22.03.1932
Neðri deild: 35. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1173 í B-deild Alþingistíðinda. (776)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Ólafur Thors:

Ég þarf ekki mikið að svara þeim hv. þdm., sem talað hafa í þessu máli. Það hefir engin tilraun verið gerð til að hrekja mitt mál, enda var það á fullum rökum reist. Þó get ég ekki látið hæstv. forsrh. ósvarað með öllu. Hann talaði um, að ég hefði talað óljóst og óákveðið. Ég veit nú ekki, hvernig hægt er að kveða skýrar á um meginatr. þessa máls en ég gerði í ræðu minni áðan. Ég sýndi fram á það ljósum rökum, hvílíkur óskapnaður einkasalan hefði orðið í allri reynd og framkvæmd, enda á röngum forsendum byggð í upphafi og lélega til starfskrafta vandað. Af þessu leiðir tvennt: Í fyrsta lagi, að rétt er að leggja einkasöluna niður, og í öðru lagi, að rangt væri að endurreisa hana. þetta var kjarni míns máls, og að þessu færði ég sterk og óyggjandi rök. Hæstv. ráðh. reyndi að snúa út úr orðum mínum og lét sem ég hefði sagt, að ræða mín væri móðgun við deildina. Þetta er rangfærsla en hitt er rétt, að það stappaði nærri, að það væri móðgun við deildina að neyðast til þess að verja dýrmætum tíma þingsins til þess að sýna fram á, hverjir það eru, sem ábyrgð bera á þessu glapræði, sem löggjafarvaldið hefir látið teyma sig út í. Fyrst og fremst er það sjálfur dómsmrh., sem ber ábyrgðina, þó hann þori ekki að hlýða á umr. Hann ber ábyrgðina á þessu, eins og svo mörgum óhappa- og óhæfuverkum stjórnarflokksins, en svo þorir hann ekki að mæta í deildinni, þegar hann á þess von að verða kvaddur til reikningsskapar fyrir verk sín.

Þá sagði hæstv. ráðh., að sér fyndist óviðfelldið af mér að ámæla forstjórum þessa fyrirtækis, slíkt bæri að gera á þeim vettvangi, þar sem þeir hefðu aðstöðu til málsvarnar. Hæstv. ráðh. verður að játa, að það er alls ekki unnt að ræða um starfsemi slíkra fyrirtækja, nema koma um leið inn á það, hvernig þeir, sem veita fyrirtækinu forstöðu, standa í stöðum sínum. Auk þess ber þess að gæta, að þessir menn eiga málsvara hér, og hann ekki af lakari endanum, þar sem er hæstv. forsrh. sjálfur. Hann er æðsti maður þessara mála, hann ber ábyrgðina á því, hvernig fyrirtækinu hefir farnazt, hann er sem forsrh. oddamaður þessa fyrirtækis og í höndum hans er úrslitavaldið um stjórn þess. Hann og hans flokkur ber ómengaða ábyrgð á öllum þeim mistökum, sem hér hafa á orðið. Þessu til stuðnings skal ég leyfa mér að tilfæra nokkur orð úr grein eftir dómsmrh. í malgagni stjórnarinnar, sem skrifuð er einu ári eftir að einkasalan var sett á stofn. Þar segir svo, eftir að farið hefir verið morgum orðum um ólagið á síldarútvegnum: „Þá kemur bændaflokkurinn til skjalanna .... Hann finnur bjargráðin. Knýr verkamenn og útgerðarmenn til sjálfsbjargar“. Síðar segir svo: „Oddamaðurinn er tilnefndur af bændavaldi þingsins. sá maður verður ósjálfrátt stýrimaður skittunnar. Hann skapar meiri hluta til hægri eða vinstri, eftir því sem málefni eru til“. („Tíminn“ 1929).

