12.04.1932
Neðri deild: 49. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1301 í B-deild Alþingistíðinda. (915)

21. mál, geðveikrahæli

Vilmundur Jónsson:

Ég vil minna hæstv. dómsmrh. á það, að samkv. lögunum frá 1905, sem hér er rætt um að breyta, er ekki hægt að krefjast hærra meðlags með þurfamönnum, sem liggja á geðveikrahælinu á Kleppi — gamla spítalanum a. m. k. — en 50 aura á dag, en 1 kr. með öðrum sjúklingum, hversu ríkir, sem aðstandendurnir eru. Með þessu frv. eins og það liggur fyrir, er farið fram á að nema þessi úreltu ákvæði úr lögum, og var tilætlunin upphaflega sú, að láta óumtalað, hvað daggjöldin yrðu ákveðin þá, en því aðeins treyst, að stj. hefði þau svo sanngjörn, að hlutaðeigendur fengju vel undir risið. Nú mun það vera álit flestra hv. dm., að daggjöldin megi ekki vera hærri fyrir þurfalinga en kr. 1,50 á dag, ef sveitarfélögin eiga sæmilega að geta staðið undir þeim, og mér skilst meira að segja, að fáist það ekki tryggilega ákveðið með samþykkt þeirrar brtt., sem hér liggur fyrir, þá sé engin von um, að sjálft frv. um afnam laganna frá 1905 nái fram að ganga. Fyrir því flutti ég till. og hyggst ekki að íþyngja ríkissjóði með henni, heldur þvert á móti að létta af honum kvöðum.