13.04.1932
Neðri deild: 50. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1212 í B-deild Alþingistíðinda. (798)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Sveinn Ólafsson:

Því miður var ég ekki við nema nokkurn hluta af ræðu hv. þm. Borgf., en ég heyrði hann þó tala um þessa einkennilegu reikninga, sem síldarútgerðarmönnum á Akranesi hefðu borizt frá Síldareinkasölunni, þar sem þeim virðist vera fært það til skuldar við einkasöluna, sem þeir hafa fengið borgað út á síldina. Fæ ég ekki skilið, að þetta geti stafað af öðru en ókunnugleika þeirra, sem að þessum reikningum standa, ef hér er þá ekki um hreinar misskriftir að ræða.

Að því er til kemur að fara nú að taka málið út af dagskrá til að athuga þetta, eins og hv. þm. Vestm. vék að, þá fæ ég ekki séð, að þetta megi ekki eins gera milli umr., þar sem þetta er ekki nema 2. umr. málsins, og þannig hægt að afla upplýsinga um það hjá skilanefndinni fyrir 3. umr., í hverju þessi misskilningur er fólginn. — ég hefi sjálfur fengið reikninga frá skilanefndinni vegna gamalla skipta við Síldareinkasöluna, þar sem talið er, að ég eigi inni hjá einkasölunni litla upphæð, sem ég vissi ekki um, að ég ætti, og á enda ekki. Það er því bersýnilegt, að eitthvert ólag hlýtur að vera á reikningsfærslunni. — Teldi ég rétt, að þessi umr. málsins yrði þó látin velta áfram engu að síður, því að eins og ég áður sagði, getur n. verið búin að afla sér upplýsinga um þessi atr. hjá skilanefndinni fyrir 3. umr., en þessi atr. voru ekki kunn orðin, þegar sjútvn. átti tal við form. skilanefndarinnar um þessi mál.