23.03.1932
Neðri deild: 36. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1185 í B-deild Alþingistíðinda. (782)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Það hafa ýmsir hv. þm. vikið að hv. 3. þm. Reykv., sem ekki er viðstaddur nú. Ég vil því segja nokkur orð, ekki svo mjög til að verja hann, heldur til að drepa á ýms atriði, sem hér hefir verið rætt um og máske fleiri.

Hv. þm. N.-Ísf. vildi fara að leiðrétta samanburð, er hv. 3. þm. Reykv. gerði í ræðu sinni, og sagði, að Norðmenn væru búnir að selja alla sína síld fyrir 10 kr. innihaldið í tunnu. Eftir því sem ég veit bezt, þá er nú þetta fjarri því að vera leiðrétting, því að Norðmenn munu eiga mikið óselt enn og meðalverðið langt frá því að ná 10 kr. innihald hverrar tunnu. Hygg ég, að hv. þm. væri betra að vanda betur til leiðréttinga sinna en hann gerir oft.

Hv. þm. Ak. sagði, að hið frjálsa framtak einstaklingsins væri hið eina, sem bjargað gæti úr því ófremdarástandi, sem Síldareinkasalan hefði verið búin að koma þessum atvinnuveg i. — ég vil nú minna hv. þm. á það, að áður en Síldareinkasalan kom, var stór hluti þeirra manna, er síldarútgerð stunduðu á Akureyri og reyndar víðar, sannfærður um, að þessi atvinnuvegur væri í ófremdarástandi, þáv. þm. Ak. áleit þetta ófremdarástand svo vont, að nauðsyn bæri til að setja einkasölu á síld í einhverri mynd, eins og hv. þm. G.-K. orðaði það, og flutti . frv. um það. Hið eina, sem ágreiningur var um, var það, sem hv. þm. Vestm. orðaði svo sniðuglega, er hann sagði, að hann væri ekki á móti síldareinkasölu, heldur aðeins á móti því, að það væru flón, sem væru látin stjórna henni. Á venjulegu máli mundi þetta þýða, að til þess að uppfylla þá kröfu, yrði stj. að vera í höndum hans flokks, því mat hv. þm. á sérhverjum manni fer algerlega eftir því, hvaða flokki hann tilheyrir. Mat hans er það, eftir því sem hann hefir sjálfur lýst, að ef einhver till. kemur frá kommúnistum, hver sem hún er, þá hljóti hún að vera vitleysa. Sama er um aðra andstöðuflokkana. Slíkar röksemdir þarf ekki að ræða, þær eru svo mikil vitleysa. Það er erfitt að rökræða við slíka menn, sem telja allt það gott, sem viðkemur samherjum sínum, en allar till. óhæfar, sem koma frá andstæðingunum.

Það er rétt, að stórar misfellur hafa orðið á um framkvæmd Síldareinkasölunnar, en þó var sú misfellan mest og hafði skaðlegastar afleiðingar, að á síðastl. sumri, eftir kröfum íhaldsmanna, var síldarsöltunin gefin frjáls.

Ég býst nú við, að forlög Kartagoborgar séu þegar ráðin, að samþ. verði frv. eða bráðabirgðalög hæstv. ríkisstj. Ég heyri, að það hlakkar í hv. íhaldsmönnum yfir því að standa nú yfir moldum Síldareinkasölunnar. En ég hygg, að sit verði fljótt raunin á, að fyrir þá, sem þessa atvinnu stunda og þurfa að fá lífsframfæri sitt af henni, verði niðurlagning einkasölunnar ekki lengi neitt tilhlökkunarefni.

