18.03.1932
Efri deild: 32. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1140 í B-deild Alþingistíðinda. (755)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Frsm. (Einar Árnason):

Hv. 1. þm. Reykv. fór nokkrum orðum um Síldareinkasöluna, furðanlega barnalegum að ýmsu leyti, og að öðru leyti af vanþekkingu eða rangfærslu, til þess að snúa sig út úr þeim fullyrðingum, sem hann áður fór með um tildrög einkasölunnar.

Í tilefni af því, sem ég benti á um það, hverjir hefðu átt frumkvæði að stofnun Síldareinkasölunnar, las hv. þm. upp nöfn flm. frv. um Síldareinkasöluna, sem flutt var 1. ári síðar en málið kom fyrst fram á Alþingi. En hann nefndi ekki það frv. um einkasölu á síld, sem flutt var árið áður af mönnum úr hans eigin flokki og þá varð að lögum. Hv. þm. vildi ekkert gera úr skoðunum þeirra og framkomu í þessum málum.

Það, sem ég taldi bera vott um fáfræði og vanþekking hv. þm. um störf stj. einkasölunnar, var sú fullyrðing hans, að oddamaðurinn í útflutningsnefndinni, sem var framsóknarmaður, hafi getað ráðið þar öllu. Þegar fulltrúar hinna flokkanna voru sammala, réð vitanlega meiri hl. Hv. þm. þarf ekki annað en að kynna sér þær samþykktir, sem gerðar voru á nefndarfundum og bókaðar í gerðabók útflutningsnefndar Síldareinkasölunnar til þess að sjá, hvernig fundarstörf fóru fram.

Hv. 2. landsk. sagði, að Framsóknarfl. hefði á síðasta þingi rutt fulltrúa Alþýðuflokksins úr útflutningsnefndinni og skipað mann í hans sæti. Þess vegna ætti Framsóknarfl. sök á óförum einkasölunnar síðastl. ár. Þessi mannaskipti urðu ekki fyrri en í sept. síðastl., svo að flokksbróðir hv. 2. landsk. átti sæti í útflutningsnefndinni meðan teknar voru þær ákvarðanir, sem örlagaríkastar hafa orðið fyrir síldareinkasöluna.