09.04.1932
Neðri deild: 47. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í B-deild Alþingistíðinda. (73)

1. mál, fjárlög 1933

Frsm. síðari kafla (Ingólfur Bjarnarson):

Hæstv. forsrh. fór hér í gær nokkrum viðurkenningarorðum um starfsemi fjvn., er ég sem form. hennar vil hér með þakka. En hann kom þó að einu atriði, sem mér skildist hann telja misráðið hjá n., og var það till. hennar um að lækka styrkinn til Búnaðarfélagsins um 10 þús. kr., en hækka að sama skapi það, sem veitt er til sandgræðslu. Hæstv. ráðh. gat þess, að hér væri að vísu um hliðstæða Starfsemi að ræða, og lauk hann lofsorði á sandgræðslustarfið. En mér skildist hann telja, að n. hafi sýnt Búnaðarfélaginu misrétti með till. um að lækka styrk þess sandgræðslunni í hag. Ég vil með örfáum orðum benda á, að þetta var a. m. k. alls ekki tilætlun n. Hún leit svo á, að eftir fjárlagafrv., eins og það lá fyrir, hefði sandgræðslan orðið sérstaklega hart úti. Í því sambandi vil ég taka fram, að tillagið til Búnaðarfélagsins hafði ekki í raun og veru lækkað nema um 10 þús. kr. frá því, sem er í núgildandi fjárlögum, og leiðrétta þar með ummáli hv. 2. þm. Rang. um þetta efni; hann hefir sjálfsagt ekki gætt þess, að í frv. er einn liður dreginn út úr tillaginu til Búnaðarfélagsins og færður á sérstakan lið: Til búfjárræktar.

Raunverulega var því styrkurinn til Búnaðarfélagsins ekki færður niður nema um 5%; hinsvegar hafði styrkurinn til sandgræðslunnar verið lækkaðar um 20 þús. kr. eða sem svarar 50%. Okkur í fjvn. fannst þarna misjafnt skipt milli þessara tveggja stofnana, og eftir því, sem fyrir já, virtist okkur, að þótt við legðum til þessa 10 þús. kr. tilfærslu, þá væri hlutur sandgræðslunnar samt sem áður stórum lakari. Fyrir lá áætlun um kostnað við sandgræðsluna. Eftir henni virðist þurfa 40 þús. kr. til þess að reka þær stöðvar, sem þegar eru komnar. Auk þess er farið fram á 25 þús. kr. framlag til nýrra stöðva. Nú gerum við ráð fyrir, að eitthvað af þessu fé, sem hér er talið að þurfi til að reka hinar einstöku stöðvar, sé ætlað til nýrra framkvæmda í sambandi við þær, og þess vegna drögum við frá þeirri upphæð fjórða hlutann, svo að eftir okkar till. á sandgræðslan ekki að fá nema 30 þús. kr., og þó eiginlega ekki nema 27 þús., því að 3 þús. er ráðstafað sérstaklega. Þetta vildi ég taka fram til að sýna, hvað fyrir okkur vakti; að það var ekki meining okkar að rýra hlut Búnaðarfélagsins óhæfilega mikið, en við álitum, að þessi litla lækkun mundi ekki koma hart niður á því.

Hæstv. fjmrh., sem talaði hér fyrir skömmu, gerði nokkrar aths. við till. fjvn. Leit hann svo á, að sumar lækkanirnar, sem n. fer fram á að gerðar séu á útgjaldaliðum fjárlagfrv., mundu naumast vera framkvæmanlegar. Þar á meðal talaði hann um laun við spítalana og sömuleiðis um stundakennslu við nokkra skóla, að þeir liðir mundu vera of lagt settir hjá n. Ég skal nú ekki segja mikið um þetta, en það, sem fyrir n. vakti, var það, að launagreiðslur við þessar stofnanir hlytu að lækka eins og gert er ráð fyrir annarsstaðar. Og mér þykir ótrúlegt, að fólkið, sem við þær vinnur, sé svo samningsbundið, að launakjörum þess verði ekki breytt í framtíðinni.

