04.04.1932
Neðri deild: 42. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1295 í B-deild Alþingistíðinda. (903)

21. mál, geðveikrahæli

Pétur Ottesen:

Ég benti á það við I. umr. þessa máls, að með því að afnema þessi lög um stofnun geðeikrahælis er burt numin sú trygging, sem nú er fyrir því, hvað tekið er fyrir veru sjúklinga á Gamla-Kleppi. nú verða sum sveitarfélög að sjá fyrir mörgum sjúklingum á geðveikrahælunum, oft um langan tíma, jafnvel svo áratugum skiptir fyrir sama sjúkling. Það leiðir því af sjálfu sér, að ef daggjöldin eru há, þá getur það orðið sveitarfélögunum mjög þungbært, og jafnvel til þess að koma sveitarfélögunum á kaldan klaka, svo að þau verða að gefast upp á ríkissjóðinn, og það því fremur, þegar búið er að afnema þá tryggingu, sem þessi lög veita um það, að daggjöldin verði ekki há um of.

Það er svo ákveðið í fátækralögunum, að ríkissjóður borgi meðlög með þeim sjúklingum, sem eru á framfærslu sveitarfélaga, þá upphæð, sem þarf að borga með hverjum sjúklingi fram yfir 400 kr. á ári, en þetta nær ekki til þeirra sjúklinga, sem eru á geðveikrahæli. Nú eru lægstu daggjöld á Nýja-Kleppi kr. 3,50, og sjá menn, ef á að taka svo hátt gjald af sveitarfélögum eða öðrum fyrir sjúklinga, sem dvelja þar árum saman, hversu þungbært það verður. Mér virðist því varhugavert af Alþingi að fella þessi lög alveg úr gildi, nema jafnframt séu samþ. lög, sem veiti hreppsfélögum tryggingu fyrir því, að þau verði ekki krafin um hærri meðlög með sjúklingum en líkur eru til, að heim sé fært að greiða.

Ég vil að endingu beina því til hv. þm. Ísaf., sem jafnframt er landlæknir, hvort honum virðist ekki ástæða til, jafnframt því, sem þessi lög eru úr gildi numin, að bera fram frv. um það, að gera einhverjar ráðstafanir viðvíkjandi þessu, sem ég hefi nú minnzt á.