15.03.1932
Efri deild: 29. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1089 í B-deild Alþingistíðinda. (698)

10. mál, Brunabótafélag Íslands

Jón Þorláksson:

Það er dálítill misskilningur, sem kom fram í þeirri hugsun hæstv. forsrh., að það sé sjálfstæðismál, að Brunabótafélag Íslands sé sem óháðast endurtryggingarfélögum. Sjálfstæði félagsins ár einmitt í því fólgið að kaupa sem mest áhættuna frá sér yfir á önnur félög. Þetta er einmitt hið sérkennilega við þennan félagsskap. Einstaklingurinn tryggir sjálfstæði sitt með því að kaupa tryggingu fyrir líf eða eignir hjá öðrum. En brunabótafélag tryggir sig aftur fyrir stórfelldum fjárútlátum með því að endurtryggja hjá öðrum félögum. Ef okkar félög vildu fara sömu leið og erlend félög og standa þeim jafnfætis, þá ættu þau að taka hjá þeim til endurtryggingar jafnháa fjárhæð og við endurtryggjum hjá þeim. Það gæti verið sjálfstæðismál, en liggur utan við þessar umr.

Ummæli hæstv. forsrh. benda til þess, að stj. væri ekki vel ljóst, í hvaða smiðju hefði verið farið með samningu þessa frv. Það kom að vísu fram, að forstöðumaður Brunabótafélags Íslands hefði séð um samningu þess, en skrifstofustjóri í stjórnarráðinu síðan lesið það yfir. Nú vil ég engar brigður á það bera, að forstöðumaður brunabótafélagsins hafi kynnt sér þessi mál allýtarlega. En þó er hvorttveggja, að hann hefir enga sérmenntun hlotið á þessu sviði, og auk þess er frv. samið fyrir nokkuð löngu, einmitt áður en hann var búinn að fá mikla reynslu í starfinu. Um skrifstofustjórann er það að segja, að hann þekkir ekkert sérstaklega til þessara mála, fram yfir það, sem hver gegn og menntaður maður getur aflað sér vitneskju um svona yfirleitt. Og ég hefði ekki fundið ástæðu til þess að kvarta um það í n., að frv. væri ekki undirbúið af nægri sérþekkingu, ef ég hefði ekki litið svo á, að í því efni bæri að gera meiri kröfur en þær, sem skrifstofustjórinn gæti uppfyllt. Ég hefi nú verið svo léttúðugur að lofa því að koma með brtt. við 7. gr. frv. við 3. umr. Mér er það ljóst, að n. er ekki svo úr garði gerð, að hún sé fær um að dæma um, hver sé hæfileg endurtrygging hjá félaginu, svo að það fullnægi viðurkenndum kröfum á því sviði. Ég veit, að ég er a. m. k. enginn sérfræðingur á því sviði. En ef frv. er borið undir fagmann, þá mundi hann, eftir að hafa athugað hag félagsins og hættu þá, er því stafar af tryggingunum, geta sagt upp á hár, hversu því bæri að haga sér um endurtryggingar, eftir heim viðurkenndu reglum, sem til eru um þetta.

Ég mun því leyfa mér að taka upp till. um, að umr. verði frestað og frv. afhent sérfræðingi til athugunar. Enda þótt ég sé nú dauður í þessu máli, vil ég samt, að álit hans geti komið hér til athugunar áður en gengið verður til atkv. við 2. umr. frv.