09.04.1932
Neðri deild: 47. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í B-deild Alþingistíðinda. (75)

1. mál, fjárlög 1933

Haraldur Guðmundsson:

Það má nú telja ljóst orðið, sem fáum mun hafa komið á óvart, að allt skraf hv. íhalds-og framsóknarmanna, sem hér hefir fram farið um kreppu, atvinnuleysi og vandræði landsfólksins, hefir ekki verið annað en innantómt orðagjálfur. Sé þetta ekki gert vitandi vits, þá skortir þá aðilja, sem hér er um að ræða, a. m. k. skilning á því, sem fram er að fara og þeir sjálfir eru að gera. Till. hníga allar í þá átt að auka á vandræðin, gera ástandið hjá almenningi verra en það nú er. Og fyrir þessar skemmdartill. kjassar hv. n. og fjmrh. hvort annað á hinn ósmekklegasta og ámáttlegasta hátt. Fyrir að skera niður verklegar framkvæmdir og ýmislegt það, sem enginn ætti að geta haggað við kinnroðalaust, kjassa fjvn. og stj. hvor aðra endalaust. Og undirtektir við till. mínar og okkar Alþýðuflokksmanna eru sömu tegundar. Hv. n. og ráðh. leggjast móti þeim öllum, sem máli skipta og miða að því að bæta úr kreppunni og draga úr atvinnuleysinu. Ef þingið ætlar að taka þessum málum svona, verð ég að segja, að því væri skammarnær að láta nú kónginn senda þingið heim. Það gæti þá ekki samþ. skemmdarlög eða eyðilagt gagnleg lög. (TrÞ: Á að skoða þetta sem áskorun frá hv. þm.?) Þykir mér þarfleysa á þessum tímum að vera að sitja hér undir málæði um skemmdar kartöflur, kosningu sáttanefnda og þvíumlíkt, sem engu máli skiptir.

Þá vil ég víkja að till. mínum og undirtektum hv. n. Er þá fyrst till. um 1200 kr. styrk til unglingaskóla á Seyðisfirði. Hæstv. ráðh. játaði, að í fjárl. væri ekkert fé áætlað til unglingafræðslu á Seyðisfirði, en kvað þetta fé, kr. 1200, mundu verða greitt af því fé, sem ætlað er til unglingafræðslu utan kaupstaða, en bætti því þó við, að þetta yrði því aðeins gert, að fjvn. fellist á. Heyrði ég reyndar enga yfirlýsingu þessa efnis frá hv. frsm. fjvn., en ég verð að taka orð hæstv. ráðh. trúanleg, og ætla, að reiða megi sig á þau, og tek ég till. aftur.

Þá minntust hv. frsm. n. og hæstv. ráðh. nokkrum orðum á till. okkar jafnaðarmanna um 1 millj. kr. ríkisframlag til atvinnubóta. Hæstv. ráðh. lét þess getið við mig, að hann hefði haldið, að eitt núll hefði fallið aftan af upphæðinni; hún myndi víst hafa átt að vera 10 millj. kr. Bendi ég á þetta, til þess að sýna, hver er alvara þessara hv. herra um þessi mál. Eftir skýrslum hagstofunnar eru nú hátt á þriðja þúsund atvinnulausir verkamenn, sjómenn og iðnaðarmenn hér á landi. Bendir þó flest til þess, að atvinnuleysið eigi eftir að aukast mikið enn. Helmingur þessara manna eru ómagamenn, svo að 6000–7000 búa nú við atvinnuleysi og afleiðingar þess. En hæstv. ráðh. krossar sig, veltir vöngum og telur ekkert kveða að atvinnuleysinu ennþá. Segir hann, að ekki sé enn búið að eyða nema tæpum 100 þús. kr. af þeim 300 þús., sem veittar voru til atvinnubóta, og telur þetta sönnun þess, að ekkert kveði að atvinnuleysinu. En af hverju stafar það? Af því, að ríkisstj. hefir ekki viljað verða við umsóknum nauðstaddra sveita og bæjarfélaga. Af því, að stj. hefir neitað að greiða féð af hendi. — Það, sem hér er farið fram á, er, að veitt verði 1. millj. kr. úr ríkissjóði til atvinnubóta. Ég hefi lýst yfir því, að við jafnaðarmenn værum reiðubúnir til samvinnu við stj. um öflun tekna. Ég benti á eina leið, og eins get ég fallizt á aðrar leiðir, sem á kann að verða bent, ef þær koma ekki í bag við skoðanir okkar. Hæstv. ráðh. telur ófært að tvöfalda tekjuskatt og þrefalda eignaskatt. En sú aðferð myndi nægja til að ná inn þessu fé á einu ári eftir áætlun ráðh. sjálfs. Hæstv. ráðh. sagði fyrir nokkru hér í d., þegar hann minntist á möguleikana til þess að hækka tekju- og eignaskatt um 20–25%, að slíkur tekjuskattur myndi lenda að mjög litlu leyti á atvinnu- og verzlunarfyrirtækjum, því að þau gæfu nú ekki arð. Myndi hann því eingöngu lenda á hátekjumönnum. Þetta er sjálfsagt að miklu leyti rétt. Skatturinn myndi allur lenda á hálaunamönnum og heim, sem græða fé hratt fyrir kreppuna. En mér er spurn: Hvaða menn geta borgað skatt í þessu þjóðfélagi, ef ekki þessir? Sá, sem hefir t. d. 12500 kr. tekjur og 5 manna fjölskyldu, þarf nú að borga 460 kr. tekjuskatt. Þarf enginn að segja, að slíkum mönnum verði gert erfitt að lifa, þótt þessi skattur verði hækkaður um helming. Ef svo væri, hvað myndi þá um fólk, sem er atvinnulaust og auk þess mergsogið á marga lund með tollum og öðru slíku? Það er ekki einasta heimska, heldur jafnframt eitthvað verra að halda slíku fram.

