22.03.1932
Neðri deild: 35. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1159 í B-deild Alþingistíðinda. (773)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Jóhann Jósefsson:

Hv. þm. G.-K. fór hér nokkuð til í sögu Síldareinkasölunnar, og skal ég ekki endurtaka neitt af því, sem hann sagði. Ég heyri það á hæstv. forsrh., að honum þykir óþarft af okkur að vera með umr. út af málinu, er hér liggur fyrir, sem er frv. til 1. um skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands. Honum finnst óþarfi að líta um um öxl og rifja upp það, sem skeð hefir síðan löggjafarvaldið hlutaðist til um rekstur síldarútvegsins á sérstakan hátt, með Síldareinkasölulögunum. Hann segir, að það mætti þá eins fara lengra aftur í tímann, ein tíu, tólf ár, og athuga, hvað þá hafi gerzt í sögu síldarmálanna. Þetta er ekki rétt hjá hæstv. ráðh., því það er nokkuð annað, hvað gerzt hefir á þessu sviði áður en þingið fór að skipta sér af síldarútveginum, meðan hann var alveg frjáls, heldur en það, sem gerzt hefir síðan þingið tók málið beinlínis í sínar hendur með því að samþ. einkasölulögin 1825, ásamt öllum þeim takmörkunum og ákvæðum, sem sett voru eftir á: það var svo sem ekki látið sitja við lögin frá 1928. Alþt. bera þess ljósastan vott, hvernig framkoma þingmeirihlutans hefir verið á þessu sviði frá öndverðu, og hvað við stjórnarandstæðingar höfum lagt til málanna. Og við, sem stundað höfum þennan atvinnuveg — ég tel mig í þeirra hópi — við finnum bezt, hvar skorinn hefir kreppt að síðan þingið steig það óheillaspor að samþ. síldareinkasölulögin, eins og þau voru úr garði gerð. Við vitum bezt hvað við höfum borið úr býtum síðan, og þeir menn, sem hjá okkur hafa unnið að síldveiðunum. Ég ætla, að það sé nokkuð einstætt í atvinnusögu okkar, það sem skeð hefir í sambandi við síldarverzlunina undir stj. núv. valdhafa, framsóknarstj. Það er hvorki meira né minna en það, að ein af veigamestu atvinnugreinum þjóðarinnar, atvinnugrein, sem fært hafði ríkissjóði stórtekjur og veitti fjölda fólks góða atvinnu á undanförnum árum, var tekin og lögð undir áhrif og yfirrað pólitískra flokka, lögð í þær viðjar og kúgunarhlekki, með þeim afleiðingttm, að stj. sjálf, sem að þessu verki hafði staðið, sá engan annan kost fyrir hendi en þann, að afnema þetta fyrirkomulag aftur mjög skyndilega með bráðabirgðalögum, þó ekki væru nema fáar vikur pangað til þing átti að koma saman og gat gert þær ráðstafanir, sem þurfa þótti. Svo hrapallega hafði til tekizt, að ekki þótti fært að bíða úrskurðar þingsins. Þetta þykir hæstv. ráðh. óþarft að vera að tala um.

Við útgerðarmenn hefðum gjarnan óskað þess, að þær illu afleiðingar, sem ég og aðrir þóttumst sjá hilla undir þegar einkasalan var sett á stofn, hefðu aldrei komið fram; við máttum óska, að spár okkar, sem mæltum á móti einkasölulögunum árið 1928, reyndust hrakspár einar. En því miður fór svo, að spár okkar rættust. þingsagan 1928–'31 ber vitni um óslitna baráttu milli jafnaðarmanna og framsóknarmanna annarsvegar, sem barizt hafa fyrir að koma síldarútveginum að sem mestu leyti undir skipulag kommúnista, og okkar sjálfstæðismanna hinsvegar, sem óaflátanlega hafa bent á galla skipulagsins og þær hrapallegu afleiðingar, sem það fyrirsjáanlega mundi hafa. Nú geta hv. þm. Framsóknarflokksins og jafnaðarmanna sjálfir þreifað á, hvert stefna þeirra hefir leitt, — ekki þá sjálfa, heldur þjóðina, atvinnurekendurna, sjómennina og verkamennina. hér gjalda saklausir menn glapræðis óforsjálla forráðamanna.

