19.04.1932
Neðri deild: 55. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1311 í B-deild Alþingistíðinda. (940)

22. mál, útvarp og birting veðurfregna

Pétur Ottesen:

Í þessu frv. gerir stj. ráð fyrir, að ríkissjóður taki nokkurn þátt í þeim kostnaði, sem af því leiðir að taka á móti þessum skeytum og birta þau. Það hefir verið svo undanfarin ár, á meðan skeytin voru send í gegnum símann, að símastjórarnir á hverjum stað heldu þeim til haga og birtu þau. Ég hygg, að það hafi verið á síðasta þingi, að sú breyt. var gerð, að fela útvarpsstöðinni að senda út veðurskeyti og því létt af landssímanum, til þess að rýma þar til, því að eins og nú er, þá er viða þröngt á linum landssímans. Jafnframt var ákveðið, að Fiskifélag Íslands sæi um birtingu skeytanna og því ætluð nokkur fjárupphæð í því skyni. Ég hefði því búizt við, eins og landsstj. ætlaðist líka til, að frv. þetta væri ekki annað en logfesting á því fyrirmæli, sem tekið var upp á seinasta þingi, og myndi vera gert ráð fyrir í þessu frv., að jafnframt því, sem sett væru föst ákvæði um þetta, yrði ríkissjóður skyldaður til að leggja fram nokkurn fjárstyrk til þess að koma þessu í framkvæmd. En að því leyti sem þessi upphæð ekki hrykki til, er gert ráð fyrir, að viðkomandi menn úr hverri verstöð leggi á einhvern hátt fram það, sem á vantar. nú hefir sjútvn. komizt að því snjallræði að strika algerlega út þau akvæði, sem að þessu lúta, og gengur þar alveg í berhögg við þá ákvörðun, sem tekin var á seinasta þingi um að veita nokkurn opinberan fjárstyrk til þessa. Í nál. segir svo, að þeim, sem hér eigi hlut að máli, sé ekki nein ofætlun að kosta þetta sjálfir. En með tilliti til þess, að hér er hreint og beint um slysavarnarráðstöfun að ræða, sem þingið hefir á ýmsan hátt styrkt, þá finnst mér það engin goðgá, sem tekið var upp hér á síðasta þingi og stjórnin hefir tekið undir og byggt sínar till. á, að nokkur styrkur yrði veittur til þessa. mér þykir því harla undarleg raðabreytni sjútvn. í þessu, og ég verð að segja þeim mönnum, sem þar eiga sæti, að ég hygg, að þeir hefðu á einhverjum öðrum stað getað náð þeim sparnaði, sem þeir ætla nú að gera ríkinu. Hygg ég, að rétt hefði verið að láta þetta koma annarsstaðar niður en með því að vilja ekki unna sjómönnunum þessa stuðnings, sem leggja líf sitt í hættu árlangt til þess að afla fjár til landsþarfa.

Það þarf ekki að lýsa því, að það er ekki tekið út með sitjandi sældinni að sækja veiðar langt á haf út í svartasta skammdeginu. Er sjómannastéttin vel að því komin að njóta góðs af þeim framförum, sem orðið hafa á sviði veðurfræðinnar á síðari tímum, og að ekki sé alveg skorið niður fjárframlag, sem miðar að því, að þeir geti á auðveldan og tryggilegan hátt kynnt sér veðurfregnirnar og notið þess öryggis, sem í því er fólgið.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta, en mér fannst andinn og tónninn í þessum till. þannig, að ég fyrir mitt leyti vildi ekki láta heim ómótmælt.