25.04.1932
Efri deild: 59. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1235 í B-deild Alþingistíðinda. (826)

14. mál, útflutningur hrossa

Jón Jónsson:

Mér fannst hv. frsm. ekki fara svo hörðum höndum um 1. brtt. mína, að það gæti ekki komið til mála, að hann gæti gengið inn á hana. Það yrði hér auðvitað ekki neina um einstaka undanþágu að ræða, enda er til ætlazt, að áður hafi verið settar reglur um meðferð hrossanna, bæði rekstur og annað, svo það ætti að vera tryggt, að þeim yrði ekki misboðið.

En hv. frsm. leit hornauga til 2. og 3. brtt. minnar og sagði, að þær kæmu í veg fyrir þá viðleitni, sem hafin væri með frv. til að vinna bættan markað fyrir íslenzk hross erlendis. Ég held, að ákvæði 3. gr. frv. muni nú stuðla lítið að því í flestum tilfellum, það eru ákvæði 5. gr., sem ætlað er að stuðla að því, og ég hefi ekki gert neinar brtt. við 5. gr. Og hinsvegar er gert ráð fyrir því í brtt mínum, að ef útflytjanda þykja líkur til, að skoðun, mæling og merking hafi áhrif á söluverðið, þá sé dýralæknir skyldur til að framkvæma það. Mér finnst því nógu tryggilega búið um það atriði með því að hafa þessi ákvæði í frv.