Hæstv. ráðh. talaði um, að stundakennslan væri orðin það ódýr, að hún mætti ekki lækka meira, og skal ég ekki dæma um það atriði.

En n. áleit, að kostnaður við stundakennslu mundi minnka af sjálfu sér vegna þess, að aðsókn að skolunum hlyti að minnka á þeim erfiðleikatímum, sem nú eru, enda bjóst hæstv. ráðh. við, að till. um lækkun stundakennslukostnaðar við menntaskólann mundi e. t. v. geta staðizt vegna minnkandi aðsóknar þar. Við hann skóla er þó um mesta lækkun að ræða eftir till. n., en ég get ekki skilið annað en að sú ástæða, sem gerir fært að lækka umræddan kostnaðarlið við menntaskólann, hljóti einnig að ná til kennaraskólans, sem hæstv. ráðh. tók þó sérstaklega fram, að ekki mundi mega lækka við. Ég get ekki hugsað mér annað en að aðsóknin að kennaraskólanum minnki engu síður en aðsóknin að menntaskólanum, því að þangað sækja, að ég hygg, fleiri menn utan af landi, og það vita allir, að skólaganga hér í Reykjavík er svo ákaflega dýr fyrir fólk utan af landi, að það ætti fyrst og fremst að koma fram á aðsókn þess, ef aðsókn að skólunum minnkar þar á annað borð vegna kreppunnar. Ég vil því halda fast við það, að þessi till. n. eigi einnig fullan rétt á sér.

Hæstv. ráðh. minntist á einn lítinn lið, sem við höfum lagt til að fella niður, og mæltist heldur undan því, að ráð væri gert. Var það tillag til byggingar fyrir gagnfræðaskóla í kaupstöðum. Hæstv. ráðh. gat þó um, að ekki væri meiningin að nota þessa upphæð, enda væri hún svo lítil, að hún kæmi ekki að verulegu liði. En hann vildi helzt láta liðinn standa þarna, til þess að hann gleymdist síður í framtíðinni, þegar um hægist aftur. Ég held nú, að fjárhagsástæður ríkisins séu þannig nú, að maður geti ekki verið að tylla á útgjaldahlið fjárlaganna upphæðum, sem ekki er búizt við, að þurfi að nota, og tel enga hættu á, að það kunni að gleymast að leggja fé til nauðsynlegra skólabygginga, þegar ástæður leyfa, þótt þessi liður sé nú látinn niður falla.

Um það, hvort n. hefir gengið of langt í því að fella niður eða lækka framlög til kennslubóka og áhaldakaupa í skólum, skal ég ekki mikið ræða; það getur auðvitað verið álitamál. En aðstaða n. eða meining var sú, að skólunum væri ekki neinn verulegur óleikur gerður, þótt till. hennar um að lækka styrk til þessara hluta í þetta sinn væru samþ., og er skoðun hennar alveg óbreytt um það atriði, þrátt fyrir andmæli hæstv. ráðh.

Þá ætla ég með örfáum orðum að minnast á afstöðu n. til hinna ýmsu brtt. frá hv. þm., og má búast við, að það verði ekkert þakklátt verk, því að ég get sagt það áður en ég vík sérstaklega að hverri till. fyrir sig, að meiri hl. n. leggur til, að þær verði allar felldar. Þetta þykir e. t. v. einkennileg afgreiðsla og aðstaða, en sé betur að það, er hún þó eðlileg og sjálfsögð eftir því, sem áður hefir komið fram um störf n. Aðalstarf hennar að þessu sinni hefir verið það, að ráðast á útgjaldaliðina og klípa af heim eða fella þá niður, og hefir hún gengið það langt í því efni sem henni finnst frekast mögulegt að komast, þó að hún viðurkenni hinsvegar, að þeir hlutir, sem um er að ræða, séu í sjálfu sér góðir og gagnlegir. Er eðlilegt, að starf hennar gangi í sömu átt gagnvart þeim till., sem fram hafa komið frá hv. þm. um styrki til einstaklinga og einstakra stofnana.

