13.04.1932
Neðri deild: 50. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1215 í B-deild Alþingistíðinda. (802)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Guðbrandur Ísberg:

Ég á erfitt með að trúa því, að skilanefndin hafi ákveðið að innheimta aftur þær 2 kr., sem hún greiddi útgerðarmönnum og sjómönnum í sumar. Það var vitanlega stj. einkasölunnar, sem greiddi þessa peninga, og menn tóku við greiðslunni í góðri trú. En hitt er annað mál, að vegna þess, að stj. einkasölunnar greiddi þetta fé í lagaleysi á undan öðrum greiðslum, sem henni bar að greiða fyrr, þá er eftir atvikum hægt að heimta þetta fé af stj. einkasölunnar. En að heimta það af sjómönnum og útgerðarmönnum, getur vitanlega ekki náð nokkurri átt. Stj. einkasölunnar ber ábyrgð á þessari greiðslu, sem menn tóku á móti í góðri trú. Ég geri nú ráð fyrir, að hér sé um misskilning að ræða, og að skilanefnd hafi aldrei látið sér detta þessi firra í hug. En samt sem áður er rétt að athuga þetta. ég vil því styðja þá till., sem hér hefir komið fram, að málið verði tekið út af dagskrá. Það hefir nú gengið gegnum Ed., svo það ætti að vera nógur tími til þess að málið gæti fengið afgreiðslu alþinginu, þó það verði tekið út af dagskrá nú.