69)

1. mál, fjárlög 1933

Jörundur Brynjólfsson:

Það er nú orðið mjög framorðið, og þeir hv. þdm., sem hér eru enn í sætum sínum, orðnir þreyttir; þess vegna skal ég vera mjög stuttorður.

Það eru aðeins tvær brtt., sem ég þarf lítilsháttar að gera grein fyrir, og er báðar að finna á sama þskj., 334. Sú fyrri er XVIII. brtt. í röðinni og er flutt af mér ásamt báðum hv. þm. Rang., og fer fram á 1000 króna styrk til dýralækninga með þeirri aths., að styrkurinn veitist mönnum, er dýralækningar stunda og dýralæknar mæla með, í þeim héruðum, sem erfitt eiga með að ná til dýralækna landsins. Ástæðan til þess, að við flytjum þessa brtt. er sú, að 5 menn, sem stundað hafa dýralækningar í héruðum hér sunnanlands hafa sótt til þingsins um 500 króna styrk handa hverjum þeirra á ári, til þess að þeir geti gefið sig áfram við þessum lækningum. En sakir erfiðleika ríkissjóðs sáum við okkur ekki fært að taka upp í brtt. upphæð í líkingu við það, sem þeir fara fram á. Þó að upphæðin sé lítil, þá er þó hægt með henni að sýna nokkrum þeim mönnum, er dýralækningar stunda, lítilsháttar viðurkenningu og greiða fyrir þeim að afla sér nauðsynlegustu verkfæra. Ég sé, að tveir hv. þm. flytja hér brtt. um að veita tveimur tilgreindum mönnum nokkuð hærri styrk í sama skyni, 500 og 600 krónur til hvors. Að þm. flytja slíkar till. nú, eins og illt er í ári, sýnir nauðsyn þessa máls, enda hygg ég, að þetta hafi meiri hýðingu fyrir bændur og búfjárrækt þeirra en þó að fjölgað væri dýralæknum, sem mikinn kostnað hlyti að hafa í för með sér, ef að gagni ætti að koma. Vænti ég því, að hv. deild taki málaleitun þessari vel og samþ. till. okkar. Ég skal geta þess, að 5 menn, sem til þingsins hafa sótt um styrk í þessu skyni og ég drap á áðan, hafa tvívegis sótt námskeið, sem Hannes Jónsson dýralæknir hefir staðið fyrir. Í grg., sem styrkbeiðni þeirra fylgir, segjast þeir hafa haft frá 50–100 sjúkravitjana á ári. Fyrir einyrkjabændur er slíkt tímafrekt og hlýtur að hafa talsverðan kostnað í för með sér, enda kvarta þeir um, að þeir geti ekki selt fyrirhöfn sína eins og hún kostar.

Þá kem ég að hinni brtt., sem er á þskj. 362 I. Hún fer fram á að heimila stj. að greiða Búnðarbanka Íslands eftirstöðvar af láni Áslækjarrjómabúsins við viðlagasjóð ásamt áföllnum vöxtum, kr. 6030.00.

Saga þessa máls er sú, að árið 1923 stofnaði Áslækjarrjómabú til smjörlíkisgerðar í sambandi við rjómabúin, og veitti Alþingi lán til þess að kaupa vélarnar. En á næsta ári setti Alþingi leig um að banna smjörlíkisgerð í sambandi við rjómabú. Á þinginu 1924 var þessu búi veitt undanþága frá banninu og ætlazt til, að það gæti starfað áfram. En í sambandi við fregnir, sem bárust frá búinu um samblöndun smjörs og smjörlíkis, gekk sala á smjöri mjög illa, og varð endirinn sá, að rjómabúið varð að leggjast niður og smjörlíkisgerðin líka. Situr hreppsfélagið því uppi með vélarnar og skuldirnar. Síðastliðið haust var skálinn rifinn og brakið úr honum selt fyrir 400 krónur. Þetta hreppsfélag er illa statt vegna ýmissa framkvæmda, sem það hefir ráðizt í á síðari árum. Árið 1929 kom það sér upp skólahúsbyggingu, sem kostaði 57 þús. kr., og lagði 8 þús. kr. í brú á Stóru-Laxá. Þarna eru samtals 65 þús. kr., sem hreppsfélagið hefir ráðizt í svo að engan þarf að furða, þó að hagur þess sé erfiður. Till. mín er því flutt með það fyrir augum að hlaupa hér lítilsháttar undir bagga. Þess skal getið, að áhöld búsins eru enn til, en ekki hefir tekizt að selja þau, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Ég vona því, hvað sem annars mætti um mál þetta segja, að hv. d. líti með sanngirni á málavexti og sjái sér fært að verða við till. minni, að ríkisstj. veitist heimild til að greiða Búnaðarbankanum þessa upphæð. Það er ekki hægt að fara fram á, að upphæðin sé gefin eftir, af því að hundið er með lögum, að bankanum skuli reiknast þetta sem tekjur úr viðlagasjóði.

Af því að svo fáir eru orðnir eftir hér í d., ætla ég ekki að orðlengja þetta frekar, en þakka heim fáu, sem hlýtt hafa á þessi erindi mín.