Þótt umr. um síldarmálin hafi oft þótt langar og leiðinlegar hér á þingi, og þó að hv. svokallaðir framsóknarmenn hafi stundum verið óþolinmóðir að sitja undir þeim, þá hafa þeir alltaf verið til taks að rétta upp hendina með till. og kröfum kommúnista, hvað vitlausar sem þær hafa verið, þó þær hafi blátt afram miðað að því að eyðileggja síldarútveginn; það hefir verið þeirra hlutverk í þessum ófagra leik.

Það getur vel verið, að einhverjir hafi ætlazt til þess, að hv. d. tæki við þessu frv. og afgreiddi það steinþegjandi, að ekkert væri minnzt á það, sem gerzt hefir í þessu máli á síðustu árum. Skildist mér það a. m. k. á hæstv. forsrh. En mér finnst það ofætlun, að þm. þjóðarinnar þegi um slíka hluti.

Svo langt var gengið í því að láta að kröfum kommúnista, að á þinginu 1929 voru samþ. till. um breyt. á l. um Síldareinkasöluna, sem beinlínis voru frá Einari Olgeirssyni, sem þá var einn af forstjórum einkasölunnar og er eins og allir vita róttækasti kommúnisti. Þær voru teknar upp og fluttar af þáv. þm. Ak. ( EF ) og gengu allar í þá átt að herða á þeim hnútum, sem tryggðu yfirráð kommúnista yfir síldarútveginum. Ég benti á það þá undir umr., að frv. væri algerlega frá kommúnistanum Einari Olgeirssyni runnið og sannaði það með því að vitna í ritgerð, sem hann hafði þá skrifað í tímaritið „Rétt“, þar sem hann harmaði, að einkasölulögin frá 1928 væru ekki í nógu miklu samræmi við anda og stefnu kommúnista. þetta veit ég að þeim, sem sátu á þingi 1929 er vel ljóst, og tel ég því óþarft að lesa upp úr þingtíð. um það. Svo rammt var fylgið við stefnu kommúnista í þessu máli, að allar till. voru samþ. af framsóknarbændunum, till., sem miðuðu að því að leggja atvinnureksturinn í auðn. Við andstæðingar þeirra bentum þá þegar á, að svo væri, og nú er það komið á daginn, að þessi atvinnurekstur er kominn í rústir fyrir aðgerðir þessara manna.

Hv. þm. G.-K. minntist á, að búizt væri við því að gjaldþrot einkasölunnar næmi á aðra millj. kr. þegar farið var fram á ríkisábyrgð fyrir rekstrarláni handa henni árið 1929, bentum við sjálfstæðismenn á þá hættu fyrir ríkissjóð, sem af slíkri ábyrgð stafaði. Álit Framsóknarflokksins kom þá skýrt fram í ræðu frsm. meiri hl. sjútvn., hv. 1. þm. S.-M., sem enn á sæti hér á þingi. Skal ég leyfa mér með leyfi hæstv. forseta að lesa nokkur orð úr ræðu hans, en þykir leitt, að hann skuli ekki vera við, því að hann mundi sjálfsagt hafa ánægju af að heyra, hve framsýnn hann var í þessum efnum. Honum farast svo orð á þinginu 1929:

„Í frv. er gert ráð fyrir því, að meðan varasjóður er að vaxa megi ríkisábyrgð fyrir láni til rekstrar nema allt að 1/2 millj. að viðbættum varasjóði, og gildir þetta aðeins til ársloka 1930. Hér er því um tiltölulega litla og takmarkaða ábyrgð að ræða, sem hverfa mun með öllu á stuttum tíma með þeim auknu tekjunt varasjóðs, sem frv. gerir ráð fyrir“. (Alþt. 1929 B, 3283 ) .

Þetta var álit hins gætna og varfærna 1. þm. S.-M. á ríkisábyrgðinni. Hann taldi ábyrgðina ekki mundu verða þungbæra fyrir ríkissjóð. Því miður hefir það nú komið á daginn, að skellurinn fellur með öllum sínum þunga á ríkissjóð, og ekki þó nóg með því, því að einkasalan hefir ekki verið þess megnug einu sinni að greiða hin lögboðnu útflutningsgjöld, og tapar ríkissjóður þannig stórfé í viðbót. Menn geta annars gert sér nokkrar hugmyndir um það, hve blómlegan atvinnurekstur hefir verið um að ræða í síldarverzluninni, af því, að í sumar sem leið greiddi einkasalan 2 kr. út á hverja tunnu, og þar með búið, enda fóru jafnt bátseigendur sem hásetar sama sem tómhendir heim eftir síldveiðarnar í sumar, og reyndar flestir með skuldir á bakinu. Er jafnvel kvis um, að skilanefnd telji, að þessa síldgreiðslu, 2 kr., eigi að krefja aftur.

