09.04.1932
Neðri deild: 47. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í B-deild Alþingistíðinda. (78)

1. mál, fjárlög 1933

Frsm. fyrri kafla (Hannes Jónsson) [óyfirl.]:

Hv. þm. Seyðf. var allgustillur, er hann kom hér fram á leikvöllinn áðan. Hann fór rasandi mjög, grenjaði af miklum móði og beit í skjaldarrendur. Honum þótti flest fánýtt í störfum fjvn., og sömu skeytum beindi hann til hæstv. stj. fyrir undirbúning fjárlagafrv. Skildist mér helzt, að hann vænti svipaðra undirtekta í hv. þd. og teldi réttast að senda þm. heim til sín, þar sem ekki væri rætt um annað en skemmdar kartöflur og því um líkt. En ég verð þá að segja það, að sú ótútlegasta kartafla, sem sest hefir hér í deildinni, er komin frá jafnaðarmönnum, og hefir spírað þar í gróðurhúsi þeirra eigin óheilinda. Þeir hafa lýst því yfir aður, að þeir ætli ekki að fylgja neinum tekjuaukafrv. og ekki heldur styðja að framlengingu gengisviðauka og verðtolls, sem fjárhagsáætlunin meðal annars byggist á, vitandi þó, að með því fella þeir niður allar fjárhæðir, sem nota ætti til verklegra framkvæmda í landinu. En nú virðist samvizkan hafa slegið þá svo, að þeir óttast, að verk þeirra fari að tala, og það svo hátt, að koma muni þeim í koll. Þeir óttast, að fátækir verkamenn úti um land kunni því illa að missa af því fé, sem ætlað var til verklegra framkvæmda, þegar búið er að reyta úr ríkissjóði í eigin hít leiðtoganna þær fjárhæðir, sem átt hefðu að ganga til aukinnar atvinnu í landinu. (ÓTh: Heyr! ) Þegar þeir sjá þetta, taka þeir það ráð að reyna að gylla sig í augum verkamanna og flytja brtt. við fjárl., þar sem þeir leggja til, að lagt skuli fram úr ríkissjóði Í millj. kr. til þess að bæta úr því atvinnuleysi, er þeir sjálfir stuðla að, að haldist við, með því það standa á móti því, að kaupgjaldið fái að laga sig eftir getu atvinnuveganna. Slík eru nú heilindi þessara svokölluðu jafnaðarmannaforingja! Og svo kemur hv. 3. þm. Reykv. og lýsir því yfir, að hann vilji fella fjárlögin. (HV: Ekki geri ég það einn). Hv. þm. Seyðf. vildi mótmæla því, að hv. 3. þm. Reykv. hefði sagt þetta, en hann getur það ekki, og fyrir sjálfan sig tók hann það fram, að hann vildi að vísu afla ríkissjóði tekna, ef þeim yrði varið samkv. þessum atvinnubótatill. hans. En hvaðan á þá að koma fé til að halda uppi vegavinnu og símalagningu í hinum dreifðu byggðum landsins, og hvað verður um jarðræktarstyrkinn og aðrar verklegar framkvæmdir, ef tekjurnar hrökkva ekki fyrir lögboðnum gjöldum ríkissjóðs? þegar búið er að tryggja, að hægt sé að framkvæma þær verklegu framkvæmdir, sem gert er ráð fyrir, þá er fyrst tími til að ræða um nýja fjáröflun til aukinna framkvæmda í kaupstöðum og sveitum.

Hv. þm. Seyðf. varð tíðrætt um kjass og blíðmæli á milli fjvn. og hæstv. fjmrh. Áður hafði hann gefið í skyn, að sama ætti sér stað á milli þeirra tveggja flokka, sem sæti eiga í fjvn. Ég veit nú ekki, hversu mikill snillingur hv. þm. er í því að beita kjassi. En hitt er víst, að hann hefir undra gott lag á því að gera sér það arðberandi. (Hlátur).

Að lokum vil ég segja hv. hm., að fjvn. og báðir aðalflokkar þingsins skilja betur en hann þá ábyrgð, sem á þinginu hvílir um afgreiðslu fjárl. Á þessum grundvelli er starf fjvn. reist. Hvorugur flokkanna lætur sér detta í hug að segja eins og jafnaðarmenn hafa sagt hér í þessari hv. d., að þeir bæru á engan hátt ábyrgð á fjármálum ríkisins. Þegar menn hafa heyrt þetta og annað því um líkt af vörum þeirra, þarf engan að undra, þó að þeir komi með till., sem eru jafn glannalegar og sú um atvinnubótastyrkinn. Það er eftir öðru, sem vænta má frá þeirra hendi og í beinu sambandi við orð þeirra og athæfi.

En rökin hjá hv. þm. Seyðf. eru ekki veigamikil, ef taka á dæmi af því síðasta, sem hann sagði, að ríkið hefði orðið að hlaupa undir bagga með samvinnufélagi sjómanna á Ísafirði og greiða allmikla fjárhæð úr sínum sjóði félaginu til bjargar. Hann sagði, að ríkið hefði ekki orðið fyrir neinu tjóni af þessu, því að skattar og tollar, sem runnið hefðu í ríkissjóð vegna fél., mundu tvöfalt hærri en þeirri upphæð nemur, er ríkið varð að greiða vegna ábyrgðar þeirrar, er því hefir verið flækt í fyrir félagið. Skoðun hv. þm. virðist því vera sú, að ríkinu geri ekkert til, þó að það taki á sig skell af ábyrgðum, ef tjónið fer ekki fram úr því, sem ríkissjóði kann að hafa hlotnazt í sköttum og tollum af rekstri fyrirtækisins. það gerir ekkert til, þótt ríkið biði tjón af atvinnurekstri einstaklinga og félaga, ef það yfirstígur ekki það, sem ríkissjóður hefir fengið í sköttum og tollum.

Slík eru nú rökin hjá þessum fjármálaspeking alþýðunnar — bankaútibússtjóranum á Seyðisfirði. Má nærri geta, hvernig fer um afkomu banka hans, þegar hann fer að gefa eftir af lánum á þeim grundvelli að reikna út, hvað ríkið hefir grætt í tollum og sköttum. Það verður sennilega ekki góð útkoma hjá banka, sem stjórnað er á hann hátt. Annars verð ég að líta svo á, að það séu lítil meðmæli með brtt., er hv. flm. lýsir því yfir, að hann ætlist til, að ábyrgðin greiðist af ríkissjóði að því leyti, sem tekjur af starfseminni greiðast í ríkissjóð, m. ö. o. fyrirtækið á að vera skattfrjálst, en ríkið þó að hafa ánægjuna af því að standa í ábyrgðinni. Ef einhverjir hefðu viljað marla á móti brtt. hv. þm. Seyðf., þá hefir sjálfur flm. tekið það ómak af þeim, því að hann hefir gert það svo rækilega, að enginn hv. þdm. mundi hafa gert það betur. Vænti ég, að hv. þingd. sýni hv. flm. þá kurteisi að taka rök hans til greina og felli till.