25.04.1932
Efri deild: 59. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1236 í B-deild Alþingistíðinda. (827)

14. mál, útflutningur hrossa

Pétur Magnússon:

Ég vildi gera stutta aths. út af ræðu hv. 3. landsk. Fyrst vil ég þó geta þess, að ég er sammala öllu því, sem hv. frsm. sagði um frv., enda hefir n. yfirleitt fylgzt að og litið borið á milli í þessu máli. En svo vil ég bæta því við, að ég tel það óheppilegt, sem lagt er til í brtt. hv. 3. landsk., að það skuli vera komið undir áliti útflytjandans, hvort gera skuli þá skrá, sem gert er ráð fyrir í 3. gr., að eigi að fylgja útflutningshrossum. Þau nánari ákvæði sem sett eru um skoðun í frv., eiga að tryggja það, að kaupendur erlendis viti betur en ella myndi, að þau skilyrði séu fyrir hendi, sem hrossin samkv. samningi eiga að uppfylla. Þetta er gert til þess, að kaupandinn þurfi ekki að kaupa hrossin í blindni, heldur geti treyst því an nánari skoðunar, að þau svari þeim kröfum, sem til þeirra eru gerðar. En það gæti verið, að útflytjandi, sem hefði glæpzt á því að kaupa léleg hross, vildi dylja það, til þess að bíða ekki tjón við það, ef hrossin svara ekki þeim skilyrðum, sem kaupendur erlendis gera. Þess vegna stuðlar þetta að því að vinna upp hrossamarkaðinn úti, og ef á að gera þá kröfu, að ekki séu flutt út nema vinnufær hross, þá er það óheppilegt að láta útflytjendurna einráða um það, hver hross megi flytja út. Ég vil því taka undir það, sem hv. frsm. sagði, að það sé mjög óheppilegt, ef þessi till. verður samþ.

Hitt atriðið, hvort undanþágu er hægt að veita um að flytja út 2 vetra hross, álit ég, eins og hv. frsm., miklu minna um vert, en hygg þó, að það yrði lakara að veita heimild til þess, svo framarlega sem hún yrði notuð.