Eins er um mann, sem á 100 þús. kr. skuldlausa eign, að hann á að borga af henni um 200 kr. eignarskatt. Ætli hann gæti nú ekki alveg eins borgað 400 kr. af henni? Það er þó ekki nema 2/5%. Hæstv. ráðh. getur ekki fallizt á þetta. Hann vill bæta við verðtoll og vörutoll og láta á þann hátt þá, sem verst eru settir, bera þyngstu skattabyrðarnar. Skýrari sönnun þess, hver hugur fylgir öllu þessu kreppuskrafi og umhyggju fyrir atvinnuleysingjunum, er ekki hægt að kjósa. Og þetta, sem ég hefi hér sagt um hæstv. ráðh., gildir líka um fjvn. og formann hennar og það, sem hann át eftir ráðh.

Að því er snertir lánsheimildina úr bjargráðasjóði til sveitar- eða bæjarfélaga, fannst mér skjóta nokkuð skökku við hjá hv. frsm. Veit ég eigi betur en að bjargráðasjóður hafi nú um 1 millj. kr. til umráða, og er helmingurinn ríkiseign, en helmingurinn séreign sýslu- og bæjarfélaga. Skildist mér á frsm., að óhugsandi væri, að ríkið gæti veitt nokkurt lán úr þessum sjóði. Þetta er vitanlega fjarstæða. Það er einmitt alveg sjálfsagt og eðlilegt, að sveitar- og bæjarfélögin geti fengið lánað sem svarar eign sinni í sjóðnum. Það væri einkennilegt, ef þau fengju ekki lánaða sína séreign, og í mörgum tilfellum mundi hún nægja fyrir þessu framlagi, en í öðrum tilfellum yrði þá að veita lán til viðbótar af hluta ríkissjóðs. Ég veit ekki með vissu, hve mikið fé bjargráðasjóður hefir handbært. Mig minnir, að hæstv. forsrh. segði á sumarþinginu, að það væru um 500 hús. kr. Og þótt sú upphæð öll væri ekki alveg handbær, þá ætti hún þó að vera í þeim pappírum, að auðseljanlegt væri, eða hægt að fá fé út á þá. Mér skildist á hæstv. fjmrh., að óþarft væri að leggja þetta fé fram. Það kæmi ekki til mála, að svona mikið þyrfti að nota til atvinnubóta, þótt hinsvegar kynni að vera á stæða til að verja einhverri upphæð í því skyni. Hann sagði, að svo mikið væri eftir af því, sem ætlað var í þessu skyni á sumarþinginu, að duga myndi til næstu áramóta. Hefði þá Alþingi það, er saman karmi upp úr áramótunum, nógan tíma til að athuga þörfina og taka ákvörðun um framlag til atvinnubóta fyrir árið 1933. — Þetta er vitanlega hin mesta fjarstæða. Ég hefi, með því að lesa upp úr hagtíðindunum, sýnt fram á, hve mikið atvinnuleysið þegar var orðið í haust. Ég veit því, að þær 2 millj., sem hér er lagt til, að verði ætlaðar til atvinnubóta alls frá ríki, héruðum og sem lán, hrökkva frekar of skammt heldur en of langt. Það er og eitt atriði í þessu, sem hvorki hæstv. stj. né hv. fjvn. virðist hafa skilið. Og það er, að ef ekkert er að gert til að bæta úr atvinnuleysinu, þá hlýtur fátækrastyrkurinn að aukast stórkostlega, þegar tala atvinnuleysingja eykst hröðum skrefum og lánstraust þeirra þrýtur með öllu. En slíkur aukinn fátækrastyrkur skilar þjóðinni engum verðmætum. En með till. okkar höfum við það hvorttveggja í huga, að bæta kjör fólksins og stofna til gagnlegra framkvæmda, sem annars mundu bíða. — Hæstv. fjmrh. finnst 1 milljón þá upphæð. Jú, það er eðlilegt, að honum finnist það! Hún er h. u. b. jafnhá og tóbakstollurinn er áætlaður. Hún er svona 4/5 af því, sem kaffi- og sykurtollurinn hefir verið á ári. Og hún er talsvert minna en helmingur af því, sem lagt var til vegamála í eitt ár, og ekki svipað því eins þá og það, sem stj. á einu ári hefir notað heimildarlaust til þeirra, umfram það, sem þingið hafði ákveðið. Það er helmingi minna, eða því sem næst, en Alþingishátíðin kostaði. Það er von að hæstv. ráðh. sé hræddur við svona upphæð.

