09.04.1932
Neðri deild: 47. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í B-deild Alþingistíðinda. (86)

1. mál, fjárlög 1933

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég hefi engan eignarrétt talið mér á jafnaðarmönnum, en ég vil þó, að þeir taki tillit til hins sameiginlega ástands, en ef þeir geta ekki lotið öðrum skilyrðum en að allt fari eftir þeirra höfði, þá vantar alveg skýringuna á því, hvernig þeir gátu stutt Framsóknarstjórn í svo sem þrjú ár. En skýringin er sú, að flokkar, sem ekki hafa meiri hluta, verða með ýmsu móti að semja um annað en það, sem þeir helzt vilja, og það er það, sem ég ráðlegg jafnaðarmönnum, til þess að fá sem bezta útkomu, en vera ekki eins harðir í kröfunum, eins og þeir hér hafa látið í ljós.