01.04.1932
Efri deild: 40. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1092 í B-deild Alþingistíðinda. (704)

10. mál, Brunabótafélag Íslands

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Samkv. því, sem fram kom við fyrri hl. þessarar umr., hefir fjhn. tekið frv. aftur til athugunar, sérstaklega með það fyrir augum að fá um það umsögn sérfræðings. Hefir n. kallað á sinn fund Brynjólf Stefánsson tryggingarfræðing. N. átti allítarlegt samtal við hann, og tjáði hann sig fúsan til að gefa n. leiðbeiningar og sagðist telja ástæðu til að breyta nokkrum atriðum í frv. Síðan sendi hann n. tillögur um breytingar, sem hún svo tók til athugunar á fundi og varð sammála um að leggja fyrir hv. d. Að vísu eru brtt. ekki alveg óbreyttar frá því, sem hann lagði til, en aðalefni þeirra hefir n. ekki raskað.

Ég skal taka það fram að því er mig snertir, að þó ég sæi mér ekki fært að leggja á móti því, að þessar brtt. verði samþykktar, get ég ekki neitað því, að sumar þeirra finnst mér ganga í þá átt að þrengja verksvið félagsins. Ég vil þó ekki ganga algerlega fram hjá því, sem sérfróður maður í þessu efni leggur til.

Ég skal þá víkja með örfáum orðum að hverri einstakri brtt., eins og þær liggja fyrir á þskj. 267.

Fyrsta brtt. er við 2. gr. frv. og er þess efnis að fella niður orðin „og í Reykjavík, ef um semst“. þessi brtt. er ekki fram komin vegna þess, að sérfræðingurinn eða n. áliti, að nokkuð væri í veginum fyrir því, að Brunabótafélag Íslands taki að sér brunatryggingar hér í Rvík, þegar tími er til kominn og félagið hefir aðstöðu til þess, heldur vegna þess, að þegar þar að kemur, er gefin sök, að það verður að gerast með lögum. Þess vegna er sú heimild, sem í frv. er til þess að brunabótafélagið megi taka að sér brunatryggingarnar í Rvík, þýðingarlaus, nema þá til að benda á, að að því skuli stefna. Það má segja, að það sakaði ekki, þótt þessi heimild stæði í lögunum, en það væri frekar tilgangslítið, þar sem sérstaka löggjöf þarf til þess hvort sem er, að framkvæmd geti hafizt á þessu sviði.

Þá er hér brtt. við 4. gr. Er greinin þar orðuð um og um leið nokkuð breytt efni hennar. Þar er gert ráð fyrir, að einn og sami sjóður verði fyrir fasteignatryggingar og lausafjártryggingar í sveitum, og n. var öll sammála um, að það mundi vera fullt svo heppilegt fyrirkomulag sem það, er frv. gerir ráð fyrir. — 3. brtt. má segja, að sé framhald af 2. brtt. Hún gerir ráð fyrir, að aðeins verði tveir tryggingarflokkar, og er þannig bein afleiðing af breyt. á 4. gr. frv.

Þá er 4. brtt., við 7. gr. frv. Hún virðist í fljótu bragði ekki vera mikil efnisbreyt., en er það þó í raun og veru. Þar er tekið skýrara fram en gert er í frv., hvað sé áhættueining. Upphæð sú, sem ákveðið er, að félaginu sé heimilt að láta ekki endurtryggja, er hin sama í frv. og brtt., en þess ber að gæta, að eftir brtt. á að vera innifalið í upphæðinni það lausafé, sem kann að vera tryggt í sambandi við fasteignirnar, og það gerir ekki svo lítinn mun. Ég skal geta þess, að Brynjólfur Stefánsson tók fram, að eftir fjárhag félagsins nú teldi hann fullforsvaranlegt, að það hefði á eigin ábyrgð þá upphæð, sem brtt. tiltekur.

6. brtt. er afleiðing af 2. og 3. brtt. á þessu þskj. — Síðasta brtt., sú 7., er bara leiðrétting. f frv. hafði laðst að taka með lög, sem felldu úr gildi lögin frá 1919, en þarna er þeim bætt við.

Ég hefi áður farið út í brtt. n. þær fyrri, og sé ekki ástæðu til þess að bæta við það nú. Hér á fundinum hafa komið fram brtt. frá hv. 3. landsk. og hv. þm. A.-Húnv. Eins og gefur að skilja, hefir n. ekki getað athugað þessar brtt., og ég vil því, fyrir hönd n., mælast til þess, að flm. taki þessar brtt. aftur til 3. umr., svo að n. gefist tóm til að athuga þær. Það er erfitt að taka endanlega afstöðu til brtt., sem koma svona fram á sama fundi og greiða skal atkv. um þær. Ég tel því heppilegra, að þær komi ekki til atkv. í þetta sinn.