Ég mun þá minnast lítillega á einstakar brtt., í sömu röð og mælt hefir verið fyrir þeim. Er þá fyrst till. frá hv. 1. þm. Eyf., um að veita ákveðnum manni norður í Svarfaðardal styrk til að stunda dýralækningar, og hefir sú beiðni legið fyrir þinginu áður. Svo hafa komið fram frá öðrum hv. þm. samskonar beiðnir, bæði frá hv. þm. Dal., hv. 1. þm. Rang. og fleirum. Það er um afstöðu n. til þessara mála að segja, að hún treystir sér ekki til að mæla með till. Skoðanir nm. um þetta atriði eru þó ekki alveg óskiptar, en meiri hl. n. þykist verða að leggja á móti þessum till. Það má vitanlega margt segja þeim til meðmæla. En þótt ekki liggi fyrir nema fáar slíkar beiðnir nú, þá mundu margar koma á eftir, því að n. hefir ekki getað séð, að neitt sérstaklega stæði á á þeim stöðum, sem hér er um að ræða. T. d. situr dýralæknir í þeirri sýslu, sem Svarfaðardalur er í, og þó ég viti vel, að ekki er auðvelt að ná til hans þaðan, þá sjá allir, að ekki eiga menn hægra með að ná til dýralæknisins úr hinum sýslunum á Norðurlandi, sem fjær honum eru. Ég vil benda á það, að ef út á þessa braut er farið, þá yrði það víða, að slíkar beiðnir kæmu fram. Hinsvegar áleit n., að það væri miklu eðlilegra, að hin ýmsu héruð legðu eitthvað af mörkum til þessara mála, ef þau álitu þess þörf, eins og hv. flm. brtt. (BSt) benti á, að Svarfdælingar ætluðu sér að gera. N. er því á móti þessari brtt. eða meiri hl. hennar.

Hv. sami þm. á aðra brtt., um að greiða Guðrúnu Jóhannesdóttur, fyrrv. ljósmóður, eftirlaun. Fyrir n. lágu allmargar beiðnir um eftirlaun til ljósmæðra. í nál. er skýrt frá afstöðu n. til þeirra allra. Það er mála sannast, að það er komið í allmikið óefni með þessar konur. Upphaflega, er slík eftirlaun komust í fjárlög, þá var því slegið föstu, að þær skyldu hafa verið 50 ár að starfi. Í raun og veru hefir þeim skilningi ávallt verið haldið síðan, en því er þó alls ekki að neita, að fyrir harðfylgi ýmsra þm. hafa nokkrar komizt á fjárlög, sem ekki hafa náð þeim starfsaldri. Þetta sýnir það, að örðugt er að stöðvast, ef út af brautinni er farið, enda koma alltaf fleiri og fleiri beiðnir frá konum, sem segja má um, að gegnt hafi starfi sínu vel og séu þurfandi fyrir styrk. En það má segja svo um svo marga aðra þegna þjóðfélagsins, er vel hafa starfað, hver á sínu sviði. En ekki geta allir komizt á eftirlaun, nema löggjöfinni verði þá breytt í það horf. N. vill halda fast við hina upphaflegu stefnu í þessu máli og leggur því á móti þessari brtt. og öðrum slíkum. Meðfram er það af því, að þessum beiðnum fylgdu ekki þær upplýsingar, sem þurfti. Það er því till. n., að slíkar beiðnir verði framvegis sendar út stj., það tímanlega og með þeim upplýsingum, að hún geti lagt þær fyrir þingið, af henni þykir ástæða til.

