23.03.1932
Neðri deild: 36. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í B-deild Alþingistíðinda. (786)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Ólafur Thors:

Ég heyri, að hæstv. forseti ætlast til, að ég geri stutta aths. Líklega ætlar hann að láta mig gjalda flokksbræðra minna, sem fengið hafa að gera langa aths. En ég vona nú samt, að hæstv. forseti verði umburðarlyndur gagnvart mér sem öðrum.

Út af deilu okkar hæstv. forsrh. um það, hvort réttmætt sé að beina árás eða aths. að fyrrv. stj. Síldareinkasölunnar, þar sem hún er ekki hér til andsvara, vil ég endurtaka það, að hæstv. forsrh. er réttur aðili að svara fyrir þessa menn. Sem form. flokks síns ber hann ábyrgð á gerðum þeirra. Auk þess hefir hann sjálfur kveðið upp þyngsta áfellisdóm yfir þessum mönnum. Hann hefði ekki lagt niður Síldareinkasöluna, ef hann hefði ekki fordæmt starf þeirra.

Hv. þm. Seyðf. sagði, að það væri undarlegt af mér, sem teldi mig vera saklausan af því, að síldarmálin á Hesteyri hefðu reynzt of stór, að ég skyldi vilja hallmæla stj. eða form. Síldareinkasölunnar fyrir þau afglöp, er forstjórinn hefði gert. Ég var alls ekki að kenna formanni Síldareinkasölunnar um það, að samningur þessi var gerður, heldur var ég að ávíta það, að hann hefði neitað því, að hann hefði verið gerður. þetta er því allt út í loftið hjá hv. þm. og tóm markleysa. — Annars hné mestöll ræða hv. þm. að einkasölu á saltfiski. Vil ég nota tækifærið til að hafa yfir nokkur orð, er hv. þm. sagði, og bið hann leiðrétta, ef ég fer rangt með efni þeirra. Hv. þm. sagði, að mestöll saltfisksalan færi fram í gegnum tvö firmu og var annað þeirra Kveldúlfur, en að þó væri selt nægilega mikið utan þeirra til þess að það spillti verðinu á saltfiskmarkaðinum. Er þetta rétt eftir haft? (HG: Mjög nálægt hinu rétta). Þá vil ég biðja hv. þm. að lesa Alþýðublaðið; þar er þráfaldlega sagt, að ég sé að eyðileggja markaðinn með þeirri sölu, sem fram fer í gegnum það firma, sem ég vinn í. Fyrir þessa játningu á sannleikanum er ég hv. þm. þakklátur, og vil glaður nota tækifærið til að skjalfesta það í Alþt. — ég skal ekki ræða einkasölu á saltfiski að öðru leyti. Það væri til að reyna of mikið á þolinmæði hæstv. forseta.

Hv. þm. talaði um gjaldþrot einkasölunnar og dr6 fram eitt atr., sem hann taldi, að milda mundi ófarnað hennar, en það var, að Síldareinkasalan hefði greitt mikla skatta í ríkissjóð, svo að ef saman kæmi þá væri enginn halli. Það er gott að minnast þessara orða fyrir einkafirmu, sem verða gjaldþrota. Það yrði þá litið mildari augum á þau, ef það sannaðist, að þau hefðu greitt svo millj. kr. næmi í ríkissjóð á fáum árum. Ég vil festa þessi orð í Alþt. svo hægt sé að vitna í þau síðar, ef með þarf.