22.03.1932
Neðri deild: 35. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1166 í B-deild Alþingistíðinda. (774)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Fors-. og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég tel rétt að víkja nokkrum orðum aðallega að tveim atr. í ræðu hv. þm. Vestm. og vil þá fyrst víkja að því atr., sem hv. þm. veik síðar að í sinni ræðu, þar sem var sú ráðstöfun stj. að fela Helga Briem bankastjóra sendimannsstarfið á Spáni. Hv. þm. lét þess getið í sambandi við þetta, að stj. hefði áður tekið ákvörðun um þetta embætti, þegar Helga Guðmundssyni bankastjóra var falið að gegna embættinu, og kvað hann sig og aðra hafa verið fullkomlega ánægða með þá ráðstöfun stj., en hinsvegar lýsti hv. þm. óánægju sinni yfir því, að Helga Briem skyldi nú hafa verið veitt þetta embætti, og færði þar einkum til, að Helgi Briem hefðfi ekki næga þekkingu á fisksölumálum. Nú virðist þó engin ástæða vera til að ætla annað en Helgarnir báðir hafi til brunns að bera svipaða þekkingu á þessum málum; því að báðir hafa þeir staðið fyrir lánstofnunum, sem einkum taka til sjávarútvegsins, Helgi Guðmundsson sem útibússtjóri Íslandsbanka þáv. á Ísafirði, og Helgi Briem sem bankastjóri við Útvegsbankann hér í Reykjavík, nema hvað Helgi Briem ætti að hafa betri aðstöðu í þessum efnum, þar sem starf hans hefir verið umfangsmeira, og um málakunnáttu þeirra nafnanna hygg ég, að svipað sé að segja. Mér þykir að vísu vænt um það, að hv. sjtm. hefir lokið lofsorði á starf Helga Guðmundssonar sem sendimanns á Spáni, enda rétt, að hann reyndist vel og myndarlega í þessu starfi, og ég ætla hinsvegar, að hv. þm. muni jafnánægður með starf Helga Briems, þegar reynsla er komin um það. Báðir fara þeir nafnar með svipaða þekkingu til þessa starfs, eins og ég hefi rakið, og hafa því sömu skilyrði til þess að leysa það vel af hendi. Það sem ræður, verður því, hvern dugnað, viturleik og framkvæmd Helgi Briem á eftir að sýna í þessu starfi, og ég fyrir mitt leyti er ekki í neinum vafa um það, að það verður með þeim hætti, að hv. þm. Vestm. lætur sama dóm ganga yfir Helgana báða, þó að síðar verði.

Um hitt atr. í ræðu hv. þm. Vestm. skal ég ekki segja margt. Það er misskilningur hjá hv. þm., þar sem hann lagði þann skilning í mín orð áður, að ekki mætti rifja upp sögu Síldareinkasölunnar. Ég sagði aðeins, að ég ætlaði ekki að gera slíkt sjálfur, þó að aðrir yrðu til þess, en hitt sagði ég, og lagði áherzlu á, að ef slíkt væri gert, væri ekki rétt að rekja sögu þessa atvinnuvegar 3–4 síðustu ár eingöngu, heldur líka um nokkur ár áður en Síldareinkasalan kom til sögunnar, og gefa svo yfirlit um rekstur síldarútvegsins um 10–15 síðustu ár. Hv. þm. Vestm. fannst hér vera ólíku saman að jafna, af því að Alþingi hefði gripið inn í og töpin færzt yfir á ríkið út af þeim ráðstöfunum. Lít ég þvert á móti svo á, að hér sé ekki ólíku saman að jafna, því að í báðum tilfellunum hafa töpin lent á almenningi. 4 árunum frá 1919–1927 urðu gífurleg töp á síldarútgerðinni, sem að mestu leyti lentu á lánstofnunum, og við, sem sitjum hér á Alþingi, höfum orðið að hlaupa undir baggann og veita framlög svo skiptir millj. kr. bæði til Landsbankans og Útvegsbankans, sem nú er. Efnatjónið, sem orðið hefir samfara þessum atvinnurekstri, hefir því komið á almenning engu síður á tímabilinu fyrir einkasöluna heldur en á því tímabili, sem einkasalan stóð. Það sem lá fyrir áður en Síldareinkasalan var sett á stofn, var það, að báðir þeir aðilar, sem að þessum atvinnurekstri standa, höfðu fellt sína dóma í málinu á þá leið, að það þyrfti opinberra aðgerða við viðvíkjandi útveginum. Þáv. þm. Ak., Björn heit. Líndal, sem jafnan var fyrst og fremst fulltrúi sjávarútvegsins fyrir Norðurland hér á Alþingi, hafði borið fram frv. í þessa átt, þó að það frv. kæmi að vísu aldrei til framkvæmda, og nú hefir þessi tilraun verið gerð til að komast að raun um, hvort fremur væri hægt að verjast áföllum við þennan atvinnurekstur undir því skipulagi, sem gilti um einkasöluna, heldur en með skipulagsleysinu áður. Ef ég á að dæma um árangurinn frá mínu leikmannssjónarmiði til þessara mála, verður minn dómur sá, að útkoman sé svipuð. Býst ég við, að skipulagsleysið fái nú að ríkja aftur um næstu ár, og ég vildi sannarlega mega vona, að útkoman yrði nú betri en undir einkasölunni, en ég verð að játa, að ég geri mér ekki miklar vonir um, að svo verði. En hitt geri ég mér nokkrar vonir um, að sú dýrkeypta reynsla, sem við þegar höfum fengið í þessum efnum, bæði með skipulagi og skipulagsleysi, megi þegar skipulagsleysið enn á ný hefir fengið að sýna sig um stund, færa okkur inn á þær brautir, sem heppilegastar reynast í þessu mikla og erfiða máli.