13.04.1932
Neðri deild: 50. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1215 í B-deild Alþingistíðinda. (801)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

[óyfirl.]: Mér skildist hv. þm. Seyðf. skjóta spurningu til mín út af þeirri athugun, sem gerð var á síldarmálunum á Hesteyri. Ég ætla ekki að fara langt út í það mál hér, en ég vil geta þess, sem allir vita, að það kom fram ósk frá sjómönnum, sem skiptu við verksmiðjuna, að kerin væru mæld. Það var svo gert, og þá kom í ljós, að öll kerin voru dálítið of stór, en þó mismunandi. Nú hefir þetta mál verið hjá þeim manni, sem rannsóknina framkvæmdi, og hann hefir fyrir skömmu sent dómsmrn. skýrslu um það, sem hann nú hefir gert. Málið liggur nú hjá lögfræðingum til athugunar um það, hvað gera beri framvegis, en um það hefir ekki verið ákveðið ennþá. En það leiðir af sjálfu sér, að hvaða stj., sem verður í sumar, hlýtur að gera gangskör að því, að kerin á Hesteyri verði löggilt eins og annarstaðar. Ég get varla hugsað mér, þar sem komið hafa í ljós verulegar misfellur á þessum stað, annað en að hver stj. láti á hverjum tíma sem er hafa sérstakar gætur á þeirri einu verksmiðju, sem notar ker og sem, að því er virðist af meðferð málsins hér á þingi, leggur mikla áherzlu á að halda áfram að nota ker, en ekki vigtir. Ég vil skjóta þeirri bendingu til hv. þm. Seyðf., að langmesta fjárhagsþýðingin í sambandi við þetta mál er hjá heim, sem selt hafa verksmiðjunni. Ég hygg, að þar sem hv. þm. Ísaf. talað um, að fyrirtæki á Ísafirði hefðu mikla kröfu á verksmiðjuna, að þær kröfur að því leyti, sem þær eru réttmætar kæmu sennilega sem skaðabótakröfur, sem gætu endað í skaðabótamáli frá þeim, sem selt hafa verksmiðjunni síld í sumar og á undanförnum árum.