10.03.1932
Efri deild: 25. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1292 í B-deild Alþingistíðinda. (893)

21. mál, geðveikrahæli

Frsm. (Jón Jónsson):

N. hefir nokkuð rætt þetta, en enga ákvörðun tekið viðvíkjandi daggjöldum. Það er erfitt um það að segja, en ég býst við, að þetta komi nokkuð til athugunar í sambandi við breyt. á fátækral., því að flestir af þessum sjúklingum, a. m. k. þeir, sem liggja þarna til langframa, eru þurfamenn sveitar- eða bæjarfélaga. N. telur það líka sanngjarnt, að þeir, sem þarna eru langvistum, greiði eftir lægri taxta en þeir, sem þar eru aðeins um stundarsakir. Um hitt ákveður n. ekkert nú, hversu há gjöldin skuli vera, og virðist ekki skipta miklu máli að ákveða það, fyrr en séð er, hvernig fátækralögin taka á þessum hlutum, því að þeir, sem hér ræðir helzt um, eru aðallega þurfamenn.

Ég hefi þá ekki fleira að segja fyrir hönd n., en við göngum út frá því, að þegar daggjöld verða ákveðin, þá verði þau sett lægri fyrir þá, sem þarna verða langvistum. Annars er það velkomið, að nefndin taki þetta frekar til athugunar til 3. umræðu og skýri þá nánar frá áliti sínu.