29.03.1932
Efri deild: 37. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1242 í B-deild Alþingistíðinda. (845)

17. mál, bygging fyrir Háskóla Íslands

Frsm. meiri hl. (Jón Jónsson):

Þetta mál hefir legið tvisvar fyrir hv. d. áður og er því gamalkunnugt, svo að ég þarf ekki að fara um það mörgum orðum. Tilgangur frv. er vitanlega sá, að stuðla að því, að háskólinn fái betra húsnæði heldur en hann hefir nú, og því er auðvitað ekki hægt að neita, að mjög æskilegt væri, að hann gæti fengið það sem fyrst. Hinsvegar er ekki gert ráð fyrir í frv., að ráðizt verði í húsbyggingu fyrir háskólann þegar í stað, heldur mun hugmyndin vera sú, að binda hendur komandi þinga til þess að leggja fram fé til byggingarinnar. Það getur verið þörf á því í einstöku tilfellum að ákveða fyrirfram, að fjárveitingarvaldið skuli leggja fram fé til þessa eða hins á komandi árum, sérstaklega þegar um er að ræða stuðning til atvinnuveganna, eða hvatning til þeirra um framkvæmdir (jarðabótastyrkur), sem kemur til með að bera arð, en þó held ég, að búið sé að gera of mikið að því að binda þannig tekjur ríkissjóðs.. A. m. k. tel ég ástæðu til, áður en farið er lengra í því efni, að athuga vandlega hvort brýn nauðsyn er á því í hverju einstöku tilfelli. Ég fyrir mitt leyti get ekki séð nauðsyn á því að binda hendur komandi þinga með lögum um það, hvenær skuli veita fé til háskólabyggingar. mér finnst nægur tími til að taka ákvörðun í því efni þegar fært þykir fjárhagsins vegna að ráðast í framkvæmdir.

Það sem sérstaklega kemur mér til þess að vera mótfallinn því nú, að fjárveitingarvaldið sé nokkuð bundið með sérstökum lögum, eru þó þeir ægilegu tímar, sem nú standa yfir og við sjáum enn ekki fram úr. Það eitt er næg ástæða til þess að fara varlega hvað snertir ákvarðanir fram í tímann. Aftur má segja, að gott sé að málinu sé haldið vakandi og unnið að undirbúningi þess, því einhverntíma kemur að því, að ráðizt verður í háskólabyggingu. Sérstaklega er það eitt atriði í undirbúningi málsins, sem er mikilsvert, og það er, að háskólanum sé tryggður staður, sem hentugur er fyrir væntanlegar byggingar hans. Það kom fram í n., sem mál þetta hafði til meðferðar á þingi 1930, að tekið var líklega í það af borgarstjóranum hér, að Rvík legði fram land handa háskólanum, þó ekkert bindandi loforð væri gefið í þá átt. Nú væri vitanlega æskilegt, að betur væri frá þessu gengið og leitað eftir ákveðnu tilboði frá Rvík. Fengist það, mundi það mjög flytja fyrir því, að í byggingu yrði ráðizt, hvenær sem hagur ríkissjóðs leyfir. En eins og nú standa sakir, er óheppilegt, að þingið bindi sig til að leggja fram fé á tilteknum tíma. Út af öllu þessu hefir meiri hl. n. komizt að þeirri niðurstöðu að leggja til, að frv. verði afgreitt með rokstuddri dagskrá, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

Í því trausti, að ríkisstjórnin leiti hjá bæjarstjórn Reykjavíkur ákveðinna tilboða um land á hentugum stað til handa háskólanum og leggi árangurinn af þeirri málaleitun fyrir næsta Alþingi, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.

Sé ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar, fyrr en þá að andmæli eru fram komin.