Það, sem steypt hefir Síldareinkasölunni, var ekki reksturinn, þótt margt mætti að honum finna. Það, sem ráðið hefir úrslitum um örlög einkasölunnar, var söltun annara þjóða utan landhelgi. Og sú starfsemi útlendinganna er ekki að kenna Síldareinkasölunni, heldur er það fiskiveiðalöggjöfin frá 1922, sem á sökina á því. Ég hygg, að tími sé nú til kominn að fara að endurskoða þá löggjöf. Fyrir suma hluta landsins hefir hún áreiðanlega verið til stórrar bölvunar. Fyrir Síldareinkasöluna og síldveiðar almennt hefir hún verið til hins mesta tjóns. Er því tími til kominn að taka til athugunar, hvort ekki er rétt að breyta henni.

Hv. þm. G.-K. sagði í ræðu sinni, að fulltrúi Alþýðufl. í útflutningsnefnd, hr. Erl. Friðjónsson, hefði borið ábyrgð á samningi þeim, er hann taldi, að stj. Síldareinkasölunnar hefði gert við Brödrene Levi. Hið sanna er, að stj. Síldareinkasölunnar gerði aldrei neinn samning við þetta firma. þetta tel ég skylt að leiðrétta. Þeir, sem þennan samning gerðu, voru þeir Einar Olgeirsson og Ingvar Guðjónsson, að stjórn einkasölunnar fornspurðri. En hún neitaði að viðurkenna þennan samning. (EA: Borgaði hún ekki skaðabætur?). Mér er ekki kunnugt um, hvort svo var gert. Þetta er alveg sambærilegt við það, sem hefir hent hv. þm. G.-K. Mér skildist á ræðu þess hv. þm., að hann bæri enga ábyrgð á því, þótt það leiðinlega slys hafi hent, að síldarmálin á Hesteyri hafi reynzt of stór. Hann vill kenna smiðnum, sem smíðaði málin, um það, en neitar að taka ábyrgð á því sjálfur. Ef hv. 2. þm. Reykv., sem fram í tók og tjáð hefir sig sammála hv. þm. G.-K. í þessu, vill vera sjálfum sér samkvæmur, þá á hann líka að gefa stj. Síldareinkasölunnar kvittun fyrir þann samning og telja hana sýkna af honum, ekki sízt þar sem hún kippti þessu í lag.

Hv. þm. Vestm. sagði, að eignahalli Síldareinkasölunnar mundi nema 1 millj. kr. Ég býst við, að þetta láti nærri og sé þó fremur varlega áætlað en hitt. En það er rétt að minna á, að af þessari millj. eru útflutningstollar og önnur gjöld til ríkissjóðs af síldinni 400 þús. kr. Tollar í ríkissjóð alls af síldinni nema 2 kr. á tunnu. Á síðastl. sumri borgaði Síldareinkasalan 2 kr. fyrir tunnu af veiddri síld. Stendur þá heima, að tollar af síldinni eru jafnháir því, sem fyrir hana var greitt. sé það nú rétt, að 2/5 af skuldum einkasölunnar sé við ríkissjóð, þá er ekki hægt annað að segja en ríkissjóður hafi gert sitt til að steypa einkasölunni. Engin útflutningsvara er hlutfallslega jafnhátt tolluð og síldin. sé gert ráð fyrir að innihald hverrar tunnu hefði hefði selzt á 8 kr., hefði tollurinn numið 1/4 verðs. Þannig hefir ríkissjóður búið að þessu fyrirtæki. Ef tollurinn er lagður saman frá upphafi Síldareinkasölunnar vantar lítið á, að fengið sé fyrir tapi hennar.

Engan þarf að furða á því, þótt íhaldsmenn, sem frá upphafi hafa barizt gegn Síldareinkasölunni, eins og samtökum og samvinnu í viðskiptum yfirleitt, fagni nú falli hennar. Hitt gegnir meiri furðu, að framsóknarmenn skuli nú vera einhuga og samhuga íhaldsmönnum um þetta. Ef athuguð eru atkvæði og ummæli framsóknarmanna í þessu máli áður, skýtur nokkuð skökku við.

