10.05.1932
Sameinað þing: 8. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1322 í B-deild Alþingistíðinda. (972)

22. mál, útvarp og birting veðurfregna

Sveinn Ólafsson:

ég vil aðeins segja, út af þeirri till., sem fram hefir komið, að taka málið. af dagskrá, að ef það verður gert, þá getur það orðið orsök þess, að málið verði ekki afgr. á þessu þingi. Fer þá sú vinna og fyrirhöfn, sem í það hefir verið lögð, algerlega til ónýtis. Færi svo, að ákvæði frv., ef til framkvæmda komast, yrðu til þess að auka mannahald hjá útvarpsstöðinni, sem mér þykir þó eigi líklegt að yrði, þá má breyta þessu síðar, þegar reynslan hefir skorið úr um það. Ég get heldur ekki fellt mig við þá breyt., sem hér er höfð í huga, að stytta þann tíma, sem veðurfregnum er útvarpað fjórum sinnum á dag. — Þetta er þá almennt um það að segja, að taka málið út af dagskrá. En ég verð að víkja um leið að till. frá sjútvn. Ed. á þskj. 667 og geta þess, í framhaldi af því, sem áður hefir verið fram tekið í Nd., að sjútvn. Nd. álítur óþarft að veita fé úr ríkissjóði til að birta veðurfregnirnar. Ég álít líka, að þetta framboð fjár geti leitt til hastarlegrar misbrúkunar. Svo hagar til sumstaðar, að verstöðvar geta verið 10–20 í sömu sveit, þar sem byggðin er strjál, en ströndin löng og vogskorin, en horfin er söm fyrir fregnirnar, hvort margir eru í verstöð eða fáir. Það verður að eftir áliti staðkunnugra manna í hverri sveit, hve mikið eigi að dreifa veðurfréttunum eða birta þær, en þar sem útvarpstæki eru nú í hverri sveit, og sumstaðar jafnvel mörg, þá er þetta tiltölulega auðvelt. En ef 50 kr. væru greiddar fyrir þetta úr ríkissjóð á hverjum stað, þar sem fregnir eru birtar, þá gæti það leitt til misbrúkunar, þannig að birt væri víða þar, sem byggðin er strjál, og kostnaður ríkissjóðs því orðið óhóflega mikill. Að vísu mundi hófs verða gætt sumstaðar, en annarsstaðar ekki, og er því ekki hættulaust að bjóða fram þetta fé, sem auðsjáanlega er óþarft. Ekki verður heldur sagt, að það sé sveitarfélögunum neitt ofurefli að hirða þær veðurfregnir, sem varpað er út, og birta þær, enda munu þau tæplega telja það eftir sér, þar sem þörf er á birtingu.