09.04.1932
Neðri deild: 47. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í B-deild Alþingistíðinda. (71)

1. mál, fjárlög 1933

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég skal ekki fara mörgum orðum um brtt. n. og einstakra þm. Í þess stað læt ég nægja að vísa til þess, að í þessum hluta fjárl. eru nokkrar upphæðir, sem hv. n. hefir gert brtt. um lækkun á, er tæplega geta staðizt. Ég get játið nægja að benda á eitt dæmi um lækkun á starfslaunum til þeirra, er vinna á spítölum, því að hvað hjúkrunarkonurnar snertir, þá eru laun þeirra samningsbundin, og þótt eitthvað kunni að vera hægt að breyta launagreiðslum til annara starfsmanna spítalanna, þá verður ekki hægt að lækka þau sem svarar þeirri upphæð, sem n. leggur til. Þá vil ég vekja athygli á því, að á síðastliðnu hausti var kaup stundakennara við ríkisskólana lækkað úr 4 kr. niður í 3 kr. á klst., svo að ég álít, að laun þeirra sé tæplega hægt að lækka meira. Þetta kaup sýnist vera það lægsta, sem kalla má sómasamlegt fyrir menntaða og langskólagengna kennara. Það má vera, að óhætt kunni að vera að lækka tillag til menntaskólans vegna minnkandi aðsóknar að honum, en á kennaraskólanum hefi ég enga von um, að hægt verði að spara þær 1 þús. kr., sem hv. n. gerir till. um. Ég skal fúslega játa það, að 10 þús. kr. til bygginga gagnfræðaskóla hrekkur ekki langt til þeirra þarfa, en frá minni hendi er þetta tillag fremur sem viðurkenning um skyldu ríkisins til þess að styðja að byggingu betri skólahúsa fyrir þessa skóla. Að sjálfsögðu verður gert betur, þegar batnar í ári. Það er kunnugt, að þegar liðir falla niður af fjárlögum, er erfiðara að taka þá upp aftur, þótt kostur sé. Eins og hv. dm. er kunnugt, hefi ég alveg fellt niður úr fjárlögum tillag til héraðsskólanna. á undanförnum árum hefir miklu fé verið varið til bygginga slíkra skóla, og það svo, að gera verður ráð fyrir, að ekki verði att við að koma upp fleiri slíkum byggingum að sinni. Eins og allir vita eru hinsvegar gagnfræðaskólarnir í kaupstöðunum svo að kalla húsnæðislausir, svo að þá verður að byggja í næstu framtíð, en þegar til þess kemur, má ætla, að fari saman geta bæjarfélaga og geta ríkissjóðs til þess að hrinda því máli til framkvæmda með sameinuðum kröftum. þessar 10 þús. kr. til gagnfræðaskólanna eru vitanlega aðeins til þess að minna á þessa þörf. Um niðurfærslu á tillagi til kennsluáhaldakaupa, sem hv. n. hefir lagt til, verð ég að segja, að þann lið hafði ég lækkað frá því, sem verið hefir, svo mikið sem mér fannst hægt. Sérstaklega er það Menntaskólinn, sem vart má við meiri lækkun. Þar verður að halda uppi kennslu bæði í stærðfræði, eðlisfræði og náttúrufræði. Við þá kennslu þarfnast góðra kennsluáhalda. ef vel á að vera. Ég hafði í fjárlagafrv. lagt til, að styrkurinn til blindrafræðslu lækkaði að miklum mun af heim ástæðum, að sú fjárveiting, sem hefir undanfarið verið veitt, hefir ekki verið notuð nema að litlu leyti. En eftir nýfengnum upplýsingum um það, að kennsla þessi sé aukin á yfirstandandi vetri, þá get ég fallizt á till. n. um að hækka þennan styrk, og vona, að fenginni þessari skýringu, verði það afsakað, að ég lækkaði hann svo mjög.

Um brtt. n. við 16. gr. frv. hefir hæstv. forsrh. áður talað. á þeirri gr. munar vitanlega mestu um sparnaðinn og get ég látið í ljós ánægju mína yfir því, að Búnaðarfélag Íslands hefir talið sig geta fallizt á þá lækkun, sem stungið hefir verið upp á. Hið sama get ég sagt um lækkun framlagsins til byggingar- og landnámssjóðs, sem bankastjórn Búnaðarbankans hefir fallizt á. Eftir ákvæðum tóbakseinkasölulaganna skiptist ágóðinn af einkasölunni milli byggingar- og landnámssjóðs og verkamannabústaða í kaupstöðum. Það er jagt til af n., að tillag þetta til byggingar- og landnámssjóðs falli niður eða komi upp í hið lögmælta tillag samkv. Búnaðarbankalögunum, og mun vera hægt að skilja einkasölulögin þannig, en aftur á móti verður tillagið til verkamannabústaðanna að standa, að lögunum óbreyttum. Það er að vísu eftir að minnast á ýmsar brtt. n., en ég mun láta þetta nægja, þótt ef til vill væri kannske ástæða til þess að ræða þær frekar. Yfirleitt fylgi ég brtt. n. og er henni þakklátur fyrir þær. Mér er ljóst, að þótt sá tonn sé nokkuð sár, sem í þeim er, þá byggist hann á hinni ríku nauðsyn til sparnaðar, sem ekki verður umflúinn. Tímarnir heimta þá fjármálastefnu.