Ég er hæstv. ráðh. sammála um það, að ekki beri að halda þeim framkvæmdum uppi, sem til erfiðleika geta leitt fyrir atvinnuvegina. En væri það til erfiðleika fyrir atvinnuvegina að stofna til nytsamra framkvæmda? Væri það til erfiðleika fyrir þá, ef byggðar væru brýr. vegir lagðir, hafnir byggðar, gotur gerðar o. s. frv.? ég held, að það yrði ekki til neins niðurdreps fyrir atvinnuvegina, heldur til bóta fyrir þá. Fjármálaspeki hæstv. fjmrh. lýsir sér greinilega í þessu.

Hv. frsm. sagði, að einn þm. hefði lýst yfir því, fyrir hönd okkar jafnaðarmanna, að við mundum greiða atkv. gegn öllum tekjuaukum til stj. Þetta er ekki rétt eftir haft. Hann sagði, að við mundum greiða atkv. gegn öllum tekjuaukum til stj., nema því aðeins, að þeim tekjuaukum yrði varið til að bæta úr núverandi atvinnuleysi og kreppuástandi, enda hefi ég tvívegis áður í þessu sambandi boðið hæstv. stj. samvinnu um tekjuöflun í þessu skyni.

Þá vil ég minnast nokkuð á það, sem hv. frsm. fjvn. sagði um till. mínar á þskj. 334, XXVII. brtt. á því þskj. Ég held, að hæstv. fjmrh. hafi ekki minnzt á þær. Sú fyrsta er um, að ábyrgð sú, sem stj. var heimiluð á síðasta þingi og gildir fyrir þetta ár, verði framlengd. Ástæðan fyrir því er sú, að tvísýnt er um það, hvort hægt verði að kaupa þau skip til fiskiveiða, sem þar um getur, í sumar. Er því nauðsynlegt, að heimildin standi áfram, og vona ég, að hv. deild verði því samþykk, þótt hv. frsm. segðist mundu greiða atkv. gegn því. Færði hann engin önnur rök fyrir andstöðu sinni gegn því en þau, að ríkið hefði fengið skell af ábyrgð sinni fyrir Ísfirðinga. Það mun vera rétt, að ríkissjóður hefir lagt út í bili 25–28 þús. kr. vegna þeirrar ábyrgðar. En á það ber að líta, að þau 4 ár, sem Samvinnufélag Ísfirðinga er búið að starfa, hefir það greitt í ríkissjóð meira en þrefalt hærri upphæð. Hér er því ekki um tap að ræða, heldur þvert á móti, þar sem beinlínis hefir runnið í ríkissjóð vegna starfsemi félagsins a. m. k. þreföld upphæð við það, sem ríkissjóður hefir nú orðið að hlaupa undir bagga með í bili. Ótalið er þá það, sem félagið hefir greitt til þarfa bæjarfélagsins. Það er eftir annari fjármálaspeki hv. fjvn. að álíta þetta tjón fyrir ríkissjóð. En þeir, sem þekkja ástandið á Ísafirði, eins og það var, þegar samvinnufélagið tók til starfa, og eins og það er nú, líta nokkuð öðruvísi á þetta mál. Sama og segja mátti um Ísafjörð þá, má segja um Seyðisfjörð nú, nema á Seyðisf. er þó ástandið enn verra og tímar nú lakari. Það er líka nokkuð einkennilegt, ef sömu þm. vilja nú fella það, sem þeir samþ. fyrir 6 mánuðum og ekki hefir enn verið notað. Um síðari tvo liðina í brtt. sagði hv. frsm. fjvn. það snjallræði, að þar sem engar upplýsingar hefðu legið fyrir n., þá hefði hún ákveðið að vera á móti till. En n. hefir ekki viljað fá neinar upplýsingar. Ég flutti fram ýmsar upplýsingar hér í hv. d. í ræðu minni í nótt. En n. skellir skolleyrum við þeim öllum. Hún vill ekki upplýsingar. Er ákveðin í að vera á móti málinu. Það er ekki við hæfi hv. fjvn. að leita að rökum fyrir ákvörðunum sínum.

