22.03.1932
Neðri deild: 35. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1157 í B-deild Alþingistíðinda. (772)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Verkefni Alþingis er yfirleitt þá að setja lög, sem á að byggja á einhverja starfsemi í framtíðinni og að gera breyt. að lögum í þá átt að láta starfsemi, sem átt hefir sér stað í fortíðinni, hætta eða halda áfram á annan hátt en áður. Yfirleitt eru störf þess fólgin í að leggja grundvöll að því, sem á að verða.

Frv., sem hér liggur fyrir, er sama eðlis hvað þetta snertir og önnur þingmál.

Það kveður á um, að það fyrirkomulag, sem verið hefir á því sviði, sem það ræðir um, skuli hætta að eiga sér stað. Það, sem fyrst og fremst liggur nú fyrir hv. d. að taka afstöðu til, er þetta: Var það rétt ákvörðun, sem tekin var í des. síðastl., að leggja Síldareinkasöluna niður með bráðabirgðal., eins og málum hennar var þá komið. Var það rétt út frá því, að þá var farinn sá grundvöllur, sem af þinginu var hugsaður að stæði undir stj. þessa fyrirtækis. Var það rétt út frá því, sem fyrir lá um fjárhagsafkomu fyrirtækisins, og þeim hagsmunum, sem ríkissjóður átti að gæta. Var það rétt út frá því, hvernig því fólki, sem að síldveiðum og síldarverkuninni vann, var herfilega mismunað á síðasta veiðitíma. Það er þetta, sem hv. d. á að kveða upp úrskurð um, annað liggur ekki fyrir.

En um þetta atr. tók ég ekki eftir, að hv. þm. G.-K. segði eitt einasta orð. (ÓTh: ég var að svara hæstv. dómsmrh.). Ég tók ekki eftir, að hann kæmi neitt að því í máli, sem fyrir liggur. (ÓTh: Öll ræða mín hneig þó að því að sýna fram á, að það var þarft verk að leggja einkasöluna niður og að það væri mjög óheppilegt að endurreisa hana í einhverri mynd). Það má vera, óbeinlínis. Beinlínis sagði hv. þm. ekkert um það efni. Og ég vil vekja athygli á því, að formlega liggur hér fyrir aðeins, hvort leggja á einkasöluna niður eins og hún er. En ræða hv. þm. snerist um það, sem hann í upphafi hennar kallaði sjálfur móðgun við hv. d. að ræða um.

Ég hefi raunar ekkert við það að ath., þó farið sé út í sögu síldveiðanna og síldarverzlunarinnar í sambandi við þetta frv., enda hefir hæstv. forseti ekki seð ástæðu til að hafa á móti því. Um það og hvernig haga ætti þessum málum í framtíðinni með tilliti til fenginnar reynslu, mætti hefja mjög langar umr., en út í það ætla ég ekki að fara, því að ég álít, að á þessu stigi málsins hafi það enga þýðingu. Úti þá sálma væri ástæða til að fara aftur, ef fram kæmu till. um nýtt skipulag á þessum atvinnurekstri.

Hv. þm. kom hér fram með ýmsar sögur þriggja og fjögra ára gamlar, um það, hvernig einstaklingar í útflutningsnefnd einkasölunnar framkvæmdu verk sín. Í sambandi við það vil ég minna á, að þessir menn hafa enga aðstöðu til að bera hönd fyrir höfuð sér hér, þar sem þeir eru fjarverandi og eiga hér enga málsvara. Mér finnst rétt, að það af ræðu hv. þm., sem snertir þessa einstaklinga, færi hann fram á þeim vettvangi, þar sem þeir hafa sömu aðstöðu og hann til varnar. Umr. um slíka hluti eiga að fara fram í blöðum landsins, en ekki hér, þar sem þeir, sem ráðizt er á, hafa enga aðstöðu til varnar.

Ef farið er út í sögu síldarútvegsins á annað borð, er ekki aðeins ástæða til að tala um 3 til 4 síðustu árin; það verður jafnframt að líta lengra aftur í tímann, t. d. til 1919. Ég veit, að það má benda á marga sorglega atburði í sögu Síldareinkasölunnar, og þá ekki síður úr sögu hinnar „frjálsu“ síldarverzlunar.