13.04.1932
Neðri deild: 50. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í B-deild Alþingistíðinda. (804)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Pétur Ottesen:

Ég vil segja hv. þm. Barð., að það kemur honum ekkert við, hvaða málum ég hreyfi á þingi. Ef hann sæti í forsetastól, bæri honum að gæta þess, að ég færi ekki út fyrir þingsköp. Að hann skuli vera að sletta sér fram í, hvaða málum ég hreyfi á þingi, er bara barnaskapur, sem getur ekki skrifazt á annan reikning en unggæðisskapar hv. þm. Auk þess snerti þetta, sem ég hreyfði, Síldareinkasöluna, og sá eini rétti vettvangur, sem ég hefi til að gera það, er einmitt hér á þingi í sambandi við þetta mal. þetta er því bara fljótfærni af hv. þm. og mér þykir gott, að mér gafst tækifæri til að gefa honum hæfilega áminningu, því það getur komið honum til góða síðar. Að öðru leyti skal ég ekki fara út í þetta. Ég sé ekki ástæðu til að taka málið út af dagskrá, en hinsvegar tel ég rétt, að n. athugi þessi greiðsluatr. í sambandi við þetta mál, en það má gera fyrir 3. umr.