Framsókn hefir viðurkennt, að hún hafi enga fasta stefnu í skattamálum. Ég sé, að hæstv. forsrh. hristir höfuðið. (Forsrh.: Er það furða ?). Að vísu hefir verið birt í „Tímanum“ samþykkt frá flokksþingi framsóknarmanna um það að fella niður tolla, en taka upp beina skatta í staðinn. En hér á þingi fylgir flokkurinn gagnstæðri stefnu, eins og kunnugt er, og ber því við, að nú séu erfiðir tímar. Í viðskiptum og verzlun þykist Framsóknarfl. berjast fyrir samvinnu þeirra, er leggja fram vinnu sína og afurðir, og á þeirri stefnu var síldareinkasölufrv. byggt. Við Alþýðuflokksmenn bárum fram frv. um að stj. tæki síldarsöluna í sínar hendur. Við studdum þó hitt frv. heldur en að halda við því ófremdarástandi, sem verið hafði á síldarsölunni. En hvernig fylgir svo Framsóknarfl. þessum hugsjónum sínum eftir? Nú, þegar allar helztu afurðir landsmanna, kjöt, fiskur, síld, hrapa niður úr öllu valdi, afnemur hún þennan vísi til „lögboðins samvinnuskipulags“, Síldareinkasöluna. Ég skal játa, að allmiklir erfiðleikar eru nú á því að taka upp það fyrirkomulag, sem við stungum upp á 1929, en þó er mér ljóst, að það er eina leiðin, sem tryggir mönnum laun fyrir vinnu sína við síld í sumar.

Nú, þegar allar þjóðir rammgirða sig með tollmúrum, er það óhjákvæmilegt, ef ríkið vill á annað borð hafa nokkur afskipti af verzlun og viðskiptum, að gera sömu ráðstafanir um utanríkisverzlunina og gerðar voru á stríðsárunum. Framsóknarflokkurinn hlýtur að sjá, að ástandið í verzlunarmálunum er a. m. k. eins alvarlegt og á stríðsárunum. Ef þetta ár verður eins erfitt eða erfiðara en síðastl. ár, þá sé ég ekki, hvernig á að halda ríkisbúskapnum uppi, nema alveg sérstakar ráðstafanir séu gerðar, og þá fyrst og fremst þær, að ríkið taki utanríkisverzlunina í sínar hendur. Við Íslendingar stöndum að ýmsu leyti vel að vígi úr að gera það, eins og ég mun víkja að síðar.

Saltfiskverzlunin er í megnasta ólagi, því neitar enginn. Fiskurinn er mest sendur í „konsignation“, þannig að seljendur fá lagt, ákveðið verð út á hann strax, og síðan viðbót eftir því sem fiskurinn selst, en sú viðbót getur auðvitað brugðizt til beggja vona. Þótt tvö firmu, Alliance og Kveldúlfur, hafi mestan hluta fisksölunnar á sinni hendi, er þó nógu mikið af fiski utan við samtökin til að spilla sölunni og lækka verðið. Þetta hefir komið fyrir á Ítalíu, þar sem þessi firmu hafa þó einn og sama umboðsmann, að önnur firmu hafa sent þangað fisk og selt fyrir lægra verð og þrýst þannig heildarfiskverðinu niður. Nú eru gjaldeyrisvandræði svo mikil, að tvísýna er á, að hægt verði að fullnægja brýnustu þörfum. Ef nokkur hluti verðs er borgaður út á fiskinn við móttöku, en hitt síðar eftir sölu, er ómögulegt fyrir gengisnefnd að fylgjast með genginu. Bankarnir eru peningalausir eða peningalitlir og Alliance og Kveldúlfur, sem annaðhvort hafa meiri ráð eða meira traust, eru farin að verzla upp á gamla móðinn, þ. e. að láta menn hafa salt og kol og veiðarfæri o. s. frv. gegn því að fá fisk í staðinn, oft með ákveðnu verði. Saltfiskverzlunin hefir því ýmsa ókosti einokunarinnar inn á við, en enga kosti hennar út á við.