Ef dómsmrh. skyldi nú einu sinni hafa slysazt á að segja satt — og ég held það nærri því í þessu tilfelli — þá er það hæstv. forsrh. og enginn annar, sem að forminu til er „stýrimaður á skútunni“. Honum ber því að svara til sakar fyrir glöp þau, er á hafa orðið hjá þeim mönnum, sem hér er um að ræða. Það er því sannarlega ekki svo, að ég sé að ráðast á lítilmagnann varnarlausan, þar sem annar eins maður er til málsvarnar og hæstv. forsrh. En ef ég hefði nú viljað hlífast við að gera frammistöðu þessara manna að umtalsefni hér, þá væri það einungis með því fororði, að ég ætti þess nokkra von að fá menn þessa á sameiginlegan vettvang. En hvernig hefir nú sjálfum hæstv. forsrh. gengið að fá þá til að mæta, til að standa fyrir máli sínu. Reyndi hann ekki oft og mörgum sinnum að fá þann af framkvæmdarstjórum einkasölunnar, sem ráðamestur var, til þess að mæta á fulltrúafundinum í vetur, til þess að svara til sakar? Ég veit ekki betur en að hann, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hæstv. ráðh. til þess að fá hann til að koma hingað suður, sæti kyrr sem fastast og hreyfði sig hvergi. Ég veit nú ekki, hvaða vald eða aðstöðu ég hefði til þess að krefja þessa menn til málsvarnar, ég get ekki stefnt þeim fyrir mig né dregið þá nauðuga til að svara til sakar. Að þessu athuguðu tel ég mig hafa fulla heimild til þess að tala um þessa menn hér, á þann hátt, sem við á. Ráðherrann er hér sá rétti málsvari, og honum ber hér að standa reikningsskap fyrir ráðsmennsku undirmanna sinna. Mér verður því ekki með réttu legið á hálsi fyrir ódrengskap í þessu máli, þó ég víki nokkrum réttmætum orðum að frammistöðu þessara manna, í sambandi við aðrar umr. um málið á Alþingi.

Ég gerði grein fyrir því í fyrri ræðu minni, í hverju lá hinn mikli munur á samlagslögunum 1926 og síldareinkasölulögunum 1928, og þarf ég ekki að endurtaka það. Að baki laganna 1926 lá sú meginhugsun, að þeir aðilar, sem mest ættu í húfi um afkomu síldarútvegsins, bæru einir alla ábyrgðina. Auk þess fólust í þeim lögum nokkrar ráðstafanir gegn leppunum. En eftir lögunum 1928 fékk löggjafarvaldið, sem litla aðstöðu hefir til að bera skyn á þessi mál, öll völd í þessum efnum. Öllum, sem nokkra þekking höfðu á síldarútgerð, var það frá upphafi ljóst, að illa hlyti að fara, hrunið var fyrirsjáanlegt frá öndverðu, jafnvel þótt betur hefði til tekizt um mannaval. Reynslan hefir nú sýnt það, því miður, að þær hrakspár voru sízt að ófyrirsynju.

Ég sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um ágreining hæstv. forsrh. og hv. þm. Vestm. í sambandi við það, að Helgi Briem var sendur til Spánar í stað Helga Guðmundssonar. Um þetta hafði hv. þm. Vestm. að öllu leyti rétt fyrir sér, en hæstv. ráðh. algerlega rangt. Hæstv. ráðh. komst að orði eitthvað á þá leið, að þeir hefðu baðir haft mikla og líka þekking til að bera, en starfsemi Helga Briems hefði þó verið öllu umfangsmeiri, og þekking hans parafleiðandi viðtækari. Þetta er alveg rangt, því að Helgi Guðmundsson hefir mikið fengizt við fiskverzlun, og meðan hann var útibússtjóri á Ísafirði, var hann önnur hönd útgerðarmanna á Vestfjörðum um fisksölu. Hinsvegar verður það varla sagt um Helga Briem, að hann svo mikið sem þekki þorsk frá ýsu, enda er maðurinn alls ófróður um þá hluti, svo sem vænta má af manni, sem aldrei hefir haft neina slíka starfsemi með höndum. Þessum efnum sem öðrum veltur vitaskuld mjög mikið á grundvallaðri þekking viðkomandi manns á þessum málum, náttúrugreindin ein er hvergi nærri einhlít. Um þessa tvo menn er það að segja í stuttu máli, að Helgi Guðmundsson hefir þekkinguna algerlega fram yfir nafna sinn, og þess vegna verða þeir eigi lagðir til jafns. En það er nú svo um þetta starf, að við veitingu þess er meira tekið tillit til pólitískra skoðana heldur en raunverulegra hæfileika, enda er þeirri reglu jafnan haldið í embættaveitingum núv. stjórnar.