Þá vil ég, af því að það er svipaðs eðlis, minnast á eftirlaun til nokkurra pósta, er till. hafa verið gerðar um. Sá flokkur manna er nú orðinn allfjölmennur á eftirlaunalistanum. Upphaflega komust aðeins þeir póstar inn í fjárlög, er höfðu gegnt störfum mjög langa hríð og á mjög erfiðum og löngum leiðum, erfiðari og lengri en nú eru til. Nú hefir það atvikast svo, að þessi regla hefir verið teygð lengra og lengra og fleiri og fleiri póstum hleypt inn í fjárlög, og er sama að segja um þá eins og um ljósmæðurnar, að þetta horfir til vandræða. Nú er alltaf verið að fjölga póstum, og póstleiðirnar jafnframt styttar, en svo lítur út fyrir, að jafnframt eigi að teygja þessa venju svo út, að hver og einn póstur komist á eftirlaun. Nú er það svo, að póststörf eru mjög eftirsóttar stöður, og ef eitthvert slíkt starf losnar, sækir jafnan fjöldi manns um það. En svo þegar sá, sem hnossið hefir hreppt, er búinn að gegna starfinu, lengri eða skemmri tíma, þá er komið annað hljóð í strokkinn; þá sækir hann um eftirlaun fyrir að hafa gegnt þessu „erfiða og lítt launaða starfi“ í mörg ár. Till. n. um þessar beiðnir er sú sama og um ljósmæðurnar. N. telur rétt, að þær séu sendar til stj. svo tímanlega, að hún geti rannsakað það til hlítar, hvort rétt sé að gera undantekningu frá aðalreglunni og veita eftirlaun.

Þá er enn ein till. frá hv. 1. þm. Eyf., um að veita Jóhannesi Jörundssyni dýrtíðaruppbót á eftirlaun sin frá 1928. Á þessu stendur svo, að á þingi 1928 var þessum manni veittur styrkur í fjárlögum 1929, og hefir hann haldið honum síðan. Að auki hefir honum verið veittur þessi sami styrkur fyrir árið 1928, en an dýrtíðaruppbótar. Svo var að skilja á hv. þm., að hann teldi þetta vera réttmæta kröfu á ríkissjóð, og ef svo er, þá þarf vitanlega ekki að leita til Alþingis með þetta mál, heldur hér að snúa sér til dómstólanna. En n. leit nú öðruvísi á þetta mál og taldi hér ekki vera um neina kröfu á ríkissjóðinn að ræða, og er eindregið á móti brtt. Eftirlaun þessa manns árið 1928 voru greidd í algerðu heimildarleysi, og það er æðimikil frekja að heimta dýrtíðaruppbót í ofanálag.

Þá er brtt. á þskj. 362, um greiðslu úr ríkissjóði á viðlagasjóðsláni „Mjallar“, að upphæð kr. 17700.00. Leggur n. á móti henni. Hv. þm. Mýr. flutti fyrir till. þessari langt og snjallt erindi, sem hans var von og vísa, og þótti honum slæmt að fáir þm. voru þá viðstaddir, því að hann bjóst augsýnilega við, að allir mundu sannfærast, er á hann hlýddu. Það fór nú öðruvísi með mig; ég hlýddi á ræðu hans frá upphafi til enda, en það var síður en svo að ég sannfærðist. Hann lýsti sögu „Mjallar“ sem væri hún óslitinn hrakfallabálkur, og mér fannst það ekki liggja fjarri að hugsa sem svo, að þessi óheppni, er stöðugt elti fyrirtækið, hafi stafað, a. m. k. að nokkru leyti, af óheppilegum starfsaðferðum. Ég vil benda á, að ríkið veitti félaginu um býsna langt skeið styrk til framleiðslu sinnar, en þrátt fyrir það hefir útkoman orðið sú, sem hv. þm. nú lýsti. Ég verð að geta þess, að n. er ekki á einu máli um afgreiðslu till., en meiri hl. leggur á móti henni.

Ég vil minnast á það, sem hv. þm. skýrði frá, að þrír menn í héraði stæðu í ábyrgð fyrir um 30 þús. kr. af skuldum þessa félags, og sú ábyrgð mundi sennilega lenda á þeim, ef ríkið hlypi hér ekki undir bagga. Mér er torskilið, hverskonar félagsskapur þetta er, sem svo ætlar að haga sér, að játa forgöngumenn sína fyrst hjálpa sér með ábyrgðum og ætla síðan að nota sér af því og jata þá borga skuldirnar. Ég sé ekki, að það séu mikil meðmæli með því, að ríkið hlaupi hér undir bagga með svona löguðum félagsskap.

