26.04.1932
Neðri deild: 60. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1276 í B-deild Alþingistíðinda. (874)

17. mál, bygging fyrir Háskóla Íslands

Dómsmrh. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

Það eru nokkur smáatriði í ræðu hv. 2. Skagf., sem ég þarf að athuga.

Hann heldur því fram, að með 1. gr. frv. sé alls ekkert sagt; það sé enginn ávinningur fyrir háskólann, þótt hún verði samþ. En það er á misskilningi byggt. Verði frv. samþ., þá er fyrst mögulegt að fara að semja við bæinn um lóð undir háskóla og stúdentagarð; en stúdentagarðurinn svífur nú í lausu lofti, af því að óráðið er um lóðina, og stúdentar geta ekki farið að byggja hann fyrr en ráðið er fram úr lóðarmálinu. Í öðru lagi verður þá hægt að fara að vinna að teikningu hússins. En það er ekki hægt fyrr en þingið hefir lýst yfir því, hvað miklu fé það vill verja til þess. Allir þeir, sem að háskólanum standa, viðurkenna, að þetta er nokkurs virði.

Hv. þm. taldi ekki rétt að binda þingið með þessu, við gætum verið farnir burtu út veröldinni þegar til framkvæmdanna kæmi. En auðvitað er þetta mál alveg ópersónulegt, og það kemur maður í manns stað. Það er verið að undirbúa stórt framtíðarmál, mál, sem ekki aðeins nær til hinna næstu 6–8 ára, heldur varir um margar aldir.

Það er misskilningur, sem hv. þm. sagði um stofnkostnað Litla-Hrauns. Hann taldi þar með líka nokkuð af starfskostnaði hælisins. (MG: Þetta er rangt). Hv. þm. veit t. d., að það, sem unnið hefir verið að húsinu af öngunum sjálfum, er bókfært hærra en sannvirði, vegna þess, að föngunum er reiknað hærra kaup en þeir vinna fyrir.

Hv. þm. telur það í einu einskisvirði fyrir háskólann að fá þessi lög og þau þó bindandi fyrir þingið; ekki lagalega bindandi, heldur sem áætlun eins og vegalög, bráalög og lögin um vita. Hv. 1. þm. N.-M. finnur, að þetta getur ekki farið saman. Hann viðurkennir, að hann flytji sínar brtt. vegna þess að hann vilji ekki fara svo langt sem frv.

Það er misskilningur, að stj. geti beðið bæinn um lóð undir byggingu, sem þingið kærir sig e. t. v. ekki um að reisa. Forráðamenn bæjarins hafa sagt, að það mætti að vísu tala um að láta þessa lóð til háskólans, en þeir ætluðu sér ekki að afhenda hana af neinni léttuð. Þeir vildu fá vissu fyrir, að háskólinn yrði reistur þar, en lóðin ekki seld eða leigið til annara nota. Það er yfirleitt ekki hægt að fara fram á, að bærinn afhendi þessa miklu og dýru lóð út í bláinn, þótt hann auðvitað geti gert það.

Viðvíkjandi útbúnaðinum á núverandi húsnæði háskólans hér niðri, þá býst ég við, að hv. þm. sé svo kunnugur því, að hann geti ekki áfellt stj. fyrir að leggja ekki út í viðgerð á því án fjárlagaheimildar. Hér niðri er yfirleitt svo búið að háskólanum, að það er ekki leggjandi út í miklar viðgerðir. Það er að tjalda til einnar nætur.