Ég hirði ekki að taka það upp aftur, sem ég sagði í nótt og a. m. k. hv. form. fjvn. heyrði, þótt fáir aðrir nm. væru viðstaddir. En þótt hv. form. fjvn. heyrði þau rök, er ég flutti, hefir það engu breytt hjá honum. Hann er jafn ákveðinn í að vera á móti till. mínum, og þá mun það heldur varla breyta skoðunum annara hv. fjvn.manna. Það þýðir því víst lítið að vera að berja höfðinu við steininn. En viðvíkjandi því, sem hv. frsm. sagði um það, sem ég hefði sagt, að meira tap væri að neita þessu en samþ., skal ég segja fáein orð, og verð þá að endurtaka það, sem ég sagði í nótt.

Töp þau, sem Austurland hefir orðið fyrir nema ekki minna en 15 millj. kr. á síðustu 10–12 árum, eða á aðra millj. kr. á ári hverju til uppjafnaðar. Þetta er vitanlegt öllum, sem til þekkja. Skipin, sem notuð eru til veiða, eru yfirleitt orðin gömul og úrelt. Síldina, sem oft gengur þangað að mun, er ekki margt að veiða, af því að þar er engin bræðsla til að taka á móti henni. Að ætla sér að salta í tunnur alla þá síld, sem hægt er að veiða, nær ekki nokkurri átt, Ekkert hefir verið gert þar til að létta og bæta samgöngur fyrir þennan landshluta. Þannig hefir komið fyrir, að engin skipsferð hefir verið á áætlun milli Reykjavíkur og Seyðisfjarðar í 21/2 mánuð. Svona mætti lengi telja, enda sest afleiðingin í þeim stórtöpum í fjórðungnum, sem ég hefi drepið á. Engin skynsamleg ástæða er til að ætla, að á þessu ástandi verði breyting til batnaðar, ef ekkert er að gert. Allt bendir í þá átt, að töpin hljóti að halda áfram. En ef stofnað væri til þeirra framkvæmda, sem brtt. mínar fjalla um, þá gæti það tryggt sæmilega atvinnu og afkomu á Seyðisfirði og létt undir víðar eystra. Undir atvinnulífið rynnu þá fjórar stoðir og þótt ein brygðist, há er þó ekki allt í voða eins og nú er.

Ég ætla svo ekki frekar að endurtaka það, sem ég sagði í nótt. Ég hefi boðið hv. fjvn. það, að ef hún vill taka till. mínar til umr. í n., þá muni ég og sé fús til þess að taka þær aftur til 3. umr. og ræða þær við n. En eftir þeirri yfirlýsingu, sem hv. frsm. n. gaf, um að fjvn. mundi verða á móti till., þá þýðir það víst ekki, fyrst hv. fjvn. er þegar ákveðin í því að leggja til að þær séu drepnar. Svo virðist sem n. vilji helzt taka — og tekur — afstöðu til málanna án allrar rannsóknar, vilji komast hjá að fá upplýsingar.