10.05.1932
Sameinað þing: 8. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1329 í B-deild Alþingistíðinda. (979)

22. mál, útvarp og birting veðurfregna

Sveinn Ólafsson:

Líklega er það að bera í bakkafullan lækinn að ræða þetta mál meira. Ég býst við, að allir hv. þm. séu þegar ákveðnir í því, hvernig þeir greiða atkv. En þar sem fram hafa komið mótmæli gegn stefnu sjútvn. Nd. í þessu máli, byggð á því, að ríkissjóði sé skylt að leggja fé fram til birtingar veðurfregna, vegna þess að með þessu frv. leggi Alþ. þá skyldu á sveitarfélögin að birta veðurfregnirnar, þá verð ég að minna á það, að Alþingi hefir lagt margfalt þyngri skyldur á sveitarfélögin án þess að bjóða um leið fram fé upp í þann kostnað, sem af þeim skyldum leiðir. Hvað er að segja um framfærslu- og fátækralögin? Er ekki með þeim lögð á sveitarfélögin hundraðföld byrði við það, sem hér er um að ræða, án þess að ríkið taki að sér nokkuð af kostnaðinum? þetta er því tóm firra og engin ástæða.

Ef hinsvegar væri hér um ríka nauðsyn að ræða fyrir sveitarfélögin að fá hjálp til þess að birta veðurfregnirnar, þá dytti mér ekki í hug að mótmæla því, að ríkissjóður hlypi undir bagga með þeim. En nú er um svo litinn kostnað að ræða, að þá er engu sveitarfélagi ofvaxið að bera hann.

Hv. þm. Borgf. lét í ljós undrun sína yfir því, að ég skyldi geta mælt með því að fella niður þennan umrædda 50 kr. styrk til sveitarfélaganna; honum virtist ég ekki hafa verið svo sinkur á fé ríkissjóðs í einhverjum öðrum till., sem hann þó ekki nefndi, hverjar væru. Slíkt órökstutt fleipur er ekki svara vert. En ég hefi áður bent á það, að ekki er hættulaust að láta þetta frv. verða að lögum með jafnteygjanlegum ákvæðum um fjárframlög, sem í því eru. Það er vissulega möguleiki fyrir því, að þau verði misbrúkuð. Hv. þm. Borgf. vildi telja það mikilsvert fyrir verstöðvar og sveitarfélög að fá þennan styrk. En ég álít, að það skipti ákaflega litlu máli fyrir þau, nema þá þar, sem svo færi, að birta þyrfti veðurfregnirnar á 10–20 stöðum í sama hreppi, svo að ríkissjóðstillagið gæti numið allt að 1000 kr. og orðið nokkrum mönnum atvinnubót !

Eins og ég tók fram, álít ég að lengri umr. um málið breyti í engu ákvörðuð hv. þm., og get því vel sætt mig við, að hér falli niður þrætan, og mun ekki gera mér far um að hafa áhrif á atkvgr.