29.03.1932
Efri deild: 37. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1244 í B-deild Alþingistíðinda. (847)

17. mál, bygging fyrir Háskóla Íslands

Dómsmrh. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

Ég verð að segja, að mér voru það nokkur vonbrigði, að hv. meiri hl. n. tók þá afstöðu til þessa frv., sem hann hefir gert, með því að áður hefir verið gott samkomulag um málið hér í hv. Ed. og hún hefir samþ. það fyrir sitt leyti á tveim þingum, þó það hafi ekki orðið útrætt í hv. Nd. Ég ætla því að fara nokkrum orðum um frv. nú frá mínu sjónarmiði, þó það hafi nokkuð verið rætt áður.

Upphaflega hugmyndin að því að leysa þetta mál á þann veg, sem hér er gert ráð fyrir, var sú, að með frv. væri gerð áætlun, bundin við sæmilega langan tíma, og sem stillt væri í hóf hvað snertir dýrleika og stærð fyrirhugaðrar byggingar. nú hefir frv. og meðferð þess í þinginu beint málinu inn á nýja braut, aðra heldur en áður var tilætlunin að fara. áður var nefnilega gert ráð fyrir að byggja yfir háskólann inni í bænum. Honum var ætluð mjög takmörkuð lóð uppi við Skólavörðu, þar sem ekki hefði verið hægt að bæta neitt verulega við byggingar hans í framtíðinni. Nú hefir háskólaráðið og leiðandi menn bæjarins fallzt á, að heppilegra væri að gera ráð fyrir, að háskólinn okkar verði lengi að vaxa og miða fyrstu byggingu hans við þarfir líðandi stundar, en tryggja honum þegar nægilegt landrými til frambúðar. Vinsældir þessarar hugmyndar urðu til þess, að stúdentagarðsnefndin hætti við að byrja á byggingu stúdentagarðsins uppi við Skólavörðu, þar sem hann átti að standa rétt við hliðina á væntanlegri háskólabyggingu. Það var þó dálítið óþægilegt, því búið var að leggja í kostnað við undirbúning á lóðinni, kostnað, sem ekki er hægt að búast við, að fáist aftur greiddur, því ekki er vist, að sá undirbúningur komi þeim byggingum öðrum að notum, sem þarna verða byggðar í framtíðinni. Nú má vera, að dregizt hefði að byggja stúdentagarðinn hvort sem var, vegna yfirstandandi fjárhagsörðugleika, en á hinn bóginn er mesta horf á, að sú stofnun komist sem fyrst á fót. Og stúdentagarðsnefndin hefir þegar talsvert fé til umráða, svo hún gæti látið byrja á framkvæmdum, ef hallazt væri að því ákveðið að byggja ekki eina stóra byggingu, heldur fleiri smábyggingar. Það, sem nú stendur á, er því að fá ákveðinn stað fyrir háskólann. Áður en það er gert getur n. ekki aðhafzt meira en hún er búin. Það var því vel hægt að hugsa sér gang málsins á hann hátt, að frv. yrði samþ. eins og það liggur fyrir, síðan væri gengið frá lóðarsamningi við bæinn og svo liði eitthvað af árum þangað til hægt yrði að hefja framkvæmdir, en rannsókn viðvíkjandi háskólabyggingunum væri haldið áfram og fyrsta byggingin yrði stúdentagarðurinn. Með því að samþ. dagskrá hv. meiri hl. n. væri málinu skotið á frest. Meira að segja er ég hræddur um, að ekki yrði eins auðvelt að fá samkomulag við bæjarstj. á þeim grundvelli. Ríkisstj. yrði þá að leitast við að fá bæjarstj. til að binda sig til að leggja fram töluvert land, an þess að Alþingi hafi sýnt nokkra viðleitni eða tekið aðra ákvörðun um málið en að spyrja bæinn, hvað hann vilji leggja fram. Bæjarstj. hefir tekið mjög vel þetta mál. Borgarstjóri hefir látið orð falla í þá átt, að bærinn mundi jafnvel fús til að leggja fram stærra land heldur en farið er fram á í frv., því svo hagar til, að landspildan, sem um er að ræða, er stærri heldur en tiltekið er hér. Þetta efast ég um, að hv. meiri hl. n. hafi verið ljóst, og segi ég það ekki honum til lasts. Að samþ. dagskrá hans væri sama og að svæfa málið, a. m. k. á þessu þingi. Og það tel ég ekki allskostar kurteist gagnvart Reykjavíkurbæ, sem eðlilega á oft í erjum við þing og stjórn út af sínum hagsmunamálum, en hefir sýnt sérstaklega mikla víðsýni í þessu máli.