Hið sama verður uppi á teningnum á Spáni og í Svíþjóð. Stórsíldarsalar þar voru yfirleitt ánægðir með Síldareinkasöluna, af því að ekki var hætta á að aðrir kæmu síðar og byðu síld með lækkuðu verði og settu þannig verðið niður á þeirri síld, er þeir voru búnir að kaupa. Sú hætta, sem vofir yfir fiskkaupmönnum á Spáni er sú, meðan saltfisksalan er í því horfi, sem hún er, að önnur firmu héðan sendi þangað fisk, sem lækki verðið á þeim birgðum, sem þeir hafa keypt. þetta hefir komið fyrir hvað eftir annað á Spáni og Ítalíu. Enda liggur það í augum uppi, að samkeppnin, eftir kenningum fylgjenda hennar, hlýtur að vera oss hættuleg erlendis. þeir segja nefnilega, að hún lækki verðið. Íslenzkir útflytjendur, sem keppa hverir við aðra á erlendum markaði lækka verðið hver fyrir öðrum.

Snemma þings, þegar ég spurði stj. um kreppuráðstafanir hennar, svaraði hæstv. forsrh. með því, að bráðum væri von á skýrslu um verzlunarkostnað í Rvík og sagði þetta með þeim raddblæ og yfirbragði, sem kreppan væri leyst með þessari skýrslu.

þessi skýrsla er komin. Og hún er merkileg. Hún sýnir það, að verzlunarkostnaður í Reykjavík nemur 13–14 millj. kr. á ári. (EA: Hefir hv. þm. gagnrýnt skýrsluna?) ég hefi lesið gagnrýni kaupsýslumanna á henni. Þeir segja, að hún ætli kostnaðinn um þriðjung of háan. Mér hefir þó af ýmsu virzt, að réttara sé farið með hjá skattstjóranum. Býst ég því ekki við, að kostnaðurinn sé til muna lægri en í skýrslunni segir. Ég hefi áður gert áætlun um verzlunarkostnað miðað við árið 1929 og taldi þar með alla sölu innlendra vara og dreifingu erlendra vara og kostnað við heildverzlunina, og taldist mér hann 25–30 millj.

Mér finnst það harla undarlegt, að stj. skuli koma fram með þessa skýrslu og gera hana að sínum málstað, an þess að gera nokkuð til umbóta. Hefði ég verið í sporum hæstv. forsrh., hefði mér ekki dottið í hug að sýna þessa skýrslu. Hvað þýðir að sýna, að svo og svo margar millj. séu teknar úr vasa Reykvíkinga, ef ekki er bætt úr því ástandi. Ef stj. hefði skörungsskap til að gera það, sem sumir flokksmenn hennar láta í veðri vaka, að þeir vilji, að taka utanríkisverzlunina í sínar hendur, mætti lækka verzlunarkostnaðinn um 2/3.

Þó er þetta ekki aðalatriðið, heldur hitt, að ef öll utanríkisverzlun er undir einum hatti, er hægt að fá miklu betri kjör bæði um kaup og sölu en áður. Í öllum vorum viðskiptalöndum, nema Spáni, Ítalíu og Portúgal, erum við stærri kaupendur en seljendur. Væri öll utanríkisverzlunin á einni hendi, virðist liggja beint við, að við notum okkar kaupendaaðstöðu til að skapa okkur kaupendaaðstöðu, þ. e. a. s. að koma vörum inn í þau lönd, sem við kaupum vörur frá. Þarf ekki lengi að leita að dæmi, sem sýnir, að þetta er hægt. Ég á hér við samninga þá, sem hv. þm. Vestm. gerði í Þýzkalandi um sölu fiskjar fyrir skömmu.

Mér hefði þótt leitt, ef umr. hefðu fallið niður í dag eins og útlit var fyrir um tíma. nú vona ég, að ég hafi gefið það tilefni, að umr. geti staðið út fundartímann.