18.03.1932
Efri deild: 32. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1129 í B-deild Alþingistíðinda. (749)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Dómsmrh. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

Ástæðan til þess, að ég tek til máls, er ekki sú, að ég ætli að tala um síldarmálin í heild, heldur hin, að hv. 2. landsk. vísaði nokkrum orðum til hæstv. forsrh., sem ekki er viðstaddur, og vil ég svara því að nokkru, þótt ég sé málinu ekki kunnugur.

Hygg ég, að hv. 2. landsk. þm. skilji, að Framsóknarfl. hefir ekki álitið sér skylt að hafa forgöngu í þessu síldarmáli, því að bæði kjósendur og þingmenn hinna flokkanna hafa meiri afskipti af síldarútveginum. Að Framsóknarfl. tók 1928 mikinn þátt í síldarmálunum, kom af því, að hafa þurfti meira skipulag hér á og koma fram ráðum sjómanna og útgerðarmanna. Þetta skipulag, sem þá var sett, gerði ráð fyrir samvinnu sjómanna og útgerðarmanna og verkamanna. Enda þótt Framsóknarfl. væri þá hæstur að fulltrúatölu, hafði hann þó aðeins 1 mann í n. þeirri, er hafa skyldi á hendi stjórn fyrirtækisins, því að hann áleit, að stjórn fyrirtækisins ætti að hvíla á herðum þeirra, sem þar hefðu mestra hagsmuna að gæta. Held ég, að hv. 2. landsk. þm. sé kunnugt um, að mistök urðu hér á, því að fulltrúar þessara tveggja aðilja voru ekki þessu trúnaðarstarfi vaxnir. Það væri raunar afsakanlegt, þótt hjá fulltrúum þessum hefði ekki gætt nægrar hagsýni, en óafsakanlegt er það, að þeir litu stundum á hagsmuni einstakra staða, svo sem Akureyrar og Svalbarðseyrar t. d. Um þessar mundir kom líka fram í flokki hv. 2. landsk. hagsmunaklofningur milli sjómanna og verkamanna í landi, og er ekki hægt að saka menn um það, þótt slíkur klofningur kæmi fram, en leiðtogar flokksins hefðu átt að jafna málið með sér. En þessa sambúðarörðugleika innan flokksins réðu þeir ekki við.

Ég verð því að álíta, að aðalorsökin til þess, að þetta fyrirtæki blessaðist ekki, hafi verið sú, að fulltrúana hafi brostið hæfileika til að gegna þessu starfi fyrir almenning. Útkoman á Landsverzluninni hjá Magnúsi sál. Kristjánssyni varð öll önnur en hjá þessum mönnum. Vera má, að fyrirkomulagið hafi þar verið eitthvað betra, en mestu mun hafa um valdið, að hann hefir haft meiri hæfileika og meiri löngun til að láta fyrirtækið verða almenningi til gagns.

Þeir tveir flokkar, sem hér höfðu beinna hagsmuna að gæta, sjómenn og útgerðarmenn, komu sér saman um það að breyta lögunum um stjórn Síldareinkasölunnar á sumarþinginu í þá átt, að vald þeirra óx, en vald okkar framsóknarmanna minnkaði. Við því var í rauninni ekkert að segja. Við vildum frá upphafi skipulag með samvinnu beggja aðilja. Flokkur hv. 4. landsk. virðist hafa sýnt meiri kænsku en íhaldið í þessum viðskiptum, því að við breyt. fengu sjómenn og verkamenn alveldi yfir síldareinkasölunni. Ég sé í rauninni ekkert út á það að setja, þeir náðu því sama marki og fulltrúar íhaldsmanna ætluðu sér að ná 1926. Þá höfðu þeir undirtökin, en verkamenn nú. Það hefði nú verið fróðlegt að sjá, hvort verkamenn og sjómenn hefðu ekki getað stjórnað þessu fyrirtæki betur í 1–2 ár. Íhaldsmenn gátu engum um þetta kennt, því að þeir höfðu búið svo um hnútana, að valdið lenti hjá hinum. Það er misskilningur, að bráðabirgðalögin um afnám einkasölunnar hafi verið sett vegna stjórnar verkamanna á fyrirtækinu. Ástæðan til þess, að ríkisstj. neyddist til að stytta þessu fyrirtæki aldur, voru vandræði þau, sem Síldareinkasalan var í frá sumrinu í sumar. Hv. 2. landsk. veit, að þegar haldinn var stofnfundur þessarar nýju einkasölu, voru flokksbræður hans hikandi í því, hvort þeir gætu tekið við völdunum. Þeir spurðust fyrir um það hjá stj., hvort gamlir erfiðleikar frá síðasta sumri þyrfti að hvíla á rekstri einkasölunnar. Stj. gat ekki um þetta sagt, þar sem þetta var algerlega á valdi þingsins. Vera má, að þingið hefði eitthvað hlaupið undir bagga. en fjármal einkasölunnar voru komin í það ólag; að ekki var forsvaranlegt að láta fyrirtækið halda áfram fram til þings. Engir skattar eða tollar til hins opinbera höfðu verið goldnir og auk þess verið stofnað til stórfelldra skulda erlendis. Var því allt undir því komið, að farið yrði að með ráðdeild, sem því miður hafði ekki ávallt gætt í stj. einkasölunnar.

Ég er á sama máli og hv. 2. landsk. um það að ólag hljóti að verða á þessum atvinnurekstri, þar til einhverju skipulagi er komið á hann aftur. Ég hefi enga trú á, að kraftur verði í útgerðinni í sumar eða yfirleitt fyrr en skipulag kemur aftur, með hvaða hætti sem það verður. En hv. 2. landsk. verður að virða þeim það til vorkunnar, sem ekki hafa hér beinna hagsmuna að gæta, en vilja treysta hinum réttu aðiljum, þó að þeir hafi ekki frumkvæði og forgöngu í því efni. Frumkvæðið verður að koma frá sjómönnum og útgerðarmönnum, en af hinum er ekki hægt að vænta annars meira en stuðnings til að koma skipulagi á þennan atvinnuveg.

Ég get sagt það fyrir sjálfan mig, og ég tek það fram, að ég tala hér ekki í nafni flokksins, að ég er sannfærður um að annaðhvort nú eða á næsta þingi verður að taka upp síldareinkasölu aftur í einhverri mynd. En forgangan verður að koma frá þeim, sem þar eiga hagsmuna að gæta. Stuðningsmenn hv. 2. landsk. eiga hér hagsmuna að gæta og ætti því frumkvæðið annaðhvort að koma frá þeim — eða hinum nýju bandamönnum hans. En ekki mun skuturinn eftir liggja hjá okkur framsóknarmönnum, ef vel er róið frammi í.