Hv. þm. Dal. flytur brtt. á þskj. 334, um að ríkið hjálpi Kvennabrekkusöfnuði um 3000 kr. vegna kirkjubyggingar. Hv. þm. lýsti því, hvaða ástæður lægju til þessarar beiðni. Auðvitað er undirrótin sú, að í söfnuðinum hefir orðið ósamkomulag, sem hefir valdið því, að fólk hefir gengið úr kirkjunni. Þetta gerir það skiljanlegt, að söfnuðurinn á í erfiðleikum, en n. er það ljóst, að svona er víða astatt, að þegar kirkjur eru reistar af nýju, þá á söfnuðurinn örðugt með að rísa undir því. N. álítur því ekki fært að verða við þessari beiðni og skapa með því fordæmi, og leggur því til að brtt. sé felld.

Þá flytur sami þm. aðra till., um styrk til dýralæknis, sem starfar þarna vestra. Um hana er það að segja, að n. getur ekki mælt með henni frekar en öðrum samskonar brtt. Enn eina till. flytur sami hv. þm., um styrk til Torfa pósts Sæmundssonar. N. treystist ekki til að mæla með henni, frekar en öðrum slíkum till., og vísa ég til þaraðlútandi ummæla í nál.

Hv. þm. Ak. flytur ásamt öðrum þm. till. um eftirlaun til Guðmundar pósts Ólafssonar á Akureyri. Skjöl þau, er að þessari beiðni lúta, hafa að vísu ekki legið fyrir n., en n. leggur á móti henni sem öðrum samskonar beiðnum.

Þá flytur hv. 1. þm. Skagf. brtt., um að veita Baldvin Bárðdal 300 kr. ellistyrk. Þetta er gamall barnakennari, sem stundað hefir kennslu lengst af æfinnar og er nú þrotinn að kröftum. Það er sjálfsagt ánægjulegt að geta leyst þessi vandræði sem önnur, en ég vil benda á það, að þó hér sé um mjög litla fjárhæð að ræða og það þess vegna skipti ríkissjóð engu, þá er varhugavert að fara út á þessa braut. Og ég sé ekki, að verði þessum manni veittur styrkur, að þá sé hægt að kippa að sér hendinni og neita öðrum, sem eins stendur á um. N. getur því ómögulega mælt með þessari brtt.

Sama er að segja um brtt., sem báðir hv. þm. Rang. flytja, um styrk til Jóns Ág. Gissurarsonar til verzlunarnáms í Þýzkalandi. Eins og ég hefi áður skýrt fra, þá lágu fyrir n. ótal beiðnir um námsstyrki til ýmsra manna. N. sá þess engan kost að sinna þeim, og þann kost vænstan að láta eitt yfir alla ganga og leggja á móti þeim. Það nær engri átt að taka þennan mann fram yfir. Nú er svo háttað hér, að við eigum góða verzlunarskóla, og eins og nú er ástatt, þá held ég, að það sé sæmileg úrlausn fyrir menn að ganga á þá og utanferðum megi sleppa í bili. Ég hygg, að það sé margt annað, sem er eins aðkallandi nú. N. leggur einhuga á móti þessari till.

Hv. þm. Seyðf. ber hér fram allmargar brtt. Fyrst er till. um að styrkja ákveðinn námsmann, Jón Gauta Jónatansson. Um þessa till. er sama að segja og hina. N. telur sjálfsagt að játa eitt yfir alla ganga og leggur því á móti henni, enda finnst mér ekki vera neitt sérstaklega ástatt um þessa beiðni eftir framsögu hv. þm. að dæma.

Aðra brtt. á sami hv. þm., um fjárveitingu til unglingaskóla á Seyðisfirði. Hæstv. fjmrh. hefir upplýst, að hann gerði ráð fyrir, að þessi skóli gæti notið styrks af fjárveitingu þeirri, er veitt er til unglingaskóla utan kaupstaða, og vænti ég, að hv. þm. geti sætt sig við þá yfirlýsingu.