Hæstv. forsrh. undirstrikaði það mjög, að hér væri aðeins um að ræða frv. til l. um skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands, og bæri samkv. því aðeins að taka afstöðu til þess, hvort sú ákvörðun væri rétt, sem núv. stj. gerði, þegar svo var komið, að einkasalan var orðin gjaldþrota og jafnaðarmenn höfðu með tvíræðum þingsköpum kosið sjálfa sig í stj. þessa blómlega atvinnufyrirtækis í framtíðinni. Grundvöllurinn að þessum atburðum var lagður af hæstv. forsrh. sjálfum og flokki hans á þinginu 1928, og ofan á þann grundvöll var dyggilega byggt með breyt. þingsins 1929, sem kommúnistar stóðu að, eins og ég áður sagði, en þeir höfðu lýst yfir því, að þeir vildu þetta atvinnufyrirtæki feigt að því er ágóða fyrir atvinnurekendurna snerti. Samkv. þeirra kenningum átti einkasalan aðeins að vera arðberandi fyrir verkafólkið, en ekki fyrir atvinnurekendurna, og þá sýnt, til hvers stefnt var. — Það þýðir að vísu ekki að sakast um orðinn hlut, og ekki annað að gera en að samþ. þetta frv. um skiptameðferð á búi einkasölunnar, eins og komið er, enda játa ég það fullkomlega, að síldareinkasalan átti ekki lengur tilverurétt, og því er rétt að leggja hana niður í haust. Ég get og vel skilið það, að hæstv. forsrh. sé ekki vel um það gefið, að hér sé farið mikið út í sögu einkasölunnar og vakin athygli á því, hvernig búið hefir verið að síldarútveginum á síðustu árum, en ég vil þó benda á það að draga má vissa lærdóma af því, hvernig einkasölunni hefir farnazt undir því fyrirkomulagi, sem henni var búið. Hæstv. stj. virðist þó ekki vera þetta ljóst, né heldur flestum fylgismönnum hennar. Síldareinkasölulögin voru reist á þeim kröfum, sem kommúnistar halda fram í verzlunarmálum, og eins og ég áður sagði, og leyfi mér enn að staðhæfa, var höfuðmein einkasölunnar, að stj. og flokkur hennar lét undan kröfum kommúnista um fyrirkomulag fyrirtækisins, og enda undirstrikaði þetta með því að gera kommúnistann Einar Olgeirsson að framkvæmdarstjóra við einkasöluna. Var ekki hægt að auglýsa það betur, að síldareinkasalan væri rekin í kommúnistiskum anda. — Sócíalistar, eða öllu heldur kommúnistar eins og hv. 3. þm. Reykv. (HV) réttilega kallaði þá hér á dögunum, hafa æ verið að klifa á því undanfarið, hvort stj. ætlaði sér ekki að skipuleggja síldarútveginn á ný, og er af því sýnt, að þeir eru ekki enn af baki dottnir, en ætla sér að reyna að ná yfirráðunum aftur yfir útveginum. Að vísu má skipuleggja á ýmsan hátt, en það ræður af líkindum, að meiningin fyrir þeim er að koma öllu í sama horfið sem áður var, og vil ég eindregið vara þingmeirihlutann við að láta undan þessum kröfum kommúnista, og yfirleitt að leggja inn á þær brautir í verzlun og atvinnurekstri, sem kommúnistar stefna á með kröfum sínum. Og ef afkoma Síldareinkasölunnar er ekki nóg ábending í þessu efni, verður ekki sagt, að hæstv. ríkisstj. hafi augun opin fyrir því, sem er að gerast í kringum hana, enda margt, sem bendir til þess, að stj. og flokkur hennar sé ekki vitur í þessum efnum. Hér er þannig á dagskrá í dag frv., sem sýnir áþreifanlega, hver stefna er ríkjandi innan stjórnarflokksins í verzlunarmálum. Á ég við frv. það til einkasölu á bifreiðum og mótorvélum, sem kommúnistadeild Framsóknarflokksins flytur á þskj. 189. Flm. þessa frv. hafa bæði með því og ýmsum öðrum till. sínum hér á Alþingi sýnt það ljóslega, að þeir eiga margt sameiginlegt kommúnistum um stefnu og takmark, enda þótt þeir telji sig til bændaflokks. Hér á nú að fara að bæta einni einkasölunni við enn, og það er víst, að sú hlið þeirrar einkasölu, sem að sjávarútveginum snýr, þar sem er einkasala á öllum mótorvélum, verður ekki happasæl sjómönnum eða sjávarútveginum í heild sinni, fremur en Síldareinkasalan var á sínu sviði. Er annars sorglegt til þess að vita, að ríkið skuli hvað eftir annað vera að seilast inn á atvinnusvið vissra stétta í landinu, þeim og þjóðinni í heild simi til stórskaða, eins og einna áþreifanlegast hefir verið um sjávarútveginn í tíð núv. valdhafa. Í afskiptum stj. af málum sjávarútvegsins hefir annarsvegar kennt frekrar og eyðileggjandi íhlutunar, þar sem t. d. var Síldareinkasalan með öllum sínum ófarnaði, en hinsvegar fullkomins kæruleysis, eins og einna berast er af útnefningu stj. á hinum nýja erindreka okkar á Spáni. Embætti þessa umboðsmanns íslenzka ríkisins á Spáni var stofnað fyrir nokkrum árum með miklum tilkostnaði fyrir hvatir sjávarútvegsmanna í þinginu, og var samþ. af miklum meiri hl. þingsins að hafa þennan umboðsmann í Suðurlöndum til að gæta þar hagsmuna okkar um fisksöluna. Hafði Gunnar Egilson þennan starfa fyrst með höndum og leysti hann prýðilega af hendi, eins og kunnugt er, og þegar hann lézt, skipaði núv. stj. Helga Guðmundsson bankastjóra til starfans, sem hefir mikla þekkingu á fiskverkun og fiskverzlun, enda flestir ánægðir með þessa stjórnarráðstöfun. En það átti ekki fyrir sjávarútveginum að liggja að njóta Helga Guðmundssonar lengi í þessari stöðu, því að einmitt nú á þessum hættulegu tímum í allri utanríkisverzlun, og þá ekki sízt fiskverzluninni, hefir stj. kallað hann heim og sent annan mann í staðinn, sem ekki hefir næga þekkingu á þessum málum, ekki einu sinni þá málaþekkingu, þegar hann var sendur af stað, sem til slíks starfs þarf, eftir því sem mér er sagt. Eru þetta eingöngu persónuleg mannaskipti, og ekkert tillit tekið til þess, sem sjávarútvegurinn þarfnast í þessum efnum, og þannig talandi vottur þess kæruleysis, sem hæstv. núv. stj. sýnir í afskiptum sínum af málum sjávarútvegsins. —