Hv. þm. Seyðf. fer fram á það, að unglingaskólinn á Seyðisfirði skuli njóta sömu réttinda og unglingaskólar utan bæjanna. Það er rétt hjá hv. þm., að þessi skóli lenti milli pils og veggjar, þegar lög voru sett um gagnfræðaskólana, því að hann er nú sem stendur hvorki gagnfræðaskóli né skóli utan kaupstaða. Ég skal geta þess, að á Ísafirði starfaði unglingaskóli einn vetur eftir að lög þessi gengu í gildi, og var hann þá látinn njóta sömu réttinda og almennir alþýðuskólar utan kaupstaða. Ef hv. fjvn. getur fallizt á það, þá get ég ljóst því yfir fyrir hönd stj., að hún lítur svo á, að skólinn á Seyðisfirði eigi að njóta styrks sem alþýðuskóli, af því að hann hefir þannig orðið á milli þils og veggjar, og ætti þá hv. þm. Seyðf. að geta tekið aftur sína till.

Útlitið um afgreiðslu fjárlaganna eftir till. fjvn. má teljast sæmilegt. Það eru, eins og kunnugt er, tvær till. n., sem mestu munar á. Ef frv. sætir nú ekki verulegum breytingum, hvorki hér í hv. d. eða í hv. Ed., þá sýnist afgreiðsla laganna muni verða í viðunandi samræmi við þá tíma, sem nú eru. Hinsvegar ætti hv. þd. að vera það ljóst, að ekki má auka útgjöldin, nema þá með því að finna tekjur á móti nýjum útgjöldum. Hv. þm. Dal. hefir flutt brtt. um allháa fjárveitingu til styrktar útvarpsnotendum í landinu. Ég tel till. óeðlilega, þar sem hinir sömu menn, sem styrkinn eiga að hljóta, verða einnig krafðir um gjöld af útvarpinu. Það sýnist vera réttara, ef það telst fært að veita þessum mönnum einhverja linkind, að það komi þá fram sem eftirgjöf á lögmæltum gjöldum, en ekki sem styrkur, sem greiddur verði út um borg og bý. Þar fyrir utan sé ég mér ekki fært að styðja þessa till. vegna hins þrönga fjárkosts ríkisins nú. Það væri vitanlega gott að geta veitt þennan styrk, en það eru margar slíkar þarfir nú, sem ekki er hægt að sinna, og það engu síður ríkar þarfir.

Um till. hv. jafnaðarmanna um 1 millj. kr. framlag til atvinnubóta er líkt að segja. Ef ríkissjóðnum ætti að vera mögulegt að leggja fram það fé, þá þarf vitanlega að afla nýrra tekna til þess að standa straum af þeim útgjöldum. Hv. frsm. benti á leið til öflunar þessara tekna og bauð fram sína hjálp, til þess að fá þær samþ. hér á Alþingi, en ég verð að segja það, að mér lízt ekki á þær till. hans að hækka tekjuskattinn um 100% og eignarskattinn um 200%. Ég veit að tekju- og eignarskatturinn ásamt útsvörunum er það þungur skattur hér á landi, að gjaldþol manna leyfir það ekki, að hann verði þyngdur um 100–200%. (HG: Það er ekki farið fram á að hækka útsvörin). Nei, það er að vísu ekki beint farið fram á hað, en þó er það vitanlegt, að útsvörin verða að hækka, hlutfallslega við tekjur, að stórum mun. Það er víst, að gjaldgetan er ekki eins mikil og hv. þm. Seyðf. virðist álíta. Ég hefi nefnt áður 25% hækkun á tekjuskatti, og ég hefi þá trú, að sú hækkun ætti að vera hættulítil, en slíkar stórbreytingar sem till. hv. jafnaðarmanna fela í sér verða vart til tekjuauka, því að þær mundu, ef þær næðu samþykki, draga stórlega úr athöfnum og arðsvon.

Það má náttúrlega segja sem svo, að peningamennirnir ættu að geta borgað. En það vill nú oft fara svo, að peningarnir eru ekki í handraða hjá þessum mönnum, og þá getur farið svo, að hinir þungu skattar lendi á þeim bankastofnunum, er mennirnir hafa viðskipti við. Ég þakka vitanlega boð hv. þm. um samstarf, en það þarf að vera eitthvert hóf í till., en í boði hv. þm. var ekkert hóf. Annars virðist vera nokkurt ósamræmi í því hjá hv. jafnaðarmönnum, ef þeir ætla að fella þá tekjuliði ríkissjóðs, sem gilt hafa og nema hátt á aðra millj. kr., samtímis og þeir fara fram á 1 millj. kr. nýtt framlag úr ríkissjóði. Það hjálpar lítið, þótt þeir bjóðist til að útvega ríkissjóði 1 millj. kr. aukið framlag jafnframt því, sem þeir vilja svipta ríkissjóðinn 2 millj. kr. af þeim tekjum, er hann hefir haft undanfarið.