Þriðja brtt. hv. þm. er um hækkun á styrk til gamalmennahælis á Seyðisfirði. Sá styrkur er lækkaður í frv. frá því, sem verið hefir, en það er aðeins sú lækkun, sem nú gengur yfir svo marga, og er n. á móti brtt.

Þá er það XVl. brtt. á þskj. 334, um atvinnubótastyrkinn, þessi eina milljón. N. sá sér ekki fært að mæla með þessu. Ástæðan fyrst og fremst sú, að það hefir ekki þýðingu að samþykkja það, sem fé vantar til að framkvæma. Það er gert ráð fyrir, að kaupstaðirnir leggi fram aðra milljón á móti, og á að gefa heim kost á láni úr bjargráðasjóði. Ég veit nú ekki fyrir víst, hvað bjargráðasjóður er stór. Hv. þm. gerði ráð fyrir, að 1/2 millj. kr. mundi þar vera tiltæk. Ég hygg, að það sé ekki með öllu rétt. Bjargráðasjóður allur mun ekki vera meira en um 800900 þús. kr., og sameiginlegi sjóðurinn þá ekki meira en helmingur þess. Og ég fæ ekki séð, að hægt sé að taka séreignir sveitanna í þessu skyni, enda mun allmikið af sjóðnum fast. Og það, sem mestu máli skiptir, að Alþingi hefir ekkert ráðstöfunarvald yfir nokkru af sjóðnum. Annars skiptir þetta ekki miklu máli, því að þessi upphæð, sem farið er hér fram á frá ríkinu, er fjarri öllu því, sem hugsanlegt er í alvöru að það geti lagt fram nú. N. hefir líka aðra skoðun á því, hvaða leið eigi að fara, ef unnt er að veita fé til að bæta úr atvinnuskorti, sem sé þá, að veita meira fé til verklegra framkvæmda. En n. hefir því miður ekki treyst sér til að fara nema mjög skammt í því efni, eingöngu vegna þess, að fé er ekki til að hennar áliti. Þarf ég í því efni eigi annað en vísa til skýrslu frsm. fyrri kafla fjárlaganna.

Það er að vísu rétt, að hv. þm. vildi benda á færar leiðir til þess að fá tekjur til þessara hluta, en ég býst við, að flestir hafi skoðað það sem gaman, þar sem flokksbræður hans hafa lýst yfir því, að þeir myndu greiða atkv. á móti öllum tekjuaukafrv. og eins fjárl. Er dálítil andstæða milli þessara yfirlýsinga og till. hv. þm. Þá á sami þm. 3 till. á þskj. 334, XXVII. Sú fyrsta er um það, að ríkið gangi í ábyrgð fyrir samvinnufélag sjómanna og verkamanna á Seyðisfirði fyrir lánum til kaupa á fiskiskipum. Nú er það rétt, að heimild til að ganga í þessa ábyrgð var veitt á síðasta þingi, svo að hér er aðeins farið fram á endurveitingu heimildar. En fjvn. var á móti þessari ábyrgð og er enn. Held ég, að ekki sé nema einn staður, Ísafjörður, þar sem samskonar ábyrgð og þessi hefir komið til framkvæmda. Átti það að vera einskonar reynslupróf, þegar sú ábyrgð var veitt, á því, hvernig það mundi gefast. Voru þarna ágætar aðstæður til að gera tilraunina. Held ég þó, að svo sé komið, að augljóst sé, að það hefir ekki verið hættulaust fyrir ríkið að ganga í þessa ábyrgð þarna. Hvað mundi þá þar, sem skilyrðin eru vitanlega stórum verri, eins og á Seyðisfirði? Af þessum ástæðum getur n. ekki verið með því, að þessi ábyrgð sé veitt.

