13.04.1932
Neðri deild: 50. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1209 í B-deild Alþingistíðinda. (796)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég vil láta í ljós ánægju mína yfir því, að sjútvn. hefir einum rómi lagt til, að þetta frv. verði samþ. óbreytt. Um afskipti n. af málinu hefi ég svo ekki meira að segja, en út af ræðu hv. þm. Borgf. vil ég segja nokkur orð.

Hv. þm. beindi til stj. fyrirspurn út af reikningsfærslu og væntanlegum aðgerðum skilanefndarinnar, sem skipuð hefir verið vegna uppgjörsins á búi Síldareinkasölunnar. Hv. þm. gerði jafnframt ráð fyrir því, að ég mundi ekki vera því viðbúinn að svara þessu, enda er svo. Hinsvegar er sjálfsagt að taka þetta til athugunar fyrir 3. umr., og kysi ég helzt, að hv. þm. ritaði fyrirspurnir sínar niður á blað, svo að ég gæti komið þeim beint til n. Verða svör n. við fyrirspurnunum væntanlega komin, áður en málið verður tekið hér fyrir til 3. umr.

Þá talaði hv. þm. jafnframt um ýmsar ásakanir, sem fram hefðu komið á hendur stj. einkasölunnar, og spurðist hann fyrir um það, hverja afstöðu stj. hefði tekið gagnvart þessum ásökunum. ég minnist þess ekki, að neinar slíkar ásakanir hafi borizt til míns ráðuneytis, og þó að eitt og annað sé sagt í blaðagreinum, er ekki mark á því takandi. Ef ráðuneytinu bærust hinsvegar kærur í þessum efnum, t. d. frá manni úr skilanefndinni, verður slíkt að sjálfsögðu tekið til athugunar. Annars geri ég ráð fyrir, að þetta verði athugað jafnhliða því, sem skilanefndin skilar af sér, og þá litið yfir það í heild, hvernig rekstur þessa fyrirtækis hefir gengið. Ef því engar sérstakar kærur berast til ráðuneytisins í þessum efnum, verður um þetta beðið skýrslu skilanefndarinnar, en ef eitthvert sérstakt tilefni gefst til, eins og hv. þm. Borgf. virtist helzt gera ráð fyrir, verður það tekið til athugunar, þegar til kemur.