23.03.1932
Neðri deild: 36. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1190 í B-deild Alþingistíðinda. (783)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Guðbrandur Ísberg:

Ég get ekki látið ómótmælt þeim ummælum hv. þm. Seyðf., að hann skyldi kenna hirðuleysi einstakra manna um skemmdir þær, sem urðu í síldinni í sumar. Söltunin fór fram með alveg sama hætti og áður og undir sama eftirliti. Ástæðan til skemmdanna voru óvenju miklir hitar. þetta veit öll þjóðin og hv. þm. Seyðf. líka. Hann talar því á móti betri vitund, er hann vill skella skuldinni fyrir skemmdirnar á einstaka „íhaldsmenn“, eins og hann orðaði það. Hv. þm. líkaði ekki, að ég skyldi nota orðið ófremdarástand um viðskilnað Síldareinkasölunnar. Ég skal játa það, að orðið var heldur vægt. Rústir hefði verið réttara. Ekki einn einasti maður hefði gert út á síld í sumar, hefði einkasalan haldið áfram. Þetta voru afleiðingarnar af starfi sócíalista og bandamanna þeirra, sem komu að einkasölunni og stjórnuðu henni.

Mér fannst gæta óþarflega mikils kæruleysis hjá hv. þm., er hann talaði um afdrif einkasölunnar. Mér fannst, að fremur hefði mátt kenna ofurlítils klökkva í rödd hans, er hann sagði þetta, ef samvizka hans og flokkssamvizka er ekki alveg sofnuð.

Hv. þm. furðaði sig á því og harmaði það mjög, að Framsóknarfl. skyldi nú vera sammála sjálfstæðismönnum um að leggja niður einkasöluna. Þótt jafnaðarmenn teldu Framsóknarfl. til að koma einkasölunni á og halda henni við fram til þessa, get ég hvorki undrazt yfir né veitzt að Framsóknarfl., þótt hann hverfi nú frá villu síns vegar, eftir að ástand einkasölunnar er orðið lýðum ljóst.

Annars talaði hv. þm. miklu meira um saltfisk en síld. Af því að saltfisksalan á við örðugleika að etja eins og stendur, á nú að veitast að henni og leggja hana í rústir líka. En vegna þess að ekkert frv. liggur fyrir ennþá um einkasölu á saltfiski, mun ég ekki fara frekar út í það mál nú, en geri það síðar, ef tilefni gefst.