22.04.1932
Neðri deild: 57. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1102 í B-deild Alþingistíðinda. (722)

10. mál, Brunabótafélag Íslands

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Ég vil fyrst út af aths. hv. 3. þm. Reykv., geta þess, að þegar ég í upphafi afgreiddi tillögur mínar til breyt. á lögum brunabótafélagsins til ríkisstjórnarinnar gerði ég ráð fyrir 2 meðstjórnendum með framkvæmdarstjóra, en ríkisstj. þótti ekki ástæða til að taka þá till. til greina. Ég get verið hv. 3. þm. Reykv. sammála um það, að eðlilegast sé, að höfð sé sameiginleg stjórn allra deilda tryggingarstofnunar ríkisins. Til þess að það gæti orðið þarf að breyta þeim lögum. Má það heppilegt teljast, að ein sameiginleg stjórn sé fyrir allar deildir tryggingastofnunarinnar, en hitt er óþarft og óþarflega umsvifamikið og kostnaðarsamt að hafa 3 manna stjórn fyrir hverja deild. En til þess að þetta geti orðið, þarf sem sagt að breyta l. um tryggingastofnanir.

Viðvíkjandi brtt. á þskj. 413 vil ég endurtaka það, sem ég sagði við 2. umr., að hún er óþörf, því að í l. brunabótasjóða sveitarfélaganna er beinlínis ákveðið, að sérsjóðirnir séu eign sveitarfélaganna. Þessir sjóðir eru í vörzlum héraðanna og heita brunabótasjóðir þess og þess hrepps, og hafa aldrei verið sameinaðir hinum sameiginlega brunabótasjóði sveitarfélaganna (MG: Hvar stendur það í frv., að svo sé?). Það segir ekkert um það í þessu frv. Í þessu frv. var beinlínis gert ráð fyrir því upphaflega, að brunabótasjóðir sveitarfélaganna ásamt hinum sameiginlega sjóði skyldu halda áfram að vera trygging fyrir deildinni fyrir brunatryggingar í sveitum utan kaupstaða og kauptúna, en í Ed. var þessu breytt þannig, að ætlazt er til, að sérsjóðir sveitarfélaganna verði þeirra eign, þegar breytingin kemur í gildi. Verður þetta að standa þangað til skyldutrygging kemst á 1934. Um hitt atriðið hefir líka verið rætt áður. Í 28. gr. sveitarstjórnarlaganna er ákveðið, að samþykki sýslunefndar útheimtist fyrir ályktunum hreppsnefnda í þeim greinum, sem þar eru taldar, og ein þeirra er sú, sem í 6. tölul. segir: „Til Þess að eyða innstæðufé sveitarinnar“. Nú eru þessir sjóðir innstæðufé, og er því algerlega óþarft að hrekja málið milli deilda af þeim ástæðum. Hefir náðst gott samkomulag um málið í Ed., og var frv. þar afgr. með shlj. atkv.