18.02.1932
Efri deild: 4. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1241 í B-deild Alþingistíðinda. (843)

17. mál, bygging fyrir Háskóla Íslands

Dómsmrh. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

þetta frv. hefir legið tvisvar fyrir hv. d. og tvisvar verið samþ., að kalla má með samþykki allra. Að vísu hafa komið tveir nýir þm. í hv. d. við síðustu kosningar, en slíkt ætti ekki að hafa nein áhrif á afstöðu deildarinnar, þar sem frv. er borið fram næstum því alveg óbreytt. Ein smábreyt. hefir þó verið gerð á frv., og hún er sú, að í 1. gr. eru ákveðnar 600 þús. kr. til háskólabyggingarinnar, annaðhvort eftir því sem fé er fyrir hendi eða með lánsheimild. þetta um lánsheimildina hefir nú verið fellt niður, enda skiptir það ekki máli, þar sem þingið getur hvort sem er veitt slíka heimild er því sýnist. Það hefir verið sýnt nægilega fram á það í grg. frv., að æskilegt sé, að það verði að lögum, þótt ekki sé líklegt, að ríkissjóður leggi í þessar né aðrar stórframkvæmdir eins og nú árar. Fyrst þegar frv. þetta er orðið að lögum reynir á, hvort Rvík vill láta af höndum spildu þá vestan við skemmtigarðinn, sem komið hefir til greina handa háskólanum. Þar með væri staðurinn ákveðinn, og við það væri mikið unnið, ekki sízt vegna stúdentagarðsins, sem bíður eftir því, að háskólanum sé valinn staður. En þar er töluvert fé fyrir hendi, sem kunnugt er. Auk þess þarf þetta nokkurra ára undirbúning af hendi háskólans sjálfs, og er því að öllu leyti æskilegt, að mál þetta nái sem fyrst fram að ganga.