Þá eru 2 aðrar till., frá hv. sama þm. Um 275 þús. kr. framlag af ríkinu til að byggja síldarbræðslustöð og sögunarverksmiðju á Seyðisfirði og hafa engin gögn um þær legið fyrir n. Hv. þm. óskar eftir yfirlýsingu frá mér fyrir höld n., hvort hún hafi tekið afstöðu til þeirra. Get ég upplýst það, að þessar till. komu fyrir n., eins og aðrar brtt., og þó að frekari upplýsingar lægju ekki fyrir, var n. ákveðin í því, að ekki væri fært að leggja með þessum till. Að vísu hefir hv. þm. upplýst þetta mál vel í ræðu sinni í gærkvöldi, en þá munu fáir fjvn.menn hafa verið viðstaddir. En þó að rök hans væru mörg góð og ræðan að ýmsu leyti góð, geri ég ekki ráð fyrir, að það hefði breytt niðurstöðu n., þó að þeir hefðu heyrt hana. Held ég því ekki, að það geti í nokkru breytt afstöðu n., þó að till. verði tekin aftur til 3. umr. Till. þessar krefjast svo mikils fjár af ríkinu, að n. taldi enga möguleika á að ganga að þeim. Held ég líka, að ýmsir n.manna hafi litla trú á þessum fyrirtækjum, sem till. ræða um. Fer ég ekki lengra út í þetta mál, því að mér finnst það ekki geta komið til mála, eins og sakir standa.

Viðvíkjandi þeim rökum, sem hv. þm. lagði fram, að ef þetta væri ekki gert, yrði ríkið að borga margfalt hærri upphæðir en hér er farið fram á, verð ég að segja það, að ef til þess þyrfti að koma, að ríkið yrði að taka þessi héruð upp á arma sína, þá væri það vafasamur ábati að geyma það lengur. Myndi þetta framlag þá sennilega aðeins bætast við þau útgjöld, sem af því myndu leiða á sínum tíma.

Þá talaði hv. 1. þm. Árn. í gær fyrir 2 till., sem hann flytur. Önnur þessara till. er um 1000 kr. styrk til dýralækninga, er veitist mönnum, er dýralækningar stunda og dýralæknar mæla með, í þeim héruðum, sem erfitt eiga með að ná til dýralækna landsins. Játa ég, að þessi till. mun réttmætust af þeim, sem fram hafa komið í þessu efni, en þó sá n. sér ekki fært að mæla með henni. Hin till. sama þm. er um að greiða Búnaðarbanka Íslands 4250 kr. eftirstöðvar af láni Áslækjarrjómabúsins. Ástæðan fyrir beiðni þessari er sú sama og mörg rjómabú gætu fram borið; það á við erfiðan hag að búa og á örðugt með skuldagreiðslur. En n. leit svo á, sem hér væri ekki um neitt sérstakt fyrirbrigði að ræða. Hafa flest rjómabú att erfitt og orðið að leggjast niður, misjafnlega fljótt. Í mínu héraði hafa t. d. 3 rjómabú verið starfandi um eitt skeið og hafa þau öll lagzt niður af ýmsum erfiðleikum. Eru þar sjálfsagt sumar skuldir óborgaðar enn, svo að um þetta rjómabú gegnir ekki sérstöku máli. Gat n. því ekki lagt til með því, að till. væri samþ.

Þá bar hv. 4. þm. Reykv. fram till. um styrk til Karlakórs Reykjavíkur til söngnáms, 1000 kr. Væri þetta sjálfsagt gott og æskilegt fyrir félagið, en n. fannst ekki gegna neinu sérstöku máli um þetta félag, umfram slík félög annarsstaðar, sem eflaust þætti gott að fá kennslu og myndu koma á eftir með samskonar beiðni. Telur hún, að þetta mundi fráleitt fordæmi og leggur því á móti till. Um till. sama þm. um það að hækka styrk til tónlistarskólans, er það að segja, að n. hefir þar óbundin atkvæði, en meiri hl. n. leggur þó á móti till., því að hún álítur, að þessi skóli verði að sætta sig við sömu erfiðleika og steðja að öðrum félögum og einstaklingum.

Býst ég við, að hv. flytjendur brtt. muni ekki þykjast þurfa að pakka n. undirtektir hennar, en þær stafa af þeirri stefnu, sem hún hefir séð sig neydda til að taka um afgr. fjárl.