23.03.1932
Neðri deild: 36. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1197 í B-deild Alþingistíðinda. (787)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.):

Hæstv. forseti ætlar mér aðeins stutta aths., en ég held, að hann hljóti við nánari athugun að sjá það, að ég þarf að fá langa aths. Byrja ég þá ræðu mína og treysti á frjálslyndi hæstv. forseta. (Forseti: Aðeins stutt aths.! ). Ég vona, að hæstv. forseti láti mig njóta sömu náðar og aðra.

Ég vil þá fyrst víkja að hv. þm. G.-K. Honum er velkomið að vitna til minna orða svo oft sem hann vill. l:g vona bara, að hann fari þá rétt með þau. Hann endaði ræðu sína með því að minna á þau orð mín, að háir tollar hefðu verið greiddir af síld og vænti þess, að ef illa færi fyrir sér, þá yrði litið til þess, að hann hefði greitt háa tolla í ríkissjóð. — Það er nú ekkert nema gott við því að segja þótt hv. þm. fái opin augun fyrir því, að tollar eru ekki hentug leið til að afla ríkissjóðnum tekna. Hv. þm. hefir barizt með öllum tollafrv., sem fram hafa komið, nema hvað hann hefir viljað lækka tollinn á salti og kolum. Við jafnaðarmenn viljum hafa sem lægstan toll á allri nauðsynjavöru. Fyrirtækin standa verr að vígi að greiða skatta sína sem tolla heldur en að greiða þá af þeim afgangi, sem verður eftir, þegar búið er að greiða nauðsynlegan tilkostnað við þau. Eins á að láta einstaklinginn gjalda sína skatta af því, sem eftir verður, þegar brýnustu nauðsynjum er fullnægt. Mér er ánægja að því, að hv. þm. G.-K. skyldi árétta orð mín, og hætti mér vænt um, að hann gerði það sem oftast og rækilegast. Hv. þm. sagði, að ég hefði mælt á þann veg, að talsvert af fiski hefði verið fyrir utan verzlun þessara tveggja fisksölufélaga og notað til þess að undirbjóða og lækka fiskverðið. Vildi hv. þm. taka þetta sem traustsyfirlýsingu frá mér til þessara sölufélaga, en því miður fyrir hann er ekki hægt að skilja það svo. Það liggur í hlutarins eðli, að þegar aðeins er einn seljandi að sömu voru, stendur hann betur að vígi til að halda uppi verði vörunnar heldur en þegar fleiri eru um framboð og sölu vörunnar. í þessu efni gildir hið sama, hvort heldur duglegir verzlunarfulltrúar selja fyrir ríkiseinkasölu eða einkafyrirtæki.

Ég játaði, að söluverðið á fiskinum á Spáni mundi verða hið sama, hvort heldur ríkið eða Kveldúlfur hefði einkasölu á fiskinum. En þar með er ekki sagt, að íslenzku sjómennirnir fái sama verð fyrir fiskinn í báðum tilfellum. Ríkiseinkasala á saltfiski yrði rekin þannig, að sjómönnum yrði skilað öllu því verði, sem fengist fyrir fiskinn, að frádregnum kostnaði, en einkasala Kveldúlfs er rekin til þess að gefa félaginu sem mestan gróða, og er hann tekinn frá sjómönnunum, áður en þeim er skilað verðinu. — Þess vegna ættu sjómenn ekki að fela Kveldúlfi svölu á fiskinum, heldur stofna fiskisamlög, sem stæðu í sambandi við ríkiseinkasölu. (EA: Þá gæti það farið eins og um síldina). Já, það gæti farið eins og um síldina eða saltfisksöluna, eins og hún er nú rekin, ef henni væri eins og saltfisksölunni nú, stjórnað af mönnum, sem skara eld að sinni köku.

Út af því, sem hv. þm. G.-K. sagði um samanburð minn á samningnum við Brödrene Levi og síldarmálin á Hesteyri, skal ég endurtaka það, sem ég áður sagði. Hv. þm. játaði, að síldarmálin 5 Hesteyri hefðu, sér óafvitandi, verið smíðuð of stór, sömuleiðis er það upplýst, að samningarnir við Brodrene Levi voru gerðir í heimildarleysi og án vitundar útflutningsnefndar Síldareinkasölunnar; en sá er munurinn á þessu tvennu, að útflutningsnefnd ógilti samninginn, að ég held, eftir bendingu frá ríkisstj. en mér er ekki kunnugt um, að hv. þm. G.-K. hafi nokkuð gert til þess að lagfæra sviknu síldarmálin á Hesteyri, og stendur hann því óneitanlega að baki form. útflutningsnefndarinnar.

