23.03.1932
Neðri deild: 36. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1205 í B-deild Alþingistíðinda. (790)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Guðbrandur Ísberg:

Ég benti á í síðustu ræðu minni, að skemmdir á saltaðri síld síðastl. sumar hefðu stafað af óvenju miklum hitum, sem gengu þá yfir Norðurland. nú hefir hv. þm. Vestm. upplýst, að skemmdirnar hafi einnig stafað af skemmdu og óhreinu salti. þetta getur vel verið, en skemmda saltið var ekki notað nema sumstaðar, þar sem brögð voru að þessum skemmdum síldarinnar. En skemmda saltið má óhikað skrifa á bak Síldareinkasölunnar, og þá um leið kenna henni um þær skemmdir, sem komu fram á síldinni vegna saltsins.

Hv. þm. Seyðf. spurði, hvort hitarnir, sem komið hefðu, væru ekki líka Síldareinkasölunni að kenna. Mig furðar nú reyndar, að hann skuli spyrja svo, því ég hefi a. m. k, aldrei heyrt, að náttúruviðburðir væru nokkrum sérstökum að kenna. En þó að hv. þm. Seyðf. láti sér sæma að bera fram slíkar spurningar, úr það ekki svo undarlegt þegar þess er gætt, að hann og aðrir „socialistar“ eru vanir að kenna skipulaginu um allt, sem aflaga fer — auðvaldsskipulaginu, sem þeir kalla svo — og ganga þeir þá kannske líka út frá, að jafnvel náttúruviðburðir séu þessu sama skipulagi að kenna.