19.02.1932
Efri deild: 5. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1112 í B-deild Alþingistíðinda. (735)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Jakob Möller [óyfirl.]:

Í raun og veru mun vera bezt, að frv. Þetta sé afgr. með sem fæstum orðum. það er sýnt, að þingið hefir verið leitt á glapstigu, þegar það tók þá ákvörðun að stofna til þessa fyrirtækis, sem nú er til moldar borið. Ég hefi verið máli þessu mótfallinn frá upphafi og haft til þess margar og stórar ástæður. Eigi þó sízt þá, að með síldareinkasölunni var ríkissjóði stofnað í svo stóra hættu, að óforsvaranlegt var. Þeir sem réðu úrslitum málsins á Alþingi, heldu víst, að til fyrirtækis þessa væri þannig stofnað, að áhættulaust væri fyrir ríkissjóð. Nú sýnir hin sorglega reynsla, hversu villt þeir sömu menn hafa farið í áliti sínu. Sannast það bezt með því, að ástæðan fyrir ákvörðun ríkisstj. um að leggja einkasöluna niður, mun einkum vera sú, að hún taldi of mikla áhættu fyrir ríkissjóð að halda henni áfram. En fátt er svo með öllu illt, að ekki megi nokkuð af því læra. Og afdrif þessa fyrirtækis ætti að kenna mönnum að fara varlega og vera ekki um of auðtrúa á það, að engin áhætta fylgi þessum og þessum fyrirtækjum, sem verið er að steypa ríkissjóði út í. Ég sé ástæðu til að andmæla því, sem hv. 2. landsk. sagði, að síldareinkasalan hefði verið til bóta fyrir þá, er stunduðu þennan atvinnurekstur. Ég held, að þetta sé alveg rangt. Að vísu voru stundum stór töp áður á síldinni. En það var eigi útgerðin, sem þá tapaði, heldur aðallega seljendurnir, eða þeir, sem verzluðu með síldina. En sú áhætta hvíldi einkum á útlendingum hin síðari ár. Þó er það rétt, að sumir þeir innlendir menn, sem „spekuleruðu“ í sölu síldar, töpuðu. En þeir, sem verkuðu og veiddu, höfðu venjulega gott upp úr sér. — Máske hefir það borið við, að verkafólk tapaði kaupi sínu, en þó mun það hafa verið tiltölulega fátítt. Einkasalan hefir eigi heldur fyrirbyggt það. Hinsvegar hefir einkasalan þrengt svo að kosti þeirra, er rekið hafa þessa atvinnugrein, að telja má, að síldarútgerð væri orðin lítt rekandi. — Annars er óþarfi að fara lengra út í þessa hlið málsins, þar sem einkasalan er nú afnumin. Ég tel það vel ráðið og er um það sammála stjórninni. Og ég tel það vel farið, að hún hefir ráðfært sig við kunnuga menn. — En ég hefði talið æskilegt, að stjórnin hefði fylgt þeirri reglu betur fram en hún gerði, er hún valdi skilanefnd einkasölunnar. Og ég undrast það, þar sem hún hafði opin augu fyrir því, að ráðfæra sig við kunnuga menn, að hún þá skyldi ekki hafa vit á að velja menn til að fara með þrotabú einkasölunnar, sem eitthvert vit höfðu á því máli. En ég lít svo á, að það hafi ekki verið gert. Þeir tveir menn, sem hafa þetta með höndum, eru hvorugur fróður um þessi málefni. Einkum gildir þetta þó um þann skilamanninn, sem meira hefir framkvæmdina út á við með höndum. Það má frekar segja, að eðlilegt væri, að annar maðurinn væri lögfræðingur. Lögfræðingarnir eru mörgum hnútum kunnugir, vegna starfrækslu sinnar margvíslegrar, enda þótt þessi maður hafi ekki sérstaklega fengizt við það, sem að síldarstörfum lýtur. Mér þykir stjórnin því með skipun skilanefndarinnar hafa brotið góða venju.

Ég sé svo eigi ástæðu til að lengja þessa tölu mína að sinni. Mér þótti sjálfsagt að láta í ljós samúð mína og samhryggð yfir moldum þessa fyrirtækis, sem bændaflokkurinn stofnaði til sem bjargráðs til handa sjávarútveginum. En framvegis vildi ég óska, að sjávarútveginum verði aldrei rétt hjálparhönd með líkum hætti.