22.04.1932
Efri deild: 57. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í B-deild Alþingistíðinda. (820)

14. mál, útflutningur hrossa

Frsm. (Páll Hermannsson):

Frv: þetta hefir legið lengi hjá landbn. Dráttur sá, sem orðið hefir á afgreiðslu þess, stafar af ýmsu. N. vildi gera sér sem ljósast grein fyrir till. þeim, sem hún gerði í málinu; leitaði hún því uppplýsinga hjá ýmsum mönnum, er hún taldi kunnugasta í þessum efnum. Till. þær, er henni bárust, voru mjög á ýmsan veg. Af þeim mönnum, sem hún leitaði til, má nefna: dýralækninn í Rvík, ráðunaut Búnaðarfél. Íslands í hrossarækt og forstjóra útflutningsdeildar S: Í. S. Þó að till. þessara manna bæri ekki saman í öllu, þá kom samt mjög skýrt fram í þeim, að tillögumenn höfðu komið auga á þá staðreynd, að markaður fyrir íslenzk hross væri alltaf að þverra og væri nú orðinn sáralítill. Það var líka ljóst, að menn þessir höfðu litla von um, að hægt yrði að vinna nýjan markað fyrir hrossin undir því fyrirkomulagi, sem nú er og verið hefir á hrossasölunni. Fyrir því vildi n. með till. sínum beina málinu inn á þá braut, að framvegis yrði vandað betur til þeirra hrossa, sem flutt væru út úr landinu, bæði að því er gæði og útlit snertir — í einu orði sagt, hrossin gerð betri markaðsvara. Ennfremur vildi n. stuðla að því, að erlendir kaupendur fengju meiri tryggingu um gæði vörunnar en áður hefir átt sér stað. Í þessa átt stefna brtt. þær, sem n. hefir gert við frv.

Einn nm. hefir skrifað undir nál. með fyrirvara, sem ég hygg, að gildi aðeins um eitt ákvæði frv., en að öðru leyti mun hann vera okkur hinum sammala. Ég býst við, að sá hv. þm. geri grein fyrir, í hverju þessi fyrirvari er fólginn.

Brtt. okkar eru allar ljósar og auðskildar. Brtt. við 1. gr. gengur í þá átt að koma í veg fyrir, að flutt verði á erlendan markað yngri hross en 3 vetra gömul, en eins og þetta er orðað í frv., getur verið um það það að ræða að flytja út 2 vetra hross. Er þetta gert sakir þess, að 3 vetra hross eru þroskameiri en 2 vetra, og því notþarfari vara þegar kemur til annara landa.

Önnur brtt. n. er ný gr. sem bæta á inn í frv., er mælir fyrir um það, á hvaða tíma árs skuli heimilt að flytja út hross og á hvaða tíma það skuli óheimilt. Samkv. þeirri gr. er gengið út frá því sem aðalvenju, að hross megi ekki flytja út á erlendan markað á tímabilinu frá 1. okt. til 1. júní ár hvert. Þó er gert ráð fyrir, að á tímabilinu frá 1. marz til 1. júní, megi með sérstöku leyfi atvmrh. flytja út innigefin vel feit hross, og ætlast n. til, að þau séu í það góðu ásigkomulagi, að taka megi þau til notkunar strax og þau koma út.

Þá er 3. brtt. um það, hvernig skuli haga skrásetningu og merkingu þeirra hrossa, sem út eru flutt. Er ætlazt til, að það verði gert nánar en áður, og hefir n. hugsað sér, að það verði gert þannig, að samin verði skrá yfir hrossin í áframhaldandi töluröð, og samtímis fest við hvert hross spjald, þar sem tilgreint er skrásetningartala þess, kynferði, aldur, litur og hæð. Geta þær upplýsingar orðið til tryggingar fyrir kaupandann. — 4. brtt. er aðeins afleiðing af hinni nýju gr.

Fimmta brtt. fjallar um þá galla og þau lýti, sem ekki mega vera á hrossum, sem útflutningur er leyfður á. Eru þar sett gleggri ákvæði um þá hluti en verið hafa áður.

Sjöunda brtt. er um það, að hækka sektarákvæðin fyrir brot gegn lögunum. frv. eru sektarákvæðin frá 50–1000 kr. En n. leit svo á, að brot gegn slíkum lögum sem þessum gætu verð þess eðlis, að 1000 kr. sektarhámark væri allt of lagt, ef t. d. um þá væri að ræða, að heilir skipsfarmar yrðu verðlausir eða verðlitlir vegna vanrækslu gagnvart lögum þessum. Hún leggur því til, að hámarkið verði fært upp í 3000 kr.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta nú og legg til, fyrir hönd landbn., að brtt. og frv. verði samþ.