19.02.1932
Efri deild: 5. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1124 í B-deild Alþingistíðinda. (740)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég sé ekki ástæðu til að víkja aftur að ummælum hv. 2. landsk. En ummælum hv. 1. þm. Reykv. um það, að Svavar Guðmundsson hafi ekki komið nálægt því starfi, sem hann þarf að inna af hendi sem skilanefndarmaður Síldareinkasölunnar, vil ég mótmæla. Starf skilanefndarinnar er fyrst og fremst að selja vörubirgðir einkasölunnar og gera upp reikninga hennar. Þetta heyrir einmitt undir það starf, sem Svavar Guðmundsson hefir gert að lífsstarfi sínu og lært til.

Hv. þm. var að tala um, að síldarútvegsmenn hefðu verið knúnir til skólagöngu í samvinnumálum. Ég er honum sammála um, að slíkt á ekki að gera nema undir sérstökum kringumstæðum. Menn eiga að ganga til samvinnu af frjálsum vilja á þeim grundvelli hefir samvinnufélagsskapurinn þróazt hjá bændum, og það er farsælasta leiðin. Heilbrigð samvinna skapast ekki með löggjafarþvingun, og þó að vegna sérstakra kringumstæðna sé farið inn á þá braut í bili, á það ekki að verða regla til að byggja framtíðarskipulag á.