23.03.1932
Neðri deild: 36. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1194 í B-deild Alþingistíðinda. (785)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Jón Auðunn Jónsson:

Hv. þm. Seyði. var venju fremur óheppinn í sinni síðustu ræðu. Það þarf miklu meira en meðaleinurð til að vera saman og tala samtímis um útflutning fiskjar og um Síldareinkasöluna, sem hefir gengið frámunalega illa. Hv. þm. hefði fremur átt að geyma sér hann samanburð, þangað til eitthvað væri farið af fyrnast yfir óhöpp Síldareinkasölunnar. Hv. þm. rengdi það. að Norðmenn hefðu fengið 10 kr. fyrir veiði sína hér við land að meðaltali pr. tunnu. Ég hefi ekki við hendina gögn um þetta. En í „Norsk Handels og Fiskeritidende“ er frá því sagt, að fyrst í sept. voru þeir búnir að selja 48 þús. tunnur af síld, saltaðri hér fyrir utan landhelgi, fyrir 24–26 kr. tunnuna. Jafngildir það, að þeir hafi fengið um 14 kr. íslenzkar fyrir síldina sjálfa, sem er um 80 kg. í tunnu.

Þá er það ekki rétt, að þeir eigi mikið óselt af Íslandsveiddri síld. En þeir eiga mikið óselt af síld, sem veidd hefir verið annarsstaðar. Ég hygg því, að varlega sé áætlað, þótt talið sé, að þeir hafi fengið 10 kr. fyrir innihald hverrar tunnu.

Þá fór hv. þm. að tala um milliríkjaverzlun og verzlun yfirleitt og minnast í því sambandi á skýrslu þá, sem skattstjórinn í Rvík hefir samið um verzlunarkostnað hér í Rvík. Sú skýrsla er að niðurstöðum til sú fáranlegasta, sem til hefir verið búin. Eftir skýrslunni þyrfti hver 5 manna fjölskylda hér í Rvík að hafa 15–18 þús. kr. tekjur til eyðslu árlega, ef skýrslan á að geta verið rétt. Ég hélt nú, að hv. þm., sem verið hefir kaupfélagsstj. hér í Rvík, ætti að vera kunnugur þessu. Hann hefir víst reynt að vinna vel fyrir sitt kaupfél. og það því átt að græða mikið, eða getað selt ódýrt. En ég hygg þó, að annað hafi orðið uppi, því á þessu kaupfél. mun hafa tapazt mikið fé. Það sýnir einmitt það, að verzlunin er heilbrigð, þegar kaupfélagsverzlun, sem er yfirleitt afbragðs „kontroll“ á kaupmannaverzlun, stenzt ekki samkeppnina. Ég vil þó alls ekki væna hv. þm. þess, að ráð hafi verið vegna þekkingarskorts, að þetta fór svona.

Hv. þm. vildi taka upp einkasölu á saltfiski. Vitanlega yrðu það sömu Lokaráðin og þegar einkasala var tekin á síld, nema þeim mun stórfengara, þar sem um stærri atvinnurekstur er að ræða.

Hér hefir, og ekki að ófyrirsynju, verið rætt um það tjón, sem orðið hefir af Síldareinkasölunni. En ekki má þó gleyma stærsta tjóninu, sem hún hefir valdið. Þótt tapazt hafi millj. kr. á þessu fargani, þá er þó stærsta tapið ókomið, og það er það, sem tapazt hefir af markaði fyrir síldina. Áður en Síldareinkasalan hóf starfsemi sína, áttum við markað fyrir 240–270 þús. tunnur í Svíþjóð. En hvernig er það nú? Markaðurinn hefir færzt saman frá ári til árs og nú er svo komið, að helmingur þess markaðar er glataður. Þetta er langstórfenglegasta tapið, sem við höfum orðið fyrir af völdum einkasölunnar, og það verður ekki talið nema í tugum millj. króna.