29.03.1932
Efri deild: 37. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1249 í B-deild Alþingistíðinda. (849)

17. mál, bygging fyrir Háskóla Íslands

Frsm. minni hl. (Páll Hermannsson):

Hv. frsm. meiri hl. hafði það eftir mér, að nú væru allar sömu ástæður til þess að samþ. þetta frv. og áður, en samt væri ég að „gjóta hornauga“ til kreppunnar. ég sagði, að allar sömu ástæður væru fyrir hendi nú að samþ. þetta frv. og áður, að undanskildum fjárhagsörðugleikunum. Og það stend ég við, að ég álit það skyldu okkar að koma hóskólanum í sæmileg húsakynni undir eins og fjárhagur leyfir. En ég bar brtt. mína einmitt fram af því, að ég var mér fyllilega meðvitandi um það vandræðaástand, sem er afleiðing kreppunnar. En ég get ekki betur séð en að hv. frsm. meiri hl. „gjóti hornauga“ til þarfa háskólans, þar sem hann vill, als eftir eitt ár liggi fyrir fullgerður samningur um landnæði og annan undirbúning fyrir bygginguna, en vitanlegt er, að slík mál þurfa rækilegan undirbúning. Ég hefi sjálfur enga sérstaka ástæðu til þess að bera fyrir brjósti háskólabyggingu, en mér finnst, að það æti að vera öllum metnaðarmál að láta Háskóla Íslands ekki búa við verri húsakost en flestar aðrar menntastofnanir landsins. Og verði þetta frv. ekki samþ., þá fara að minnka þær vonir, sem menn hafa gert sér um það, að bætt verði úr þessari þörf æðstu menntastofnunar landsins af núv. kynslóð. Og ég vona, að álit hv. d. á þessu frv. hafi ekki breytzt þrátt fyrir þau mannaskipti, sem orðið hafa í henni á síðasta ári, og að hún vilji hjálpa þessu máli áfram til góðrar afgreiðslu.