15.03.1932
Efri deild: 29. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1085 í B-deild Alþingistíðinda. (692)

10. mál, Brunabótafélag Íslands

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

það er vel, að horfur eru nú á, að mál þetta fái afgreiðslu. Það er áreiðanlegt, að það er orðin full þörf á nýrri löggjöf um þetta efni. Mér þykir vænt um afgr. hv. n. og ég tel brtt. hennar til bóta. Eins og kom fram hjá hv. frsm., þá hafa orðið nokkur mistök á frv. í prentun.

Ég hygg, að það sé ástæðulaus ótti hjá hv. 1. landsk., að frv. sé ekki nægilega undirbúið. Það er samið af forstjóra Brunabótafélagsins og síðan yfirfarið af skrifstofustjóra í atvmrn. Ég er ekki í vafa um, að hann hefir vandað til þess verks. Hvort eitthvað megi um það bæta, það skal ég ekkert segja um, en yfirleitt hygg ég, að frv. hafi fengið forsvaranlega vandaðan undirbúning.

Um endurtrygginguna skal ég ekki mikið tala; ég er enginn sérfræðingur á því sviði. Það er atriði, sem hv. Alþingi verður að meta, hvað mikið af tryggingunum beri að taka á innlendar herðar og hvað mikið eigi að endurtryggja erlendis. Mér finnst ekkert ósennilegt, að við nú, eftir 15 ára starf, getum orðið dálítið óháðari erlendum tryggingarstofnunum en við vorum í byrjun. Það er sjálfstæðismál okkar að losa félagið smátt og smátt við þessa erlendu skattgreiðslu. Það er ef til vill of stórt spor stigið í frv. í þá átt; það get ég ekki sagt um. En það ætti að mega athuga betur í sambandi við þá brtt., sem hv. 1. landsk. hefir boðað, að hann flytji við 3. umr.

Viðvíkjandi þeirri yfirstjórn, sem bollalögð er í lögunum frá 1915, þá er það af fjárhagslegum ástæðum, að lagt er til að fella það ákvæði niður. Slík yfirstjórn getur komið til mála síðar, þegar félaginu vex fiskur um hrygg. Og ef það þykir rétt að setja félaginu umsvifameiri stjórn, þá er það ekki útilokað, þótt ekki sé gert ráð fyrir því í frv.