Hv. þm. N.-Ísf. sagði, að Norðmenn hefðu fengið 10–12 kr. jafnaðarverð fyrir tunnuna af síld veiddri við Ísland síðastl. ár. Hann gat þess ennfremur, að í „Norske Sjöfarts og Handelstidende“ hefði verið frá því skýrt, að snemma í seht. síðastl. hefði norskveidd Íslandssíld verið seld fyrir 24 norskar kr. tunnan, og svarar það til þess, að sjómenn fái 14 kr. fyrir tunnuna. En þó að fyrsta sala Norðmanna hafi jafnvel verið 24 kr. tunnan, þá sannar það vitanlega ekkert um meðalverðið á allri síld ársins. hér var aðeins um að ræða 48 þús. tunnur, en öll síldveiði Norðmanna hér við land er vitanlega margföld við það. Í febrúarbyrjun síðastl. áttu Norðmenn fleiri þús. tunnur af óseldri síld, og hafði komið til tals, að þeir seldu eitthvað af henni til Rússlands, en af því varð þó ekki. Ég tek það ekki trúanlegt, að Norðmenn hafi fengið 10–12 kr. fyrir tunnuna af Íslandsveiddri síld til jafnaðar, en einhversstaðar las ég það í blaði nýlega, að meðalverðið hefði verið 5–6 kr. fyrir tunnu.

Þá sagði hv. þm. N.-Ísf., að skýrsla skattstjórans um verzlunarkostnaðinn í Reykjavík væri fáranleg endileysa og að þar væri algerlega rangt skýrt frá um gróða kaupmannastéttarinnar, og að kaupfélag það, sem ég hafði eitt sinn veitt hér forstöðu, hefði ekki getað útrýmt kaupmönnunum. Ef ég man rétt, þá er gróði kaupmanna talinn samkv. skýrslunni tæpar 3 millj. kr., en kostnaðurinn við að reka verzlunina er talinn 10–11 millj. kr. fyrir utan gróða. Af hverju stafar þessi mikli verzlunarkostnaður? Blátt áfram af því að svo margir fast við verzlunarrekstur. Mér er vel kunnugt um, að álagning smásala á vörur hér í Rvík, til þess að standast kostnaðinn við verzlunina, mátti ekki vera minni en 22–23% á söluverð heildsalanna, og áður var álagning heildsalanna komin á vörurnar: Ég veit, að þessar upplýsingar eru mjög fróðlegar fyrir hæstv. forseta. (Forseti: Ég vil biðja hv. ræðumann að stytta mál sitt, þessi aths. er orðin allt of löng). Ég mun nú fara að stytta ræðu mína eftir föngum.

Hv. þm. Vestm. las hér upp úr gömlum Alþt. ræðubrot, líklega eftir sjálfan sig, og er það ekki mitt að svara því, en ég ætla, að það falli í hlut hv. 1. þm. S.-M., og álit ég, að sá heiðursmaður láti ekki standa upp á sig að svara þessu, ef ég þekki hann rétt.

Þá vék hv. þm. Vestm. að því í ræðu sinni, að Einar Olgeirsson hefði skrifað ritgerð í „Rétt um breyt. á Síldareinkasölulögunum, og að lagabreyt., sem þingið 1930 samþ., hefðu verði sniðnar eftir till. E. (O. (JJós: Þær voru alveg samkv. hans kröfum). En hv. þm. gleymdi alveg að geta um það, hvort þessar breyt., samkv. till. E. O., hefðu verið skynsamlegar eða ekki. (JJós: Hvaða afleiðingar hefir ríkisábyrgðin?). Það er tilgangslaust að stofna. til ríkiseinkasölu, ef henni er hvorki veitt starfsfé né ábyrgð. (Forseti: þessari aths. er lokið innan tveggja mín., hv. þm. verður að geyma til 2. umr. að svara því sem hann á eftir). Ég skal gera hæstv. forseta það kostaboð að ljúka ræðu minni á 5 mín. (Forseti: Ræumaður verður að bíða til 2. umr.). Stjórn Síldareinkasölunnar notaði ekki þá heimild, án láta einkasöluna taka síldarsöltunina í sínar hendur.

Hv. þm. talaði um, að þær skemmdir, sem urðu á síldinni síðastl. sumar, hefðu stafað af slæmu salti. En hv. þm. Ak. upplýsti, að þær hefðu stafað af óvenjulega miklum hitum á Norðurlandi í sumar. Ég vil spyrja hv. þm. Ak., hvort hann áliti, að hitinn hefði orðið minni, ef einkasalan hefði ekki verið til, eða hitt, að síldin hefði þá þolað betur hitann. Ég hygg, að verkun og söltun síldarinnar hefði ekki orðið betri hjá öðrum en hún var hjá einkasölunni.

Hv. þm. Vestm. vek réttilega að því ósamræmi, sem er á milli skýrslu form. útflutningsnefndar eða trúnaðarmanns stj., um efnahag Síldareinkasölunnar, og ráðstafanir ríkisstj. Ég vil nú vænta þess, að hæstv. forsrh. láti ekki farast fyrir að skýra frá því, í hverju ágreiningurinn er fólginn milli Böðvars Bjarkans, sem ekki áleit ástæðu til að afnema síldareinkasöluna, og hæstv. stj., sem þrátt fyrir ráðleggingar hans afnemur einkasöluna um leið og fulltrúar Alþýðufl. ná meiri hl. í stjórn hennar.

Að síðustu vil ég ítreka þá fyrirspurn, sem hv. 3. þm. Reykv. beindi til hæstv. forsrh., hvers vegna útflutningsnefndinni hefði ekki verið falið að gera upp þrotabú einkasölunnar heldur en að skipa til þess nefnd manna, sem á engan hátt voru færari til þess. — Ég þakka hæstv. forseta fyrir þessa aths. og vona, að ég fái aftur að taka til máls við þessa umr.