Ég hefi þá svarað flestu því, sem svara þarf í ræðu hæstv. ráðh. En ég vil ekki með öllu láta undir höfuð leggjast að víkja að ræðu hv. 3. þm. Reykv. Hann hélt því fram, að síldarútvegurinn hefði gengið betur eftir að síldareinkasalan var stofnuð og fram til síðasta árs. þetta er gersamlega rangt, og ég vil biðja hv. þm. að spyrja viðskiptavini sína, t. d. formenn úr Keflavík um það, hvort afkoma þeirra í síldarútgerð hafi verið betri eftir að einkasalan tók við en áður, meðan Kveldúlfur og aðrir fiskikaupmenn önnuðust sölu síldarinnar. Þegar einkasalan hóf starfsemi sína, hafði fyrirtæki það, sem ég er við riðinn, haft með höndum síldverzlun í 13–14 ár, og sennilega verið í hópi þeirra, sem af „hundaheppni“ hafa sloppið skaðlausir, eins og hv. þm. orðaði það. En eftir að einkasalan tók við, álitum við bezt að leggja þennan útveg niður, þrátt fyrir það, að við ættum dýrar og fullkomnar síldarstöðvar bæði á Hesteyri og Siglufirði, sem eftir það urðu að vera ónotaðar. Þetta sýnir, hvaða álit við höfðum frá öndverðu á þessu fyrirtæki, og við það bættist svo það, að stj. þess var falin á hendur þeim óvitum, sem nú hafa lagt bæði einkasöluna og síldarútveginn í kaldakol. Hv. þm. má ekki ætla, að það séu rök í þessu máli, þó að hann nú vilji fara að draga inn í umr. örlög sjávarútvegsins á öðrum sviðum. Hann veit, að kaupgjald á togurum og vélskipum, einkanlega þó togurum, hefir verið sæmilegt, viðlíka hátt og undanfarin ár. Aftur á móti hefir kaup á þeim skipum, sem stunda síldveiðar og leggja aflann til Síldareinkasölunnar, verið svo hraksmánarlegt, að menn hafa varla verið matvinnungar á sama tíma sem menn hafa fengið 1500–2000 kr. fyrir sömu vinnu hjá þeim, sem gerðu út skip með það fyrir augum að leggja aflann til bræðslu. Hv. þm. getur ekki afsakað Síldareinkasöluna, þó að hann geti bent á, að öðrum hafi gengið illa með sama atvinnurekstur. Hv. þm. veit, að rekstur einkasölunnar hefir verið með þeim ósköpum, að þess eru engin dæmi í íslenzkri atvinnusögu. Það má vitanlega benda á, að í rekstri einstaklinga eru margar misfellur og verða alltaf svo lengi sem einstaklingar reka atvinnu. En það afsannar ekki það, sem ég hefi haldið fram, að misfellur Síldareinkasölunnar eru óvenjulega stórar. Mér dettur ekki í hug að vera að rökræða um það, að hér hafi einhverjar misfellur verið, heldur hversu stórar þær hafi verið og að það var fyrirsjáanlegt, að þær hlutu að verða það, vegna þess, hvernig stj. þessa fyrirtækis var skipuð. (HV: Hvernig er það með gróðann á síldarbræðslunni?) Hvernig er það með gróðann á síldarbræðslunni segir hv. þm. Það er sitt hvað að borga mönnum 1500–2000 kr., þó ekki sé mikill gróði, ef ekki er mikið tap. Hvað snertir síldarbræðsluna á Hesteyri, þá hygg ég, að við töpum einhverju, en sára litlu. Ég endurtek það, að hv. þm. verður að gera sér það ljóst, að við erum ekki að finna að því, að eitthvað hafi gengið illa hjá Síldareinkasölunni, heldur hvað allt hefir gengið hörmulega. Hv. þm. hallmælti sjálfstæðismönnum fyrir það að finna að því, að Einar Olgeirsson leitaði hófanna um samninga við Norðmenn. ég veit ekki hvort þetta er misminni hjá hv. þm., eða hvort þetta er gegn betri vitund. Það, sem við finnum að, er það, að þeir Pétur Ólafsson og Einar Olgeirsson settust að samningaborði við Norðmenn, umboðslausir, og gáfu í skyn, að þeir töluðu fyrir hönd íslenzku ríkisstj., og fóru að bjóða Norðmönnum upp á tilslakanir á fiskiveiðalöggjöfinni. Ég skal játa það, að ég er ekki hissa á því, þó að ýmsir og þ. á m. þessi hv. þm. kvíði því, sem nú tekur við í síldarútgerð landsmanna. Ég veit, að það er ekki björgulegt eins og komið er. En ég vildi segja hv. þm. það, að ég er ekki trúaður á og hefi ekki kjark til að fitja upp á nýju eftir þá reynslu, sem komin er. Hann verður að athuga það, að ein af syndum forstjóranna er sit, að þeir með sinni framkomu hafa knúð það fram, að flestar þær þjóðir, sem síldina keyptu af okkur, eru nú komnar til Íslands með sinn skipastól og farnar að veiða sjálfar til þess að fullnægja sinni nota þörf. Það er ekki efnilegt fyrir nokkurt löggjafarvald að taka á sig ábyrgð og segja fyrir um, hvernig eigi að vinda sér fram úr þessu. Ég er þeirrar trúar og byggi von mína á því, að einstaklingsframtaki takist að færa þessi mál aftur í fyrra horf. Og þá getur verið um að ræða, hvort hægt sé að koma á skipulagi, sem byggist á frjálsum samtökum þeirra einstaklinga, sem hlut eiga að máli.