Með samþ. þessa frv. er Síldareinkasalan væntanlega dauð og grafin fyrir fullt og allt, en þeir menn, sem voru svo óheppnir að stunda þennan atvinnuveg undir því óstjórnarfyrirkomulagi, bera sárin á bakinu eftir atvinnureksturinn síðastl. ár. Vænti ég fastlega, að hinir vitrari og gætnari þm. allra flokka athugi það, næst þegar krafan kemur um að setja á stofn einkasölu á útflutningsvörum okkar, hver afdrif einkasölunnar urðu að þessu sinni, vegna hinna pólitísku áhrifa fyrst og fremst. Við Íslendingar höfum því miður enn ekki náð þeim þroska í pólitík, að okkur sé fært að blanda saman verzlun og pólitík, og skortir enda enn mikið á um nægilega kunnáttu á verzlunarsviðinu. Ætti og þessi dómur reynslunnar að vera okkur ærið viðvörunarefni til þess að fara ekki á ný að setja verzlunarfyrirtæki undir pólitísk yfirráð, til stórtjóns fyrir land og lýð. Er það skylda löggjafarvaldsins að styðja að eðlilegri framþróun atvinnuveganna í landinu, og slíkt má því aðeins verða, að þeir fái að þróast í friði í höndum þeirra manna, sem öðrum fremur hafa skilyrði til að vinna að þróun þeirra, og bera enda alla ábyrgðina á rekstri fyrirtækjanna. Hitt er hið mesta glapræði að fara að hrífa yfirráðin úr höndum þessara manna og leggja þau í hendur pólitískra flokka, eins og afdrif Síldareinkasölunnar eru talandi vottur um.