Ríkið þarf að halda þeim tekjustofnum, er það hefir haft og fá nokkra í viðbót, ef það á að geta staðið straum af lögmæltum gjöldum, og þar að auki nýjar tekjur fyrir þeirri 1 millj. kr., sem lagt er til, að veitt verði til atvinnubóta.

Þar að auki verð ég að segja, að mér finnst í þessari till. vera tekið nokkuð djúpt í árinni um atvinnubætur. Á sumarþinginu var heimiluð allt að 300 þús. kr. lántaka til að styrkja með atvinnubætur, enda legðu viðkomandi héruð fram tvo hluti kostnaðar móti einum frá ríkinu. Búið mun vera að útvega eftir þessari heimild allt að 100 þús. kr. samtals. Þarna mun því vera eftir 200 þús. kr. heimild, sem að litlu leyti ætti að þurfa að nota fyrr en í haust. Nú mætti ætla eftir reynslu þessa vetrar, að þessar 200 þús. kr. ættu að hrökkva langt til næsta þings, þótt atvinnubótaþörfin ykist um helming frá því, sem hún hefir verið á yfirstandandi vetri. Áætlun um þetta efni er að vísu mjög tvísýn, en þó ætti að mega vænta þess eftir því, hvernig gengið hefir, það sem af er, að þessi heimild nægði a. m. k. fram að áramótum, og þá er skammt eftir til þings, svo að það gæti þá gert þær ráðstafanir, sem þá væri sjáanleg horf fyrir. Ef ástandið yrði þá þannig, að það heimtaði stórlega auknar atvinnubætur á ríkiskostnað, þá býst ég við, að það mundi þurfa allra hluta vegna að kalla þingið saman ekki síðar en upp úr áramótunum.

Atvinnubótavinna, kostuð af hinu opinbera, er auðvitað nauðsynleg í einstökum tilfellum, til þess að fólk, sem annars mundi líða stórlega, komist hjá að líða nauð eða þiggja af sveit. En að öðru leyti er hún vitanlega engin lækning á þeim erfiðleikum, sem við er að stríða. Atvinnubótavinnan getur ekki komið í stað annarar vinnu, og við verðum að gæta þess, að ekki má leggja svo mikið fram til atvinnubóta, að það dragi úr möguleikunum fyrir því, að atvinnuvegirnir geti rétt sig við. Bótin á atvinnuleysinu er ekki fólgin í atvinnubótavinnu; eina viðunandi bótin á því fyrir almenning, í hvaða landi sem er, er, að sjálfir atvinnuvegirnir rétti við og fari að bera sig, því þá vex atvinnan á heilbrigðum grundvelli, svo að hún verður innan skamms nægileg fyrir allt starfandi fólk í landinu. Það má á engan hátt draga úr því, að þetta geti orðið sem fyrst; þess vegna er það nú svo í öllum löndum, hvaða stjórnir sem sitja að völdum, að þær verða heldur að halda í við þessa þörf, þörfina á fjárframlögum til atvinnubóta. Og ég hygg, að heimildir um 300 þús. kr. framlag, sem samþykkt var á sumarþinginu og notuð hefir verið minna en búast mátti við að þyrfti, sé í hlutfalli við samskonar ráðstafanir í öðrum löndum, þar sem sömu vandræði er við að stríða, en till. um að leggja fram eina millj. af ríkisfé til atvinnubóta, auk tillaga annarsstaðar að, mun fara langt fram úr því, sem annarsstaðar tíðkast í þessu efni. Einnig má benda á það, að þótt atvinnuleysið kreppi nokkuð að hér og margir eigi erfitt, þá stöndum við betur að vígi en margar aðrar þjóðir, því að okkar atvinnuvegir, sjávarútvegur og landbúnaður, stöðvast ekki að sama skapi og iðnaðurinn í iðnaðarlöndunum. Kreppan veldur langverstu ástandi, þar sem iðnaðurinn er einn af höfuðatvinnuvegunum, eins og er hjá mörgum af nágrannaþjóðum okkar. Af þessum tveimur ástæðum, að ekki er séð fyrir þeim sköttum, sem ríkið þarfnast, og þá ekki heldur fyrir þeirri tekjuviðbót, sem þyrfti vegna þessarar till., ef samþ. væri, og hinu, að hér mun vera gengið lengra en nauðsynlega þarf, eða a. m. k. lengra en þol okkar leyfir, þá sé ég mér ekki fært að fallast á þessa till. að svo komnu. Neita ég þó ekki þeim möguleika, að með breyttum ástæðum verði siðar nauðsynlegt að gera einhverja slíka ráðstöfun, en þá verður að stilla upphæðinni í hóf og gæta þess, að áður sé séð fyrir þeim þörfum ríkissjóðs, sem þegar eru lögbundnar.