16.04.1932
Neðri deild: 53. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í B-deild Alþingistíðinda. (97)

1. mál, fjárlög 1933

Jón A. Jónsson:

Ég hefi leyft mér að bera fram 4 brtt. við þetta frv., og eru þær á þskj. 418 og 430. Fyrsta till. er um byggingu á nýrri símalínu. Eins og hv. þdm. er kunnugt, er engin símalína komin ennþá í 2 nyrztu hreppa Norður-Ísafjarðarsýslu, og þó hafa þær línur staðið í símalögunum allt frá 1913, og eru þær einu símalínurnar, sem ekki er búið að leggja af þeim línum, sem teknar hafa verið upp í lög frá þeim tíma. Ég get ekki verið að endurtaka fyrir hv. þm. ástæðurnar fyrir nauðsyn þessarar símalínu, þar sem ég hefi á 5 síðustu þingum gert skýra grein fyrir þörfinni. Ég veit, að hv. þdm. er það kunnugt, hve nauðsynlegt það er fyrir héruðin að fá síma, sérstaklega fyrir þau héruð, sem eru fjarri alfaraleið og hafa erfiðar samgöngur, og eins og allir vita, þá eru samgöngur mjög örðugar í þessu héraði, sem hér er um að ræða, engar á landi og litlar á sjó.

Þá flyt ég ásamt hv. þm. Ísaf. brtt. á þskj. 418, þess efnis, að aths. við læknisvitjunarstyrkinn til Nauteyrarhrepps, — „sé héraðið læknislaust“ —, falli niður. Nú er héraðið ekki læknislaust, en læknirinn situr úti á öðrum enda héraðsins, og er því mjög örðugt fyrir hreppsbúa að vitja hans. Styrkurinn, sem stendur í frv. stj., er sambærilegur við styrk til annara hreppa. það er vegna erfiðleika að vitja læknis, að hann er veittur. Ég vænti því, að hv. fjvn. og hv. þd. sjái sér fært að samþ., að þessi aths., að styrkinn skuli aðeins veita, ef héraðið er læknislaust, sé játin falla niður.

Þá hefi ég ásamt hv. þm. Seyðf., hv. þm. Barð. og hv. þm. Mýr. borið fram till. um það, að Guðrúnu Böðvarsdóttur verði á 17. gr. áætlaður berklasjúkrastyrkur að upphæð 1200 kr. Svo stendur á með þessa stúlku, að hún var fyrst í þjónustu ríkisins, starfsmaður við Landssímann, en veiktist, og var síðan um hríð á Vífilsstöðum. Síðar varð hún að fara þaðan, ekki af því, að hún væri orðin heilbrigð, heldur af því, að álitið var, að engin smitunarhætta stafaði af henni. Eins og allir vita, er svo þröngt á þessu sjúkrahúsi, að fólk verður oft að fara þaðan áður en það er orðið heilbrigt, svo að aðrir geti komizt þar að. Ríkissjóði hefir þannig sparazt sá styrkur, sem þessi stúlka hefði fengið undanfarin ár, ef hún hefði verið á Vífilsstöðum, því að hún hefir verið heima hjá móður sinni, sem er fátæk ekkja, og hefir hún engan styrk fengið fyrir dvöl hennar þar. Þessi styrkur, sem hér er farið fram á, er alveg sambærilegur við þann styrk, sem Elínu Sigurðardóttur er veittur í 17. gr., og vænti ég því, þar sem stúlkan mun ekki fara á sjúkrahús, en er hinsvegar styrkþurfi, að móðir þessarar stúlku fái þennan styrk sem meðlag með henni.

Loks flyt ég brtt. við 22. gr., að ríkissjóður ábyrgist allt að 60 þús. kr. lán fyrir h/f Djúpbátinn til bátskaupa. Þessi heimild er í fjárl. fyrir yfirstandandi ár, en ég býst við, að vegna fjárhagsörðugleika verði ekki hægt að nota þessa heimild á yfirstandandi ári, og fer ég hví fram á, að hún verði færð yfir á árið 1933. Það er öllum kunnugt, hve mikil fjárhagsvandræði það eru, sem þetta félag á við að stríða, og hve miklu tapi það hefir orðið fyrir við að halda uppi mann-, póst- og vöruflutningi innan Norður-Ísafjarðarsýslu. Samkv. síðustu reikningum á félagið mikið minna en ekkert. Norður-Ísafjarðarsýsla hefir létt undir með félaginu með því að létta af því skuldum, og sömuleiðis Ísafjarðarkaupstaður. T. d. hafa Ísafjarðarsýslubúar lagt fram 40 þús. kr. hlutafé fyrir félagið nú fyrir nokkrum árum. Gamli báturinn, sem notaður er nú, var upphaflega ekki ætlaður til þessa starfa. Hann var keyptur, þegar fyrri báturinn strandaði, af því að þá var ekki hægt að ná í goðan bát, en nauðsynlegt að hafa þó einhverja fleytu. Hann var ætlaður til vöruflutninga, en ekki mannflutninga, þó að það hafi orðið að flytja fólk á honum undanfarin ár, af því að ekki var á öðru völ.

það verður ekki um það deilt, að það er mjög brýn þörf að fá nýjan bát til þessara ferða, þar sem þetta eru einu samgöngurnar, sem Norður-Ísafjarðarsýsla hefir. Mann-, vöru- og póstflutningar eru allir á sjó, því að ekki er um neina vegi að tala, og vegalengdir eru einnig svo miklar, að engum dettur í hug, sem þarf að fara út úr sveitinni sinni, að ferðast öðruvísi en á sjó. Þess má og geta, að þessi bátur hefir einnig annazt nokkuð flutninga í Vestur-Ísafjarðarsýslu.

þegar alls þessa er gætt, þá hljóta menn að viðurkenna, að þarna er meiri nauðsyn en nálega alstaðar annarsstaðar að hafa sæmilegan bát.