Þá er annar liður þessa máls, nefnilega sjálfur undirbúningurinn. Ég álít sjálfsagt, að þessi ár, sem ekki er hægt að byrja á verkinu, verði gerður eins mikill og góður undirbúningur og hægt er. Það er mjög áríðandi fyrir alla framkvæmd málsins að ákveða nú þegar, hvernig byggingunni skuli háttað, eða a. m. k. hugsa sér heildarskipulagið, hvar aðalbygging háskólans á að koma, og hvar t. d. stúdentagarðurinn kæmi þar við. Ég geri að vísu ráð fyrir, að hvað gott plan sem gert væri að þessu nú, mundi verða breytt í ýmsum atriðum þegar til framkvæmda kæmi, en engin drög hafa verið gerð að slíku plani enn. Reynslan hefir sýnt það erlendis, að slíkar stórbyggingar þurfa langan og mikinn undirbúning.

Í fyrra hafði ég tækifæri til þess að kynna mér þetta, bæði í Danmörku og Svíþjóð. Í Árósum er þessu svo fyrir komið, að bærinn leggur til stórt, samfellt land í útjaðri borgarinnar, og svo hefir farið fram samkeppni milli húsameistara um niðurskipun landsins og fyrirkomulag bygginganna, löngu áður en byrja átti á mannvirkinu. Svíþjóð er fyrirkomulagið með háskólann í Stokkhólmi, sem er mjög vel búið að og er alltaf að færa út kvíarnar. Yfirleitt þurfa slík mál langan tíma til undirbúnings, ef á að takast að leysa þau vel af hendi. — Ástæðan til þess, að ég miða tímann við 1940 er sú, að þar sem allir flokkar virðast telja það sjálfsagt, að um það leyti taki land okkar alla stjórn sinna mála til sín, tel ég það ekki vansalaust, að eini háskólinn í landinu skuli ekki eiga þak yfir höfuðið fyrir þann tíma. Og ég tel það metnaðarmál fyrir þjóðina, að leysa þetta mál eftir því sem kringumstæðurnar leyfa, einmitt á þessu árabili. Og ég geri ráð fyrir því, að meiri hl. hv. þm. sé þessu samþykkur og láti ekki yfirstandandi erfiðleika vaxa sér svo í augum, að þeir leiðist til þess að slá máli þessu á frest. Þetta frv. er líka frekar samið sem áætlun en bindandi löggjöf, þar sem það er tekið fram í frv., að verkið skuli framkvæmt eftir því, sem fé er veitt í fjárlögum. Þetta ætti að nægja til þess að þagga niður ótta þeirra manna, sem héldu, að yrði lagt út í þann stóra kostnað, sem af þessum framkvæmdum leiðir, einhverntíma þegar verst gegndi fyrir ríkissjóð. Þótt erfiðleikarnir séu miklir, þá má þó ekki nota þá sem ástæðu til þess að slá á frest undirbúningi mála, sem fyrr eða síðar verða að fá viðunandi afgreiðslu. Gott dæmi um þetta er bygging landsspítalans. Hefði ekki verið farið að hreyfa við því máli fyrr en 1925, þegar byrjað var á byggingunni, hefði verið óhugsandi, að þá hefði nokkuð verið hægt að framkvæma. Nei, slík mál þurfa margra ára nákvæman undirbúning. — Ég mun greiða atkv. með brtt. hv. minni hl. n., því að hún tekur skynsamlegt tillit til yfirstandandi erfiðleika, án þess að breyta meðferð málsins svo, að það verði að fresta því um óákveðinn tíma.