22.04.1932
Neðri deild: 57. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1103 í B-deild Alþingistíðinda. (723)

10. mál, Brunabótafélag Íslands

Magnús Guðmundsson:

Ég get ekki séð, að málinu sé hætta að því, þótt það fari til Ed. aftur, og getur það ekki aftrað mér frá því að bera fram réttmæta brtt. Hefi ég ekki sannfærzt um það af orðum hv. 1. þm. N.-M, að brtt. sé óþörf. Það er gerð sú ráðstöfun á þessum sjóðum, sem gera þarf. (HStef: Þess þarf heldur ekki). Það getur a. m. k. ekki spillt, þótt þetta sé tekið fram skýrum orðum.

Hv. þm. nefndi innstæðufé sveita í sambandi við sveitarstjórnarlögin. En þessir brunabótasjóðir hafa ekki hingað til verið taldir til innstæðufjár sveita, en við ætlumst til þess, að framvegis verði það gert, en erum hræddir um, að það geti orðið vafaatriði, ef ekki koma um það nein ákvæði í lögum. Fyrir því viljum við flm. brtt. á rskj. 113, að hún verði samþ., til þess að enginn efi sé á, að sveitirnar haldi þessu fé.