19.02.1932
Efri deild: 5. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1114 í B-deild Alþingistíðinda. (736)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég hefi fáar aths. að gera við ræðu hv. þm.

Ég er algerlega sammála þeim lofsamlegu ummælum, er hv. 2. landsk. hafði um Böðvar Bjarkan lögmann. Böðvar Bjarkan er maður, sem ég ber mikið traust til, og hefir hann jafnan sýnt, að hann er trausts verðugur. É get sagt hv. þm. það, að ég hefi átt tal við Böðvar um þetta mál. Hv. þm. tilfærði ummæli hans um niðurlagning síldareinkasölunnar. Ég er þeim samdóma og tel, að þau sanni ekki það, sem hv. þm. vildi lata þau sanna. Ég tel, að þau beri að skilja svo, að síldareinkasalan hafi ekki verið búin að taka neinn banvænan sjúkdóm, þegar fundur hennar hófst. En sá sjúkdómur, sem leiddi hana til bana, kom einmitt upp á fundinum. Það var fleira en eitt, sem þarna var að verki. Það, að einn flokksbróðir hv. 2. landsk. las á fundinum skýrslu um hag einkasölunnar. Var sú skýrsla einnig birt í blaði flokksins. En þetta leiddi til þess, að allir þeir, sem kröfur áttu á hendur einkasölunni, reyndu að fá þær tryggðar. Enda fór svo, að búið var að leggja löghald á hvert tangur og tetur, sem einkasalan hafði undir höndum á Siglufirði áður en bráðabirgðalögin voru sett. Það mátti því heita efnilegt að halda einkasölunni áfram, þegar þannig var búið að vinna að henni !

Ég sagði í fyrri ræðu minni, að höfuðástæðan fyrir því, að stj. taldi rétt að afnema einkasöluna, hefði verið fjárhagsástæður hennar. Hitt taldi ég fram sem aukaástæðu, að stj. einkasölunnar hefði eigi verið kosin í samræmi við þær grundvallarreglur, er þingið setti um kosningu í stjórnina. Ég get enn bætt við einni ástæðu, sem sýndi það, að einkasalan náði ekki tilgangi sínum. Það er mjög leitt, að við stofnanir ríkisins skuli það geta komið fyrir, að verkafólk hljóti svo misjöfn laun fyrir erfiði sitt, svo sem raun varð á hjá síldareinkasölunni síðastl. sumar. Landfólkið hafði yfirleitt góð laun fyrir vinnu sína. En sjómennirnir, sem höfðu erfiðara og hættulegra hlutskiptið í þessu starfskerfi, fóru svo að segja með tvær hendur tómar. Slíkt má ómögulega koma fyrir hjá þeim stofnunum, sem ríkið hefir afskipti af. Þetta er eitthvað það sorglegasta, sem fyrir einkasöluna hefir komið, og mátti ómögulega koma fyrir aftur.

Þá spurði hv. 2. landsk. um afstöðu ríkisstj. til málaleitunar þeirrar, er til hennar kom um útborgun verðs á ca. 10–20% af millisíld þeirri, er veidd var fyrir norðan í haust. Erindi þetta hefir ekki verið endanlega afgr. af ríkisstj. Hún hefir sent þetta erindi til skilanefndarinnar. Ég vil beina því til þeirrar n., sem fær þetta frv., að hún taki þetta til athugunar. Er rétt, að þingið taki ákvörðun um þetta atriði.

Ég er að sumu leyti sammála hv. 1. þm. Reykv. og að sumu leyti ekki. Hann stillti orðum sínum svo í hóf, að ég hefi ekki mikla ástæðu til að svara honum miklu. Hv. þm. mun ekki koma það á óvart, að ég lít öðrum augum en hann á skipun skilanefndarinnar. Það var sérstaklega Svafar Guðmundsson, sem hann gerði aths. við. En ég lít svo á, að þarna sé ekki fyrst og fremst nauðsynleg sérþekking á því, hvernig eigi að veiða og verka síld, heldur þurfi fyrst og fremst að fá mann, sem er góður „forretningsmaður“, sem getur gert allt upp, komið hagsýnilega í peninga því, sem eftir er að selja og ráðstafað öllu myndarlega. Til þessa valdi ég Svafar Guðmundsson, af því að ég hefi mjög mikið traust á honum í þessu efni. Ég þekki hann nokkuð af reynslu, og hann hefir aldrei brugðizt mínu trausti, enda vona ég, að það reynist, þegar séð er fyrir endann á þessu starfi, að hann hafi gegnt því vel.

Hv. þm. telur það eðlilegt, að lögfræðingur sé við þetta, og hefi ég ekkert við þau orð hans að athuga, enda skipaði ég þennan vel metna lögfræðing til að vinna þetta verk með Svafari Guðmundssyni.

Þá beindi hv. þm. þeim orðum til bændaflokksins, að það væri bezt fyrir hann að halda sér frá sjávarútveginum. Ég get sagt það, að ýms þau mál eru þannig, að ég hefi ekki fullkomna sérþekkingu á þeim. En ég held samt, að á einu allra þýðingarmesta sviðinu geti sjávarútvegurinn lært mikið af bændunum. Það sem hefir verið verst fyrir sjávarútveginn og oft valdið því, að hann hefir átt um sárt að binda, er einmitt það, að sjávarútvegsmenn eru ekki komnir eins langt og bændur í skipulagningu framleiðslu sinnar og verzlunar. Það er algerlega bjargföst sannfæring mín, að samvinnufélagsskapurinn, sem mest hefir orðið bændunum til gagns, eigi eftir að gera sjávarútveginum svipað, ef ekki miklu meira gagn. — Þó að þessi bending hv. 1. þm. Reykv. hafi eflaust verið vel meint, þá efast ég ekki um, að sjávarútvegsmenn eiga að læra mikið af bændunum að starfa saman að skipulagningu sinna mála.