16.04.1932
Neðri deild: 53. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í B-deild Alþingistíðinda. (94)

1. mál, fjárlög 1933

Frsm. fyrri kafla (Hannes Jónsson) [óyfirl.]:

Fyrir hönd n. hefi ég frekar lítið að segja. Hún ber fram nokkrar smábrtt. á þskj. 408, og skal ég fara um þær nokkrum orðum.

Fyrsta brtt. er hækkun á gjöldum til símans. Þar eru nokkrir kostnaðarliðir, sem hafa verið of lágt áætlaðir, og er sýnilegt, að verður að hækka. Það eru aðallega vextir af skuld, sem á símanum hvílir, ennfremur vextir af húseign á Seyðisfirði, og lóðum í Reykjavík og Hafnarfirði.

Sama er að segja um 2. brtt. Þar hefir n. bætt við aths.: „Til viðauka símakerfa, smærri efnis- og áhaldakaupa, afborgun af húseign á Seyðisfirði o. s. frv.“. Þessi aths. hafði staðið þarna áður, en fallið niður af vangá, en er nú tekin upp aftur samkv. ósk landssímastjóra. Ennfremur er bætt aths. við kaflann um nýjar símalínur. Hún hefir einnig staðið aður í fjárlögum, og er þess efnis, að fjárveitingar til nýrra símalína skuli vera því skilyrði bundnar, að samkomulag náist við hlutaðeigandi héruð. Þessu áleit n. að rétt væri að halda.

Næstu tvær brtt. eru leiðréttingar á því, sem n. áður hafði ákveðið, af því að hana vantaði nægar upplýsingar um þetta atriði, augnlækningastörf í Reykjavík. Búið var að lækka styrk til þessarar starfsemi niður í 500 kr., og til Ólafs læknis Þorsteinssonar úr 1000 kr. niður í 500. Nú leggur n. til, að báðir þessir liðir verði hækkaðir upp í 800 kr.

Næst koma till. um vegafé. Við 2. umr. komu fram allróttækar brtt. við brtt. n. þær voru flestar teknar aftur þá, og hefir n. nú gefizt kostur á að athuga þær. Niðurstaðan af þeim athugunum hefir orðið sú, að n. leggur nú til, að 1500 kr. fjárveiting til Vatnsskarðsvegar verði felld niður, en þessu fé skipt niður til vega á 3 þeim stöðum, sem n. taldi mesta þörf á, að vegir kæmu sem fyrst. Þar af fær Hofsósvegur 5000 kr. Af þessum vegarspotta er búið að leggja 3 km., frá Kolku og norður eftir, en oftastnær er ófært frá þessum vegarspotta að Óslandi. Ef þessi litli vegarspotti væri lagður, væru stöðugar bílasamgöngur mögulegar við Hofsós og vegina þar um kring. N. leit svo á, að þarna væri um mjög brýna þörf að ræða, og leggur því til, að þessi fjárveiting verði lögð fram.

Þá hefir n. lagt til, að Bakkafjarðar og Geithellnavegur fai hvor sínar 5000 kr. N. áleit, að þessir vegir væru mest aðkallandi af þeim vegum, sem komu fram í brtt. við 2. umr. Má vera, að n. hafi þar yfirsézt, því að mjög er erfitt að skera úr, hvar þörfin er mest í þessum efnum. Að öðru leyti hefir n. ekki borið fram brtt. við vegal., og stendur því við það sama og n. hafði áður ákveðið. Ég mun ekki fara frekar út í þau mál fyrr en hv. þdm. hafa talað fyrir brtt. sínum viðvíkjandi fjárveitingum til vega.

Þá er í brtt. n. dálítil aths. við fjárveitinguna til ríkisskipanna, svohljóðandi: „— enda fari um launagreiðslu til yfirmanna skipanna eftir lögum nr. 63, 7. maí 1928“.

Meining n. er sú, að launagreiðslur til þessara manna verði í samræmi við launagreiðslur yfirmanna á strandvarnarskipunum, því að eðlilegt virðist, að þessir yfirmenn hafi svipuð laun. Með þessu væri ríkissjóði sparaðar 20–30 hús. kr. á hverju ári.

Þá koma tvær smábrtt. við 18. gr. fjárl. Um fyrri liðinn er það að segja, að maðurinn, Sigurgarður Sturluson, er dáinn, og fellur því út af fjárlögum.

Seinni till. er nýr liður, 300 kr. styrkur til Álfheiðar Blöndal. Þessi till. er gerð samkv. venju, sem skapazt hefir undanfarin ár um póstmannaekkjur.

Þetta eru þá þær brtt., sem n. leggur til, að gerðar verði á frv., og eins og hv. dm. sjá, eru þær hvorki margar eða miklar, en samt í þá att að færa áætlanir fjárlaganna í réttlátara horf. Ég mun þá láta frekari umr. um þessar till. bíða, þar til hv. dm. hafa talað fyrir sínum brtt. En ég ætla að nota tækifærið til þess að tala fyrir lítilli brtt., sem ég flyt á þskj. 430. Á undanförnum þingum hafa verið færð inn á 18. gr. fjárl. eftirlaun handa ýmsum póstum. Við 2. umr. komst ein slík upphæð í fjárlögin, og helzt lítur út fyrir, að ýmsar séu á leiðinni þangað. Björn sá Jónsson, sem brtt. mín ræðir um, er búinn að vera póstur í 20–30 ár. Að vísu ekki á sérstaklega erfiðri leið, en þó hafa ýmsir póstar komizt á eftirlaun, sem enn hægari leið hafa haft. Ég þarf ekki að hafa langa framsögu fyrir þessari beiðni. Hún lá fyrir á vetrarþinginu, en varð þá, sem fleira, ekki afgreitt. Við vissum allir, að á sumarþinginu var alvarlega verið að hugsa um að hætta að taka þessa liði upp, og því var hún ekki borin fram þá, enda hreinsaði Ed. allar slíkar fjárveitingar burt. Nú sýnist mér stefnan orðin önnur í þinginu, þar sem nú liggja fyrir margar beiðnir um eftirlaun handa póstum, og fyrst svo er, álít ég rétt að láta þennan fljóta með, svo að hann komist í fjárlögin eða sæti þá sömu meðferð og aðrir stéttarbræður, ef hv. Ed. tekur sömu afstöðu og í sumar.

Ég tel óþarft að fjölyrða um starf þessa manns. Á vetrarþinginu í fyrra lágu fyrir vottorð þau og allar þær upplýsingar, sem Alþingi er vant að krefjast í svona tilfellum. En ég álít sjálfsagt, að eitt sé látið ganga yfir alla þessa pósta, annaðhvort verði þeir allir viðurkenndir verðir eftirlauna eða þá að enginn fái þau. Ég mundi ekkert verða óánægður, þótt þessi brtt. mín yrði felld, ef þingið tæki upp þá stefnu að veita engin slík eftirlaun, en verði það upp tekið að veita einhverjum slíkan styrk, vona ég, að þessi fái að fylgja með.