13.04.1932
Neðri deild: 50. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1212 í B-deild Alþingistíðinda. (799)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Pétur Ottesen:

Hv. 1. þm. S.-M. þykir reikningsfærsla skilanefndarinnar einkennileg, og verð ég að taka undir þetta eftir þær upplýsingar, sem hann hefir gefið um það, hvernig skilanefndin byggi að honum í samanburði við aðra. N. lætur aðra ekki hafa neitt innlegg, en útdeilir hv. 1. þm. S.-M. meiru en hann hafði búizt við að fá sjálfur. Verður því ekki neitað, að þetta er harla einkennilegt, og lítur helzt út fyrir, að skilanefndin ætli sér að greina á milli viðskiptamanna einkasölunnar, eins og sagt er, að greint sé á milli sauða og hafra á hinum síðasta og efsta degi. Væri þetta þá í framhaldi af því, hvernig sagt er, að slíkt hafi gengið í Síldareinkasölunni áður í tíð Einars Olgeirssonar, því að þá mun einum hafa verið greitt hærra en öðrum út á síldina. Að því er þessa reikninga snertir, þá hefi ég þá hér hjá mér og get lofað hv. 1. þm. S.-M að sjá þá, svo að hann geti gengið úr skugga um það, að rétt er það, sem ég hefi um þá sagt.

Ég hafði í minni fyrri ræðu beint því til hæstv. forsrh., hvort honum þætti ekki ástæða til að hefja rannsókn út af þeim alvarlegu ákærum, sem stj. einkasölunnar hefir verið borin, og hæstv. ráðh. svaraði því svo, að stj. mundi taka þetta til athugunar, ef henni bærust kærur í þessu efni. Út af þessu vil ég leyfa mér að gera þá fyrirspurn til hæstv. ráðh., hvort ekki verði látin fara fram lögreglurannsókn á þessu gjaldþrotafyrirtæki eins og lög standa til. Hæstv. ráðh. hefir sjálfur tekið bú einkasölunnar til skiptameðferðar sem hvers annars gjaldþrota fyrirtækis með því að gefa út þau bráðabirgðalög, sem hér er farið fram á, að þingið samþ., og verður maður að gera ráð fyrir, að hæstv. ráðh. uppfylli hin skýru fyrirmæli laganna um gjaldþrotaskipti og láti fara fram lögreglurannsókn í sambandi við þessi búskipti. Er engin ástæða til að skjóta sér undan þessu, þó að þetta fyrirtæki eigi í hlut, nema síður sé, og enda lögskylda að láta slíka rannsókn fram fara.